Thelma Þorbergsdóttir
Tex - Mex tortilla pizza með kjúkling og bláberjakaka með rjómaostakremi
26. maí 2014

Tex - Mex tortilla pizza með kjúkling og bláberjakaka með rjómaostakremi

Ég er mjög spennt að fara í sumarfrí og margt sem er að gerast hjá okkur litlu fjölskyldunni, t.d. er ég að fara á risastóra ráðstefnu um downs heilkenni í júlí og er mjög spennt fyrir því. Við erum svo að fara eyða júlímánuði í flutninga og svo vonandi verður einhver tími til að fara í smá útileigur og á fjölskylduóðalið okkar Hjörsey í Faxaflóa.

 

Já svo má ég nú ekki gleyma því að prinsessan á heimilinu verður 4 ára 19. júní, já á kvenréttindadaginn enda er hún algjör skörungur og ákveðin elsku barnið. Það er búið að panta Frozen afmæli með meiru! Og þvílíkur spenningur sem er hér á heimilinu, Frozen lögin eru sem sagt sungin hér daginn inn og daginn út, bæði Hildur og Kristófer og þvílík innlifun! Og já....ég verð að segja að ég myndi ekkert gráta þó að  ég myndi ekki heyra þessi lög næstu  mánuði....eða þá sérstaklega Mr. Handsome sem er orðin frekar þreyttur á að vera með “viltu koma og gera snjókall” á heilanum allann daginn í vinnunni, það er ekkert rosalega cool, eða hvað? Ég mun deila afmælisveislunni með ykkur og vonandi einhverjum nýjum og sniðugum hugmyndum fyrir barnaafmæli.

 

En í tilefni þess að sumarið er alveg að nálgast ákvað ég að gera eitthvað létt og sumarlegt. Tex – Mex tortillapizzu og ferska bláberjaköku með rjómaostakremi.....þetta mun ekki svíkja neinn í næsta matarboði hjá ykkur!

 

 

Tex-Mex tortilla pizza með kjúkling og klettasalati

Fyrir 6 mans

 

Þessi uppskrift er svo einföld og fljótleg og þið munið slá í gegn í matarboðinu með því að bjóða upp á þessa skemmtilega örðuvísi pizzu. Hún leynir sko á sér því maður verður pakksaddur eftir eina pizzu þrátt fyrir að hafa smá pláss fyrir eftirrétt !...eða hver hefur það ekki?

 

6 stk stórar tortillakökur

4 kjúklingabringur

1 hvítlauksgeiri

1 bréf af enchilada kryddblöndu

1 poki pizzaostur rifinn

1 dós salsa sósa

1 stk rauðlaukur

6 stk tómatar

 Poki klettasalat eða annað salat

1 flaska 10% sýrður rjómi

 

Aðferð

Setjið smá ólífu olíu á pönnu og hitið, skerið kjúklingabringurnar í mjóa strimla og steikið. Þegar kjúklingurinn er alveg að verða tilbúinn raspið þá saman við 1 stk. hvítlauksgeira og steikið alveg. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn setjið þá enchilada kryddblönduna saman við kjúklinginn ásamt smá vatni (ath leiðbeiningar á bréfi).

Setjið tortillakökurnar inn í ofn og hitið á um 200 gráðu hita, hitið þær báðu megin í örskamma stund. Takið tortillurnar út og setjið salsa sósu á hverja köku fyrir sig og dreifið vel úr henni. Raðið kjúklingnum á tortillurnar og setjið pizzaost yfir og setjið inn í ofn. Takið tortillurnar út þegar osturinn hefur náð að bráðna alveg.

 

Skerið rauðlauk og tómata niður og setjið ofan á ostinn. Setjið því næst klettasalatið yfir pizzuna ásamt rjómaosti.

 

 

Það sem toppar þessa pizzu algjörlega er guacamole og því ætla ég að deila með ykkur einfaldri uppskrift af því.

 

 

2 stk avacado, vel þroskuð

Safi úr 1 stk sítrónu

3 stk tómatar

1 stk hvítlauksgeiri

½ rauðlaukur

Kóríander

Salt og pipar

 

Aðferð

Skerið avacadoið í tvennt, losið steininn og skafið innan úr þeim með skeið. Ef avacadoið er vel þroskað er stundum nóg að stappa það bara vel en ég notast yfirleitt alltaf við matvinnsluvél. Ef þið viljið hafa það vel gróft mæli ég með því að þið stappið það.

