Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Fjögurra hæða súkkulaðikaka fyrir sérstaka daga
05. janúar 2016

Fjögurra hæða súkkulaðikaka fyrir sérstaka daga

Afmæli!

Nóg er af afmælisdögum og þá er gaman að bjóða upp á þessa köku! Þegar ég á afmæli baka ég köku fyrir sjálfa mig og þá vel ég mér einhverja sem mér þykir ofboðslega góð og sem er skemmtilegt að búa til - í desember sl. bakaði ég fjögurra hæða súkkulaðiköku handa mér.

Botnarnir eru dúnmjúkir og kremið bragðgott og flauelsmjúkt.

Ekki skemmir fyrir hvað kakan er glæsileg að bera fram og skera í sneiðar. Svo er upplagt að skreyta hana með hverju sem þig langar - ávöxtum, sælgæti eða poppkorni?

Kremið er best að búa til deginum áður en það er borið á kökuna og dugar það vel á milli botna og ofan á kökuna. 

 

Fjögurra hæða súkkulaðikaka og súkkulaðikrem

140 g suðusúkkulaði

250 g smjör

4 egg

5 dl sykur

7 ½ dl hveiti

4 msk kakó

2 tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

½ tsk salt

2 msk vanilludropar eða vanilluduft

5 dl ab-mjólk eða súrmjólk

 

Krem

3 dl sykur

6 msk hveiti

4 msk kakó

4 dl mjólk

150 g suðusúkkulaði

500 g smjör

Aðferð

Byrjum á kökunni. Stillið hitann á ofninum á 170°C.

Takið til tvö bökunarform, þetta mega vera springform eða önnur kringlótt form. Smyrjið formin eða klæðið þau með bökunarpappír.

Mælið og bræðið smjörið. Þegar smjörið er bráðnað er súkkulaðið sett saman við og látið bráðna með smjörinu. Látið kólna.

Brjótið eggin í hæriskál og bætið við sykri. Þeytið eggin og sykurinn þar til blandan er orðin létt og ljós.

Mælið öll þurrefnin og setjið þau í sér skál. Hrærið þeim saman með sleif áður en þeim er hellt saman við eggjablöndunina. Þeytið saman

Mælið ab-mjólkina og hrærið hana saman við kökudeigið ásamt vanillu og smjör-súkkulaði. 

Skiptið deiginu jafnt á milli kökuforma. Setjið þau strax í ofninn, frekar neðarlega og bakið kökurnar í 40-50 mínútur. 

 

Krem

Gott er að gera kremið deginum áður þar sem það þarf að stífna í kælinum áður en það er borið á kökuna. Annars má auðvitað búa til hvaða kökukrem sem er og nota það.

Setjið pott á eldavélina. Mælið sykur, hveiti, kakó og mjólk og hellið í pottinn. Á meðan suðan er að koma upp er nauðsynlegt að þeyta létt í kreminu. Lækkið hitann þegar byrjað er að búbla og sjóða. Bætið við smjöri og súkkulaði og hrærið í á meðan bráðnar.

Setjið kremið í skál, með plastfilmu yfir og geymið í kæli í a.m.k. 2-3 tíma. Kremið á að vera þétt og þungt í sér svo hægt sé að dreifa því yfir kökuna og á milli botnanna. Þegar kremið er tilbúið og búið að kælast nóg er nauðsynlegt að þeyta það aftur í nokkrar mínútur með rafmagnsþeytara áður en því er dreift á kökuna.

Skreytið kökuna að vild. Ég notaði muldan bismark-brjóstsykur ofan á mína köku.

 

Verði ykkur að góðu og gleðilegt nýtt matar- og köku ár!!!

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!