Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Frískandi sítrónumús og heimabakað biscotti
30. mars 2017

Frískandi sítrónumús og heimabakað biscotti

Eftirréttir með sítrónubragði henta afar vel eftir góða máltíð að mínu mati þar sem sítrónubragðið er frískandi og létt.

Ég ætla að gefa ykkur uppskrift að sítrónumús (mousse) sem er einföld í framkvæmd og sem borin er fram með biscotti.  Mousse er létt í sér þar sem uppistaðan er léttþeyttur rjómi sem síðan er bragðbættur og látin kólna. Biscotti eru þurrar ítalskar kökur sem eru tvíbakaðar og oft bakaðar með möndlum og öðrum hnetum. Gott er að dýfa biscotti í kaffi eða aðra drykki.

 

Biscotti með pístasiuhnetum og möndlum

 

375 g hveiti

2 tsk. lyftiduft

¼ tsk. salt

4 msk. smjör

225 g sykur

3 egg

2 tsk. vanilludropar eða vanillusykur

100 g pistasíuhnetur

100 g möndlur

 

 

 

 

Ofnhiti: 175 °C

Mælið og blandið hveiti, lyftiduft og salt saman í skál.

Hrærið sykur og smjör saman í hrærivél.

Bætið eggjum við, einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið vanillunni saman við.

Hellið hveitiblönduninni saman við smjörsykurinn og hrærið vel saman.

Saxið hnetur og möndlur rétt aðeins og blandið þeim saman við deigið.

Núna ætti að vera kominn fínn deigklumpur sem er rétt aðeins klístraður en helst alveg saman.

Setjið bökunarpappír á bökunarplötu, skiptið deiginu í 3 hluta og setjið hvern hluta á bökunarplötuna.

Mótið hvern hluta í 15-20 cm langan hleif sem er u.þ.b. 2 cm á þykkt og þrýstið aðeins á. Hleifurinn mun stækka aðeins í ofninum.

Penslið með léttþeyttu eggi og stráið ef þið viljið örlitlum sykri yfir.

Bakið í miðju ofnsins í 23-27 mínútur.

Takið út og látið kólna.

Lækkið hitann í 150 °C.

Þegar hleifarnar hafa kólnað eru þeir skornir á ská í 1-2 cm þykkar sneiðar.

Sneiðarnar eru lagðar aftur á bökunarplötuna og bakaðar áfram í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til þær eru orðnar gylltar.

Hægt er að setja súkkulaðibita, rúsínur,trönuber og þess háttar í staðinn fyrir pistasíuhnetur og möndlur.

 

Sítrónumús

fyrir 6

 

2 sítrónur, safi og hýði

1 dl sykur

2 egg

125 g smjör

3 dl hrein jógúrt

2 dl rjómi, þeyttur

Meðlæti: Biscotti

 

Skolið sítrónurnar í volgu vatni. Rífið hýðið og kreistið safann.

Þeytið sykur og egg þar til létt og ljóst og bætið sítrónusafa ásamt hýðinu saman við eggjablönduna.

Bræðið smjör í potti og blandið eggjasítrónukremi saman við. Lækkið hitann. Hrærið stöðugt.

Látið þessa blöndu sjóða við vægan hita þar til komið er þykkt krem. Takið frá hitanum og látið kólna.

Hellið jógúrtin í skál og blandið sítrónukreminu saman við.

Þeytið rjómann og blandið honum saman við músina / jógúrtsítrónukremið.

Setjið í fallegar desertskálar eða glös.

Geymið í kæli þar til borið er fram.

Skreytið með sítrónuberki (eða einhverju öðru fallegu sem ykkur dettur í hug) og berið fram með biscotti. 

 

Verði ykkur að góðu!

Matarást,

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!