Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Fljótleg og falleg brauð
01. september 2017

Fljótleg og falleg brauð

 

Það er fljótlegt að baka brauð með lyftidufti þar sem brauðið fer strax í ofninn og deigið þarf ekkert að hefast. Deigið er hrært með sleif og óþarfi er að hnoða það mikið.

Hér eru tvær uppskriftir að góðum og fallegum brauðum með þessari aðferð. Annað er bragðbætt með rifnum osti, salami og ferskum kryddjurtum á meðan hitt er stútfullt af hollum fræjum og rifnu epli sem gerir það safaríkt og mjúkt.

Fljótlegt kryddjurtabrauð með osti og salami

5-6 dl hveiti (byrja með 5 og bæta svo við eftir þörfum)

1 ½  tsk. lyftiduft

100 g rifinn ostur

100 g salami eða reykt skinka (skorin í strimla)

1 box ferskt rósmarín eða timjan (rúmlega helmingurinn notaður)

2 dl mjólk

2 msk. dijon sinnep

Gott flögusalt

 

Ofnhiti: 200 °C

Setjið hveiti, lyftiduft, rifinn ost, salami, smá af salti og aðeins af kryddjurtunum í skál.

Blandið saman mjólk og dijon sinnepi.

Hellið mjólkinni saman við hveitiblöndunina og hrærið saman.

Deigið má vel vera aðeins klístrað en bætið samt örlitlu hveiti við eftir þörfum þar til nokkuð gott deig hefur myndast.

Takið til kringlótt form, smyrjið það og dustið það með hveiti.

Setjið deigið í formið og þrýstið aðeins á það svo það þekji nokkurn veginn botninn á forminu.  

Stráið grófu salti yfir og dreifið aðeins af kryddjurtunum yfir.

Bakið brauðið neðarlega í ofninum í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til brauðið er orðið gyllt og fallegt á litinn.

Stráið meira kryddi yfir brauðið og jafnvel aðeins af fallegu salti áður en það er borið fram. 

 

 

Safaríkt eplabrauð

5 dl hveiti

2 dl haframjöl

1 ½ dl hörfræ

1 dl sólblómafræ

½ dl graskersfræ

Salt eftir smekk

2 tsk. lyftiduft

3 msk. hunang eða hlynsíróp

4 dl AB-mjólk, skyr eða hrein jógúrt

1 epli, rifið

Graskersfræ ofan á brauð

Ofnhiti: 175 °C

Blandið saman í skál hveiti, haframjöli, hörfræjum, sólblómafræjum, graskersfræjum, salti og lyftidufti.

Hrærið saman hunangi, AB-mjólk og rifnu epli í annarri skál.

Hellið því saman við hveiti- og fræblönduna. Hrærið saman. Deigið verður nokkuð klístrað.

Tyllið bökunarpappír í brauðform og hellið deiginu í formið.

Stráið graskersfræjum yfir.

Bakið neðarlega í ofninum í u.þ.b. 50-55 mínútur.

Verði ykkur að góðu og njótið vel. 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!