 

Setjið avacadoið í matvinnsluvél ásamt tómötunum, hvítlauksgeiranum og safa úr einni sítrónu. Maukið þar til allt hefur blandast vel saman og komin er mjúk og fín áferð á blönduna.

 

Setjið blönduna í skál, skerið rauðlaukinn smátt niður og blandið saman við ásamt smá (handfylli) af kóríander. Saltið og piprið af vild.

 

Bláberjakaka með sítrónurjómaostakremi

Eftirréttur sem getur komið heilli fjölskyldu saman án nokkurra vandræða! Unaðslegt sítrónurjómaostakrem toppar þessa köku algjörlega og er svo sumarlegt á bragðið.

 

Fyrir 10-12 mans  -  undirbúningstími 60 mín – miðlungs erfið

 

375 g hveiti

2 tsk lyftiduft

¼ tsk matarsódi

¾ tsk salt

400 g sykur

230 g smjör, við stofuhita

1 msk sítrónubörkur

4 egg

2 tsk sítrónudropar

½ tsk vanilludropar

100 g sýrður rjómi (10%)

2 msk sítrónusafi

250 g bláber fersk eða frosin

 

Aðferð

1. Stillið ofninn á 180 gráðu hita og smyrjið tvö hringlaga, meðalstór (ca 23-24 cm) bökunarform að innan. Setjið einnig smjörpappír í botninn á þeim og smyrjið ofan á pappírinn. Ef þið viljið hafa kökuna hærri þá setjið þið deigið í 3 minni form.

2. Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál, hrærið og setjið til hliðar.

3. Þeytið saman smjör, sykur og sítrónubörk þar til blandan verður ljós og létt.

4. Blandið mjólk, sýrðum rjóma og sítrónusafa saman í skál og hrærið saman. Látið blönduna standa svo hún þykkni í rúmar 2 mínútur.

5. Bætið eggjum saman við sykurblönduna, einu og einu í senn og hrærið vel á milli. Gott er að skafa hliðarnar á skálinni af og til og hræra svo vel.

6. Setjið sítrónu – og vanilludropa saman við og hrærið.

7. Setjið bláberin í skál og setjið rúmlega 3 msk af hveitiblöndunni yfir bláberin og hrærið, þannig festast þau ekki saman og klessast. Ef þið notið frosin ber verða þau að vera tekin beint úr frystinum áður en þau fara í kökuna svo þau klessist ekki öll.

8. Blandið hveitiblöndunni saman við deigið ásamt mjólkurblöndunni smá og smá í einu og hrærið. Passið ykkur að hræra aðeins til að blanda öllu léttilega saman svo kakan verði ekki seig.

9. Bætið bláberjunum saman við deigið og hrærið varlega með sleif.

10. Hellið deiginu í kökuformin og bakið í 25-30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar.

 

Leyfið botnunum að standa og kælast í formunum í dágóðan tíma og látið þá svo kólna alveg áður en kremið er sett á.

 

 

 

Sítrónurjómaostakrem

170 g smjör, við stofuhita

340 g rjómaostur

1 tsk vanilludropar

¼ tsk sítrónudropar

500 g flórsykur

 

Aðferð

Hrærið smjörið þar til það er orðið ljóst og létt, blandið rjómaostinum saman við og hrærið þar til blandan verður slétt og fín. Setjið flórsykurinn saman við smátt og smátt í einu og hrærið vel á milli. Setjið vanillu- og sítrónudropana saman við og hrærið. Ef ykkur finnst kremið of þunnt er gott að setja það inn í ísskáp í smá stund til að leyfa því að þykkna, einnig er hægt að bæta við smá flórsykri. Þetta er ágætt magn af kremi svo það er hægt að smyrja vel af því á kökuna en ekki nauðsynlegt að nota það allt ef þið viljið það ekki.

Skreytið með sítrónusneiðum og ferskum bláberjum.

 

Ég vona að þið nýtið tíma ykkar vel og skellið í þessar gómsætu uppskriftir og hugsið vel til mín á meðan þið gæðið ykkur á þeim!!

 

Þangað til næst....

 

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!