Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Chilihugleiðingar
29. október 2014

Chilihugleiðingar

Ég var með matarboð um helgina og vildi bjóða upp á eitthvað í einfaldari kantinum sem tæki ekki of langan tíma til að elda, en sem samt mjög bragðgott og þægilegt

í matreiðslu. Og þá var Chili con Carne  alveg kjörið. Allt hráefni sett í pott og látið malla eins lengi og hægt er. Á meðan chili-íð mallar eru hrísgrjónin soðin, salatið er útbúið og jafnvel ein lítil nett sósa með t.d sýrðum rjóma og rifinni gúrku útbúin.

Uppskriftir eiga það til að fylgja mér árum saman og þróast með mér. Þannig er það með þessa uppskrift af chili. Get ekki alveg sagt hvenær ég borðaði minn fyrsta disk en ég var ekki orðin mjög há í loftinu - það er víst. Chili-ið sem ég býð upp á hefur mikið bragð af kúmen, sprengju af chiliflögum og sætubragð frá papríkunni (ásamt súkkulaðibragðinu). Í það nota ég ýmist nautahakk eða bara grænmeti.

Chili án kjöts nefnist Chili sin Carne og er alveg jafn gott og spennandi á bragðið. Ég býð oft upp á grænmetis-chili og þá nota ég t.d. sætar kartöflur, gulrætur  og blómkál en það er auðvitað smekksatriði og hægt er að leika sér endalaust með hvaða grænmeti sem er.

Ef það er chilli-keppni einhverstaðar á næstunni þá er þessi uppskrifti með!!

 

Í lok máltiðar finnst mér alveg nauðsynlegt að bjóða upp á eitthvað sætt. Jafnvel bara súkkulaðimoli – ég hef alltaf nóg pláss fyrir eftirrétti og kökur og finnst þeir yfirleitt mest spennandi á matseðlinum.

Einföld og fljótleg lausn á t.d köku er rúlluterta.

Rúllutertur eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær eru alls ekki flóknar og mjög fljótlegar. Og ofboðslega góðar. Fyllingin ræðst af því hvað sé til í skápnum -  hún getur verið mjög spari með kaffinu, breyst í dásamlegan desert eða jafnvel í prínsessutertu með smá marsipan. 

Og já - Það var borðað mjög vel af chili-inu og ég fékk líka eitt tips um að kaffi væri mjög gott út í chili! Það verður auðvitað prófað! Njótið vel,

Matarást

Tedda


Chili con carne fyrir 6 manns

2 msk olía og 2 msk smjör

2 gulir laukar

4 hvítlauksrif

1 msk heilt kúmen

1/2 gul papríka

1/2 rauð papríka

1/2 græn papríka

500 g nautahakk

Saltflögur eftir smekk

Svartur pipar grófur efir smekk

Chiliflögur eftir smekk

1 msk worchestershiresósa

2 teningar grænmetiskraft

1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar

1 dós bakaðar baunir

1 dós nýrnabaunir

1 msk hunang

1 box rifinn rjómaostur með svörtum pipar

100 g suðusúkkulaði

Steinselja til að skreyta með

 

Hvernig er gert? 
Hitið olíu og smjör á pönnu eða notið djúpan pott. Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og bætið við ásamt kúmenið. Látið laukinn verða glærann og finnið dásamlegan ilminn fylla eldhúsið!  Skerið papríkurnar i teninga og bætið við. Látið  svitna í pottinum.  Setjið nautahakkið saman við og látið það brúnast með grænmetinu. Kryddið með salti, pipar, chiliflögum og worchestershiresósu. Farið varlega með chiliflögurnar. Það þarf oftast ekki mikið af þeim. Opnið dósirnar og setjið innihaldið í pottinn. Hrærið og látið suðuna koma upp og lækkið þá hitann eitthvað. Látið malla hægt og rólega í klukkutíma ef hægt er. Setjið hunangið, rjómaostin og sukkulaðið út í og látið það bráðna með. 

Skreytið með steinselju þegar borið er fram. 

Með chili-ínu er afbragðsgott að bera fram hrísgrjón, maisbaunir, salat og kalda sósu.

 

 

 

 

Rúlluterta

Botn

3 egg

2 dl sykur

2 dl hveiti 

2 tsk lyftiduft

1/2 msk vanillusykur eða dropar

1 msk sýrður rjómi

 

Ofnhiti: 225 °C

Timi:  5 – 8 mínútur minútur

 

Settu bökunarpappír í ofnskúffu. 

Þeyttu egg og sykur saman þar til ljóst og létt. 

Hrærðu saman hveiti , lyftiduft og vanillu (ef þú notar duftið - annars fara droparnir beint i eggjadeigið) í skál og helltu saman við eggin. Blandaðu því varlega saman og bættu síðast við skeið af sýrðum rjóma.  Helltu deigið í ofnskúffuna og dreifðu vel úr því út í kant á skúffunni. 

Settu kökuna í ofnin og bakaðu hana í 5 – 8 mínútur.

Á meðan leggur þú örk af bökunarpappír á borð og stráir aðeins af sykri yfir pappírinn. Þegar kakan er tilbúin kippir þú einfaldlega í hornin á bökunarpappírinn og vippar henni yfir á hinn  pappírinn. Þar næst er að draga pappírinn af. Gerðu það varlega. Ef þér finnst hann vera fastur á er gott að pensla pappirinn með vatni og síðan losnar hann auðveldlega af.

 

Hvað viltu nota sem fyllingu?
Hægt að smyrja rúllutertuna sína með nánast hverju sem er.  Ég ætla að stinga upp á eina sultu fyllingu og aðra með súkkulaði.

 

Súkkulaðismjörkrem

100 g smjör

1 msk kakóduft

1 dl flórsykur

Vanilludropar eftir smekk

 

Allt er hrært vel saman.

 


Hindberjakrem

100 g rjómaostur

1 dl hindberjasulta

Allt hrært vel saman.

Smyrðu tertuna og rúllaðu henni varlega saman. Geymdu hana í frysti ef þú ætlar ekki að bjóða upp á hana strax.

 

 

Prinsessu bakkelsi
Notaðu hindberjafyllinguna, og rúllaðu tertuna inn í grænt marsipan sem búið er að fletja út örþunnt. Skerðu tertuna í sneiðar, skreyttu með þeyttum rjóma og fallegu beri.

 

200 g marsipan

Grænn matarlitur

Örlítið af flórsykur

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!