Thelma Þorbergsdóttir
Trolls afmæli, Rice Krispies og heitur réttur
22. mars 2017

Trolls afmæli, Rice Krispies og heitur réttur

Í febrúar varð Kristófer 8 ára, ótrúlegt en satt og er hann duglegur að segja frá því hvað hann sé orðinn gamall. Hann ætlaði að hafa Leynilíf dýranna afmæli en eftir að hafa horft 100x á Trolls myndina, syngja og dansa með henni skipti hann um skoðun. Litadýrðin í þessari mynd er æðisleg og boðskapurinn líka svo það var ekki leiðinlegt að skreyta kökuna í þeim litum. Ég ætla því að deila með ykkur hvernig ég gerði kökuna og hvað hægt er að föndra saman til að gera afmælið extra skemmtilegt. Einnig ætla ég að deila með ykkur heitum rétti sem er fullur af ostum og alveg hrikalega góður ásamt klassísku Rice Krispies með súkkulaði sem mér finnst alltaf best.

 

Kristófer var svo spenntur og sáttur!

Diskana og glösin keypti ég í Allt í köku, ásamt dúk. Rörin fást í Ikea og krukkan undir þau líka. Kökudiskurinn var einnig keyptur í Ikea. Við keyptum fallega bláar servíettur í Ikea sem pössuðu vel við.

 

Þegar ég geri afmæliskökur nota ég alltaf gömlu góðu skúffuköku uppskriftina mína sem er búin að vera í fjölskyldunni frá því ég var lítil. Hún helst mjúk svo lengi og auðvelt að vinna með botnana þegar maður er að stafla kökum saman. Ég gerði tvöfalda uppskrift og notaði tvö 24cm form og tvö minni. 

Síðan þurfti ég fjórfalda uppskrift af smjörkremi til þess að skreyta þessa köku. Uppskrift að vanillusmjörkreminu er jafnframt hægt að nálgast á blogginu mínu.

Ég notaði sprautustút 1M, það er hægt að nota hann á svo marga vegu. Eftir að ég festi kökuna saman með smjörkremi, svona grunnlagi, skipti ég restinni af kreminu í 4 hluta og litaði þá með bleikum, grænum, bláum og gulum matarlit. Mikilvægt er að nota gelmatarlit en þeir fast t.d. í Allt í köku í öllum litum. Þegar ég var búin að sprauta hliðarnar á kökunni blandaði ég kremunum saman í einn sprautupoka og skreytti rest. Þannig gerði ég einnig efri hluta kökunnar. Svo þar sem þetta er Trollskaka varð auðvitað að vera glimmer, ég var með silfurlitað glimmer sem ég blés á hliðar kökunnar. Svo skelltum við nokkrum hressum Trolls köllum ofan á kökuna ásamt stjörnuljósi sem er algjör nauðsyn í afmælum á þessu heimili. Það er hægt að fá stjörnuljós í öllum númerum og bara venjuleg í nokkrum litum.

Rice Krispies kökur

Innihald

200 g Rice Krispies

100 g smjör

300 g dökkt súkkulaði

7 msk. síróp í dós

Aðferð

Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti undir lágum hita þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Bætið sírópinu saman við og hrærið vel. Hellið súkkulaðiblöndunni yfir Rice Krispies og hrærið vel þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið í bollakökuform og kælið inni í ísskáp þar til súkkulaðið hefur náð að storkna utan um og festa það saman. Best er að geyma kökurnar í kæli þar til þær eru bornar fram.

Við skreyttum kökurnar með Trollsmyndum sem hægt er að nálgast á þessari síðu: http://halegrafx.com/printables/free-printable-trolls-cupcake-toppers/

Ég klippti þær út og límdi tvær eins myndir saman á tannstöngul sem auðvelt er að stinga ofan í Rice Krispies kökurnar.

 

Við skreyttum einnig vatnsflöskur, um að gera að safna sér glerflöskum af allskonar drykkjum til að nýta í afmæli. Hérna er hægt að nálgast miðana á vatnsflöskurnar: http://halegrafx.com/printables/free-printable-trolls-water-bottle-labels/

Einnig gerðum við nafnið hans Kristófers og límdum á band og hengdum upp við afmælisborðið. Það er hægt að skrifa hvað sem er. Hérna er hægt að nálgast allt stafrófið, þó á ensku: http://halegrafx.com/sharepoint/free-printable-trolls-alphabet-banner-pack/

Þessi réttur sló í gegn og var fljótur að klárast. Hann er aðeins sterkur sem er svo gott og nóg af osti til að bleyta vel upp í brauðinu.

Heitur réttur með ostum

Innihald

1 franskbrauð

1 stk. piparostur

1 stk. Mexíkóostur

1 askja skinkusmyrja

2 dl mjólk

1 bréf af pepperóní

1 bréf af skinku

1 rauð paprika

1 græn paprika

1 poki af rifnum osti, ég notaði Pizzaost

Aðferð

Setjið mjólk í pott undir meðalháum hita. Skerið ostana niður í litla bita og blandið þeim saman við mjólkina ásamt skinkumyrjunni. Hrærið saman og látið ostana bráðna alveg. Skerið pepperóní í litla bita ásamt skinkunni og blandið saman við ostablönduna þegar hún hefur náð að bráðna alveg. Skerið skorpuna af franskbrauðinu og skerið brauðið niður í litla teninga. Skerið paprikurnar smátt niður. Setjið helminginn af brauðinu í eldfast form ásamt helmingnum af rauðu og grænu paprikunni. Hellið ostablöndunni yfir brauðið. Setjið því næst restina af brauðinu yfir ostablönduna ásamt paprikunni og setjið rifinn ost yfir. Setjið inn í ofn við 200 gráðu hita og bakið þar til osturinn hefur náð að bráðna og rétturinn orðinn vel heitur. Njótið.

 

Verði ykkur að góðu!

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Einnig getið þið fylgst með Freistingum Thelmu á Facebook

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!