Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Eggjakaka, tandoori-ýsa og skyr
29. janúar 2015

Eggjakaka, tandoori-ýsa og skyr

Hvað freistar okkar í janúar eftir hátíðarnar? Það getur verið erfitt að byrja á venjulegu mataræði aftur - það finnst mér allavega. Þess vegna er mikill léttir að mæta í vinnuna aftur og elda „venjulegan“ mat fyrir mikilvægasta litla fólkið í heimi. Ég ætla stinga nokkrum uppskriftum að ykkur af því sem ég hef verið að fást við undanfarna daga - þær eru allar einfaldar, fljótlegar og að sjálfsögðu góðar á bragðið - það gerist ekki betra, er það nokkuð? 

Eggjakaka - fyrir einn til tvo.

 

2 eggjahvítur
1 egg
Pínu mjólkur- eða rjómadreitill
Saltflögur eftir smekk
Pipar eftir smekk
Tómatar í sneiðum
Spínatblöð eða önnur salatblöð
Ristaðar furuhnetur
Rifinn ostur


Mér finnst best að nota pönnukökujárnið til að steikja eggjakökur á.

Sláið eggin létt saman í skál með gaffli. Kryddið.

Hitið örlítið af olíu á pönnunni sem þið notið og hellið eggjunum á hana. Látið eggin stirðna rétt aðeins. Lyftið pönnunni aðeins frá hitanum ef ef ykkur finnst þurfa. Setjið aftur á hitann. Setjið rifinn ost yfir ef þið notið hann.

Leggið tómatana yfir ásamt spínatinu. Látið eggjakökuna klárast. Stráið nokkrum furuhnetum yfir. Látið hana renna yfir á disk og lokið henni til helmings. 

-----

Tandoori-ýsa á hrísgrjónabeði með rifnu gulrótar- og hvítkálssalati


Marinering

3 dl AB-mjólk eða hrein jógúrt
2 msk tandoori-krydd eða eftir smekk
1-2 tsk malað kúmen
Saltflögur eftir smekk
Fersk smátt söxuð steinselja
Chiliflögur - nokkrar
2-4 cm engifer, rifið
1 sítróna, safinn kreistur

 

 

Annað hráefni sem þarf

Ýsuflak 1 stykki eða annan fisk eftir smekk
Rifinn ostur
3-4 dl soðin hýðisgrjón eða bygg
Nokkrar gulrætur og hálfur hvítkálshaus sem er rifið og blandað saman í salat.


Hráefnunum fyrir marineringuna er blandað saman í skál.

Stærðin á ýsuflakinu fer að sjálfsögðu eftir fjölda manns í mat og er flakið skorið í bita, sett í marineringuna og látið standa í alla vega klukkutíma en má alveg liggja í henni í sólarhring.

Stillið hitann á ofninum í 180 °C

Hýðisgrjón eru soðin og sett í botninn á eldföstu móti.

Ýsubitunum er raðað yfir grjónin og afganginum af marineringunni hellt yfir. Stráið rifnum osti yfir og bakað í ofninum í 14-16 mínútur - tíminn fer að sjálfsögðu eftir ofnum.

Berið fiskréttinn fram með rifnum gulrótum og smátt skornu hvítkáli.


-----

Eftirréttur eða morgunverður


1 dós hreint skyr
Granola, heimagert eða keypt
Ferskir ávextir eftir smekk (má sleppa)
Hunang

 

Skyr með granola, ferskum ávöxtum og hunang í eftirrétt.

Notið hreint skyr eftir smekk. Stráið ferskum ávöxtum yfir og dreypið smá hunangi og granola yfir. 


Verði ykkur að góðu!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!