Thelma Þorbergsdóttir
Star Wars afmæli og cinnabon snúðar með rjómaostakremi
16. maí 2018

Star Wars afmæli og cinnabon snúðar með rjómaostakremi

Þann 27. febrúar fagnaði Kristófer 9 ára afmælinu sínu. Mér finnst eins og ég hafi átt hann bara fyrir nokkru síðan, en það eru víst komin 9 ár síðan! Hvert fer tíminn?

Þar sem hann er mikill aðdáandi Star Wars var engin spurning hvernig afmæli hann vildi hafa.  Við gerðum einfalda en góða köku með fullt af Oreo og Oreokremi sem hann elskar líka, ég meina hver elskar ekki Oreo? Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af afmæliskökunni og hvernig við skreyttum fyrir veisluna. Einnig ætla ég að deila með ykkur himneskum Cinnabon sem bráðna einfaldlega í munni! Þið bara verðið að smakka þær.

Afmæliskakan er skúffukökuuppskrift sem allir krakkar elska hér á bæ, en það er hægt að nota hvaða uppskrift sem er.

Ég nota alltaf uppskriftina að amerísku skúffukökunni hennar mömmu.

Ég skipti deiginu jafnt í 3 hringlaga kökuform um 21 cm að stærð. Mikilvægt er að kæla botnana alveg áður en þú setur kremið á milli. Ég setti svo kremið á milli botnanna og smurði svo alla kökuna með kremi. Skreytti með sprautustút 1M frá wilton og heilum Oreo kexkökum. Gott er að taka kökuna úr kæli 1-2 klst. áður en hún er borin fram svo hún verði mjúk og góð.

Oreo krem

225 g smjör við stofuhita

500 g flórsykur

25 ml rjómi frá Gott í matinn

2 tsk. vanilludropar

8 stk. Oreo kexkökur

Aðferð

Hrærið smjör þar til það verður ljós og létt. Bætið flórsykrinum saman við, litlu í einu og hrærið vel á milli. Blandið rjóma og vanilludropum saman við og hrærið vel. Hakkið Oreo kexkökurnar í matvinnsluvél þar til þær eru orðnar fínmalaðar og blandið þeim saman við kremið. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.

Til að skreyta heila köku þarf að tvöfalda uppskriftina af kreminu.

Ég tók örlítið krem frá áður en ég setti oreo saman við til að skreyta með. Skreytti svo með heilum Oreo kökum.

Aðalmálið hér á bæ er svo að fá blys á kökuna en þau fast t.d. í Allt í köku. 

Merkið á kökuna létum við gera hjá Hlutprent. Þar er hægt að láta gera hvað sem er eftir mynd eða láta teikna upp fyrir sig. Mér finnst svona skreyting geta gert einfalda köku alveg glæsilega og lyftir henni upp. En svo er líka gaman að föndra bara eitthvað sjálfur

Diskarnir og glösin fengust í Bónus. Það er ótrúlegt hvað hægt er að finna í matvöruverslunum á hagstæðu verði. Restina föndruðum við sjálf.

Á síðunni birthdaypartyideas4u.com er að finna alls kyns þematengt efni fyrir afmæli, t.d. skraut fyrir Star Wars afmæli til að klippa út og skreyta. 

Cinnabon snúðar með rjómaostakremi

Þeir bestu í bænum!

Um 15 stk.

Innihald

2,5 dl mjólk

130 g smjör

120 g sykur

1 pakki þurrger

2 egg

550 g hveiti

1 ½ tsk. salt

 

Kanilfylling

130 g smjör, mjúkt

200 g púðursykur

3 tsk. kanill

 

Rjómaostakrem

30 g rjómaostur frá Gott í matinn, við stofuhita

60 g smjör

1 tsk. vanilludropar

130 g flórsykur

 

Aðferð

Gott er taka smjör og rjómaost út strax svo það nái stofuhita.

 

Setjið mjólk í pott og hitið yfir meðalháum hita þar til hún fer nánast að sjóða. Látið mjólkina ekki sóða. Setjið mjólkina í skál ásamt smjörinu og leyfið smjörinu að bráðna í mjólkinni. Þegar smjörið hefur náð að bráðna setjið þá sykur saman við. Mjólkurblandan ætti að vera við stofuhita þegar gerið er  sett saman við. Setjið gerið saman við,  hrærið léttilega og látið standa í rúmlega 10 mínútur eða þar til gerið er farið að freyða.

Setjið eggin saman við ásamt salti og hveiti. Gott er að nota hnoðarann á hrærivélinni til að hnoða öllu saman. Hnoðið deigið þar til það fer að mynda góða kúlu og festist ekki lengur við hliðarnar á skálinni. Hnoðið í rúmlega 5 mínútur. Setjið plast eða rakt viskastykki yfir skálina og látið deigið standa í klukkustund. Mikilvægt er deigið sé á heitum stað til að það lyfti sér sem best.

Á meðan að deigið er að lyfta sér er hægt að gera fyllinguna og kremið.

 

Þegar deigið hefur lyft sér þarf að hnoða það örlítið upp úr hveiti. Fletjið deigið út eins jafnt og þið getið svo að auðvelt verði að rúlla því upp.

Smyrjið smjörinu á deigið, ef ykkur finnst smjörið ekki nógu lint til þess að gera það er gott að setja það inn í örbylgjuofn í örstutta stund, það á alls ekki að bræða það. Blandið púðursykri og kanil saman og dreifið því jafnt og þétt yfir deigið. Rúllið deiginu upp eins þétt og þið getið. Skerið deigið í um 15 snúða og raðið þeim á smjörpappír. Gott er að setja snúðana í eldfast mót  með um 2 cm millibili.  Bakið snúðana við 180 gráðu hita (ég nota blástur) í 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir að lit. Passið að baka þá þó ekki of mikið. Miðjan á snúðum á það til að fara upp í loft inni í ofninum, en það er allt í góðu lagi því þið ýtið því bara aftur niður eftir að þið takið snúðana út úr ofninum.

 

Rjómaostakrem

Setjið rjómaost, smjör, vanilludropa og flórsykur saman í skál og hrærið þar til blandan verður mjúk og slétt. Gott er að nota handþeytara þar sem þetta er ekki það mikið krem. Þeir sem vilja extra mikið krem geta tvöfaldað þessa uppskrift. Setjið kremið beint á snúðana um leið og þeir koma út úr ofninum. Þannig bráðnar kremið og lekur ofan í þá sem gerir þá einstaklega mjúka og djúsí. Mér finnst snúðarnir bestir heitir með kaldri mjólk, en ef þið ætli að bera þá fram seinna er gott að setja þá aftur inn í ofn eða setja plast yfir svo þeir haldast mjúkir.

Verði ykkur að góðu

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!