Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Bananaskúffukaka með glassúr að hætti Teddu
30. september 2016

Bananaskúffukaka með glassúr að hætti Teddu

 

Ég átti þónokkuð af bönunum sem lágu undir skemmdum hjá mér eftir að hafa hrært í dödlukúlur með fimmta bekk hér í heimilisfræðinni. Ég setti slatta af þeim í frystirinn til að nota í framtíða smoothie, en afganginn notaði ég í þessa mjög svo góða köku sem ég bauð upp á og sló hún í gegn bæði hjá fullorðnum og börnum. Hún er dúnmjúk, safarík, pínuponsu klessuleg, fljótleg, einföld og bakast á 20 mínútum!

Getur kaka verið betri?

Að sjálfsögðu er hægt að minnka magn sykurs í uppskriftinni eins og hentar. Og ég baka þessa köku í ofnskúffu. Gangi ykkur vel!

Hráefni

3 egg

4  dl sykur

 4 mjög þroskaðir bananar

150 g brætt smjör

1 ½ tsk. lyftiduft

¾ tsk. matarsódi

2 tsk. vanillusykur

5-6 dl hveiti

3 msk. mjólk

 

Glassúr

100 g brætt smjör

1 msk kakó

2 tsk vanillusykur

3 dl flórsykur (gæti þurft aðeins meira)

1 msk mjólk

Rifinn kókós

 

Aðferð

Ofnhiti 200 ° C

Þeytið egg og sykur létt og ljóst.

Stappið bananana og hrærið þeim saman við eggin.

Bræðið smjörið. Blandið því saman við eggjablöndunina ásamt lyftidufti, matarsóda, hveiti, vanillu og mjólk.

Notið sleikju og hrærið öllu vel en varlega saman.

Hellið í smurða ofnskúffu (gott að hafa bökunarpappír í) og bakið í um 20 mínútur.

 

Glassúr

Bræðið smjörið og hellið í skál.

Blandið kakó, vanillu og flórsykur saman við og hrærið.

Hellið mjólk saman við og hrærið vel. Dreifið kreminu yfir kökuna þegar hún er kólnuð og stráið kókós yfir.

 

 

Verði ykkur að góðu!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!