Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Bountykaka með kókos og súkkulaði
22. september 2017

Bountykaka með kókos og súkkulaði

Ég bauð upp á þessa köku um daginn fyrir samkennara mína sem glöddust mjög mikið og sögðu hana vera afar gómsæta. 

Uppskriftina rakst ég á á internetinu fyrir nokkru og hef aðeins fiktað í henni. Fyrir alla þá sem elska kókos er hún svo sannarlega eins og konfektmoli (eða eins og eitthvað enn þá betra - Bounty). Súkkulaðibotninn er pínu seigur og alveg mátulega klesstur. Fyllingin er kremkennd  og sæt (sem kemur af sætri mjólkinni) með suðrænu kókosbragði. Svo er undir ykkur komið hvaða súkkulaði þið viljið bræða til að hella yfir í lokin. Ég hef prufað að nota suðusúkkulaði, rjómasúkkulaði en einnig hef ég brætt 56 % súkkulaði sem kom ljómandi vel út.  Kakan er svo skorin í fallega litla munnbita eftir að hún er búin að standa í kæli. Það er alveg hægt að frysta þessa köku.

Browniebotn

3 egg

3 dl sykur

2 tsk. vanillusykur

1 ½ dl hveiti

4 msk. kakó

Örlítið salt

150 g brætt smjör

120 g suðusúkkulaði

 

Ofnhiti: 200 °C

Bræðið smjör og bætið súkkulaði út í. Slökkvið á hitanum og látið súkkulaðið bráðna í smjörinu.

Þeytið egg og sykur létt saman.

Bætið vanillusykri, hveiti, kakó og salti saman við. Blandið vel.

Hellið smjöri og súkkulaði síðast saman við og hrærið varlega svo blandist vel.

Gott er að tylla bökunarpappír í formið sem þið ætlið að nota.

Hellið deigið í ferkantað form, 23 x 30 cm eða svipað að stærð og bakið neðarlega í ofninum í u.þ.b.

25 mínútur.

Kælið kökuna aðeins, setjið hana svo í ísskáp og látið kólna alveg þar – þá verður kakan mátulega seig og klesst.

 

Kókoskrem

200 - 250 g kókos

1 dós sweetened condensed milk, u.þ.b. 400 g  (sæt mjólk í dós)

 

Hellið innihaldi dósarinnar í skál og hrærið kókosinum saman við. Þessi mjólk fæst í flestum búðum núorðið m.a. í Nettó og í Krónunni.

Kremið verður þykkt og klístrað og þegar kakan er orðin köld er því dreift yfir kökuna. Þjappið niður með skeið og sléttið úr. Setjið kökuna aftur í ísskáp.

 

Súkkulaðitoppur

200 g suðusúkkulaði eða rjómasúkkulaði

1 msk. kókosolía

 

Bræðið súkkulaði í vatnsbaði og bætið svo einni matskeið af kókosolíu saman við.

Dreifið súkkulaðið yfir kókoskremið. Setjið aftur í kæli.

Skerið kökuna í mátulega bita og berið fram. 

 

Njótið vel!
Kveðja,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!