Thelma Þorbergsdóttir
Stökkar eplamúffur með vanilluglassúr
26. október 2015

Stökkar eplamúffur með vanilluglassúr

Það er eitthvað við haustið sem kallar á karamellu eða epli, eða bara bæði í bland. Ég veit fátt betra en þegar eldhúsið mitt ilmar af eplalykt og kanil. Það er eitthvað svo hátíðlegt enda fer að styttast í jólin hjá okkur! Ég ákvað að skella í eplamúffur vinnufélögum mínum til mikillar ánægju. Mr. Handsome átti erfitt með að smakka þetta þar sem hann segist ekki borða heit epli! En hann um það. Ég fékk því góðar umsagnir frá vinnufélögunum sem leystu hann af í huterki smakkara með glöðu geði. Glassúrinn ofan á kökurnar er einstaklega góður og eiginlega því meiri glassúr því betra! Svo endilega leyfið ykkur aðeins meira en vanalega af glassúr á þessar kökur.

Ég er komin í ótrúlegan jólafíling enda styttist óðum í jólin. Ég er meira að segja búin að kaupa mér aðeins jólaskraut og farin að velta fyrir mér hvaða smákökur ég ætla að baka fyrir þessi jól. Ég baka alltaf eitthvað nýtt sem ég hef ekki prófað áður ásamt því gamla góða og mun ég deila því með ykkur hér á blogginu. Svo er bara að leggjast á bæn og óska eftir hvítum jólum!

Stökkar eplamúffur með vanilluglassúr

Um 15 stk.

 

Innihald

Toppur

70 g púðursykur

1 msk sykur

1 tsk kanill

60 g smjör, bráðið

80 g hveiti

 

Eplamúffur

120 g smjör við stofuhita

100 g púðursykur

50 g sykur

2 egg

120 g grísk jógúrt

2 tsk vanilludropar

220 hveiti

1 tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

2 tsk kanill

½ tsk salt

60 ml mjólk

180 g epli, ca. 2 meðalstór epli (ég notaði rauð epli)

 

Vanilluglassúr

120 g flórsykur

50 ml rjómi eða mjólk

½ tsk vanilludropar

 

 

Aðferð

Toppur
Blandið púðursyri, sykri og kanil saman í skál. Bræðið smjörið og hellið því saman við og hrærið vel. Setjið hveiti saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið blönduna til hliðar til að leyfa henni að stökkna.

 

Eplamúffur

Hitið ofninn í 220 gráður og raðið muffinsformum í bökunarform.

Hrærið smjör þar til það er orðið ljóst og létt. Bætið púðursykri og sykri saman við og hrærið vel þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Gott er að skafa innan úr skálinni af og til. Bætið eggjum saman við, einu í senn ásamt grísku jógúrtinni og vanilludropum. Setjið hveiti, matarsóda, lyftiduft, kanil og salt saman í skál og hrærið vel. Hellið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið með písk eða sleif. Setjið mjólkina saman við og hrærið vel. Takið hýðið af eplunum og skerið þau niður í smáa bita, blandið þeim saman við og hrærið létt með sleif. Sprautið deiginu í formin og fyllið þau næstum því. Takið því næst toppinn og myljið hann yfir hverja múffu fyrir sig. Gott er að hafa toppinn í grófum bitum svo múffan verði stökk og góð. Bakið múffurnar við 220 gráðu hita í 5 mínútur og lækkið svo ofninn í 180 gráður og bakið í 15 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Passið ykkur þó að baka þær ekki of mikið svo þær veðri ekki þurrar og seigar. Gott er að kæla múffurnar aðeins áður en glassúrinn er settur ofan á.

Vanilluglassúr

Setið flórsykur í skál ásamt mjólk eða rjóma. Rjóminn gerir glassúrinn þykkari og meira rjómalagaðan en mjólkin. Hrærið vel saman. Bætið vanilludropum saman við og hrærið vel. Sprautið glassúrinum á hverja köku fyrir sig eða slettið honum óreglulega yfir hverja múffu með skeið.

Kökurnar geymast vel í fyrsti í allt að 3 mánuði.

 

Kveðja,
Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!