Thelma Þorbergsdóttir
Tiramisu og piparkökumarengs
13. desember 2018

Tiramisu og piparkökumarengs

Fljótlegir eftirréttir í jólaboðið

Ég er heldur betur komin í jólaskap þessa dagana og hlusta ekki á neitt nema jólalög og sit og skoða uppskriftabækur á meðan ég ákveð hvaða smákökur ég ætla að fylla kökudúnkana um jólin af. Nú er bara að bíða eftir snjónum og þá er allt eins og það á að vera! En í desember er mikið um veisluhöld, matarboð og jólahittinga hjá vinahópum og vinnufélögum. Þá er tilvalið að geta boðið upp á fljótlega eftirrétti. Mér finnst ótrúlega gaman að bera fram eftirrétti í glösum eða fallegum desert skálum svo hver og einn gestur fái sinn fullkomna eftirrétt í sinu glasi til að bragða á. Ég ætla að deila með ykkur einföldu og fljótlegu Tiramisu og piparkökumarengs í glasi með karamellu.

 

Tiramisu á nokkrum mínútum

Fyrir 3-4

Innihald

1 ½ dl rjómi frá Gott í matinn

80 g sykur

130 g mascarpone ostur við stofuhita

6-8 stk. kökufingur (Lady fingers)

1 ½ dl sterkt kaffi, espresso eða 1 ½ dl soðið vatn og 1 msk. skyndikaffi

3 msk. kakó, eða eins og þið viljið

1 msk. Kalhua eða t.d. Amaretto, þessu má sleppa!

 

Aðferð

Hrærið sykur og rjóma saman þar til róminn fer alveg að vera þeyttur til fulls. Setjið marscapone ostinn saman við og hrærið þar til blandan verður stífþeytt. Ef þið ætlið að nota kalhua þá blandið þið því saman við hér. Setjið 1 msk. af rjómablöndunni í hvert glas fyrir sig. Setjið kaffi í skál og dýfið kökufingrunum ofan í og setjið í glösin. Sigtið kakó yfir og endurtakið þar til glösin eru orðin full. Sigtið vel af kakói yfir toppinn og geymið í kæli þar til borið er fram.

 

 

Piparkökumarengs í glasi

Fyrir 4 – 6

Innihald

3 eggjahvítur

170 g sykur

100 g piparkökur, hakkaðar        

½ lítri rjómi frá Gott í matinn

 

Púðursykurskaramella

100 g púðursykur

½ dl rjómi frá Gott í matinn

30 g smjör

¼ tsk. salt

½ tsk. vanilludropar

 

Aðferð

Þeytið eggjahvítur og bætið sykri saman við. Þeytið þar til  marengsinn verður stífur og stendur. Hakkið piparkökurnar gróflega niður og hrærið saman við marengsinn með sleif. Setjið smjörpappír á bökunarplötu og myndið hring úr marengsinum. Bakið við 150 gráðu hita í 30-40 mínútur eða þar til marengsinn er orðinn þurr viðkomu. Leyfið marengsinum að kólna og brjótið hann svo gróflega niður.

Útbúið nú karamelluna með því að setja allt hráefni saman í pott yfir meðalháum hita og hrærið af og til. Þegar púðursykurinn er alveg bráðnaður saman við allt látið þá karamelluna sjóða í nokkrar mínútur, hrærið stanslaust svo hún brenni ekki við. Því lengur sem þið hitið hana því þykkri verður hún. Setjið karamelluna í ílát/krukku og kælið t.d. inni í ísskáp í örstutta stund. Karamellan má ekki vera sjóðandi heið þegar hún er sett ofan á rjómann því annars bráðnar hann.

Þeytið rjóma á meðan að karamellan er að kólna. Setjið rjóma í glas/skál, setjið marengsbita ofan á og síðan karamellu. Endurtakið þar til glasið er orðið fullt. Setjið karamellu ofan á toppinn ásamt hökkuðum piparkökum. Skeytið með piparkökum að vild. Geymið í kæli þar til borið er fram.

Einnig er hægt að gera marengsköku úr þessari uppskrift en þá mæli ég með að tvöfalda marengsinn og gera tvo botna. Setja rjóma á milli og nóg af karamellu ofan á ásamt piparkökum.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!