Thelma Þorbergsdóttir
Sunnudagsbakstur
09. nóvember 2017

Sunnudagsbakstur

Ég veit ekkert betra en sunnudaga þar sem það er ekkert prógram og við erum bara heima að dunda okkur allan daginn. Þá er ekkert stress og við erum bara að njóta að vera saman sem fjölskylda. En sunnudagur er líka sá dagur sem ég baka yfirleitt eitthvað og ætla ég að deila með ykkur uppskriftum sem verða oft fyrir valinu hjá okkur.

Bananabrauð

Innihald

125 g smjör við stofuhita

175 g púðursykur

1 tsk. vanilludropar

2 egg

2 bananar, vel þroskaðir

255 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. matarsódi

1 tsk. kanill, kúfuð

120 g síróp, ég nota Golden

Aðferð

Hitið ofninn í 160 gráðu hita og setjið smjörpappír í ílangt form. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Skafið hliðarnar af skálinni og blandið eggjum saman við og hrærið vel. Setjið hveiti, lyftiduft, matarsóda og kanil saman í skál og blandið saman. Blandið því saman við ásamt stöppuðum bönunum, hveitiblöndunni, vanilludropum og sírópi. Hrærið þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Setjið deigið í formið og bakið í 60 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju brauðsins. Gott er að kæla brauðið aðeins í forminu áður en þið takið það út. Gott með smjöri, Nutella og bönunum eða því sem ykkur dettur í hug. 

Pönnukökurnar hennar mömmu

Innihald

300 g hveiti 

2 msk. sykur

3 stk. egg

6 til 7 dl mjólk 

30 g smjör, bráðið

2 til 3 tsk. vanilludropar

1/4 tsk. salt 

 

Aðferð

Blandið hveiti, sykri og salti saman í skál og hrærið vel saman. Setjið eggin saman við, eitt í einu og hrærið léttilega á milli með písk. Blandið mjólkinni saman við smátt og smátt í einu ásamt bræddu smjöri og hrærið vel á milli. Því næst setjið þið vanilludropa eftir smekk, ég nota yfirleitt 3 -4 tsk.  því ég vil hafa mikið bragð af þeim. Hrærið allt saman mjög vel, ef það koma kekkir í deigið þá er ekkert mál að sigta það bara yfir í aðra skál.

 

Setjið pönnukökupönnuna á helluna eða gasið, ég er með gas og notast við frekar háan hita fyrst og lækka svo niður í meðalháan hita, setjið smá smjör á pönnuna svo deigið festist ekki við og skellið fyrstu pönnukökunni á. Það tekur smá tíma að baka pönnukökur en það er svooo þess virði, reyndar er það þannig hér á bæ  þær hverfa jafnóðum og þær eru bakaðar, en það á bara að vera þannig.

 

Gott að borða með t.d. nutella, rjóma, sultu, sykri, jarðaberjum, bláberjum og öllu því sem hugurinn girnist!!

Sandkaka

Innihald

240 g sykur

240 g smjör, við stofuhita

4 stk. egg

240 g hveiti

1 tsk lyftiduft

1 tsk vanilludropar

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráðu hita og setjið smjörpappír í ílangt bökunarform.

Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við, einu í senn og hrærið á milli. Setjið hveiti og lyftiduft saman í skál og bætið því saman við smátt og smátt í einu ásamt vanilludropum. Setjið deigið í formið og bakið í 50-60 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Berst finnst mér kakan volg með ískaldri mjólk.

 

Svo fer maður bara að huga að jólabakstri því að eru alveg að koma jól!

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!