Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Eplakaka með vanillukremi
16. október 2018

Eplakaka með vanillukremi

Besta eplakakan með silkimjúku vanillukremi

Haustið er svo sannarlega komið og hvað er þá betra (og huggulegra) en að baka eplaköku? Fljótleg og svakalega góð til að bjóða upp á í sunnudagskaffinu eða eftir sunnudagssteikina, eða bara vegna þess að það er miðvikudagur! Ég fór með mína í vinnuna og þar vakti kakan mikla lukku. Vanillukremið er svo enga stund að hræra í og bera fram með enda fullkominn félagi eplakökunnar.

 

Eplablanda

3 - 4 epli (fer eftir stærð) 

½ dl sykur

1 msk. kanill

 

Kaka

180 g smjör, mjúkt

4 dl sykur

3 egg

2 dl mjólk (gott að nota nýmjólk)

4 dl hveiti

1 msk. vanillusykur eða vanilludropar

1 msk. lyftiduft

15 -20 kardimommu kjarnar, muldir um 2 -3 tsk.

 

Ofnhiti: 175 °C

Takið til ofnskúffuform (25 x 30 cm) og setjið í það bökunarpappír eða smyrjið það með feiti og dustið með t.d. hveiti eða kókos. Takið hýðið af eplunum (ég nota 3 Jona Gold epli) og skerið þau í nokkuð þunna báta. Blandið sykri og kanil saman í skál og veltið eplasneiðunum upp úr blöndunni.

Þeytið smjöri og sykri saman þar til það er orðið mjög ljóst og létt og sykurinn búinn að blandast vel saman við smjörið.

Bætið eggjunum saman við, einu í einu (mér finnst best ef eggin eru við stofuhita) og þeytið vel á milli. Hellið mjólk ásamt vanilludropum/sykri út í og blandið saman.

Blandið saman hveiti og lyftidufti og hrærið varlega saman við. Hellið deiginu í formið. Raðið eplabitunum yfir deigið með því að þrýsta þeim létt ofan í. Þeir sökkva ofan í kökuna þegar hún bakast. Það er mjög gott að strá ögn af kanilsykri yfir kökuna áður en hún bakast.

Bakið kökuna neðarlega í ofninum í 25 -35 mínútur.

Látið kökuna kólna aðeins áður en hún er skorin í bita. Berið hana fram með vanillurjómakremi. Kakan er líka mjög góð daginn eftir að hún er bökuð.

 

Vanillukrem

2 eggjarauður

2 msk. sykur

1 msk. vanillusykur eða 1 vanillustöng

3 dl þeyttur rjómi frá Gott í matinn

 

Þeytið saman eggjarauðum, sykri og vanillu þar til blandan er mjög létt, ljós og loftmikil.

Þeytið rjóma. Gott er að hafa hann frekar léttþeyttan.

Blandið eggjablöndunni saman við rjómann og berið fram með volgri eplakökunni. Vanillukremið geymist vel fram á næsta dag.

Njótið vel! Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!