Thelma Þorbergsdóttir
Sniðugar hugmyndir fyrir hrekkjavöku
26. október 2017

Sniðugar hugmyndir fyrir hrekkjavöku

Sniðugar hugmyndir fyrir hrekkjavöku

Hér eru á ferðinni tvær skemmtilegar Halloween hugmyndir sem er skemmtilegt að bjóða upp á í hrekkjavökupartíinu nú eða handa vinnufélögum.

 

Rice Krispies skrímsli um 20 stk

Innihald

50 g smjör

1 poki (283 g) litlir sykurpúðar, hvítir eða marglitir

180 g Rice Krispies

Skraut

Candy melt

100 g Suðusúkkulaði

Augu sem má borða (sykuraugu)

 

Aðferð

Setjið smjörpappír í ferkantað eða ílangt form um 25x35 sm að stærð.

Setjið smjör í pott yfir lágan hita og bræðið. Bætið sykurpúðunum saman við og hrærið þar til þeir hafa bráðnað alveg og blandan er orðin mjúk og slétt. Setjið Rice Krispies í skál og hellið sykurpúðablöndunni saman við. Hrærið hratt og vel hér svo allt nái að blandast vel saman. Setjið Rice Krispies í formið, hér er gott að nota sleikju svo það festist ekki of mikið við þar sem blandan er vel klístruð. Þegar þið hafið dreift vel úr blöndunni er gott að setja smjörpappír ofan á og slétta vel og jafna. Kælið í rúmar 30 mínútur eða þar til þetta hefur fests vel saman. Skerið svo í bita í þeirri stærð sem þið viljið.

Hér er hægt að skreyta að vild. Bræðið suðusúkkulaði í potti yfir lágum hita og dýfið endanum ofan í. Skreytið með augum, sprinkles eða því sem ykkur dettur í hug. Bræðið candy meltið eins og sagt er á pakkanum og gerið eins. Candy melt er til í allskonar litum.

 

Draugakaka með rjómaostakremi

Einstaklega mjúk súkkulaðikaka með silkimjúku rjómaostakremi

Fyrir um 8 manns

Innihald

250 ml vatn

130 g smjör

35 g kakó

300 g hveiti

1 tsk. matarsódi

440 g sykur

2 egg

130 ml súrmjólk

1 tsk. vanilludropar

 

Súkkulaðikrem með rjómaosti

Innihald

100 g smjör við stofuhita

400 g rjómaostur

450 g flórsykur

50 g kakó

 

Smjörkrem – draugar

Innihald

250 g smjör við stofuhita

500 g flórsykur

4 tsk. vanilludropar

 

 

Aðferð

Hitið ofninn í 160 gráðu hita og setjið smjörpappír inn í tvö hringlaga kökuform (20 cm að stærð).

Setjið smjör og vatn í pott og bræðið smjörið yfir lágum hita. Setjið kakóið saman við og hrærið. Setjið hveiti, matarsóda og sykur í skál og hrærið saman. Blandið súkkulaðiblöndunni saman við og hrærið vel með písk þannig að allt blandist vel saman of deigið farið ekki í kekki. Bætið eggjum saman við, einu í senn og hrærið á milli ásamt  súrmjólk og vanilludropum. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skiptið deiginu milli tveggja formanna og bakið í rúmar 45 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Kælið botnana alveg áður en þið setjið kremið á þá.

Rjómaostakrem

Hrærið smjör og rjómaost saman þar til blandan verður ljós og létt. Gott er að skafa innan úr skálinni og hræra svo betur saman. Sigtið flórsykur og kakó saman í skál og blandið smátt og smátt saman við rjómaostablönduna. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman og kremið er slétt og fínt.

Skerið hvorn botn í tvennt með stórum hníf sem sker vel. Setjið botn á kökudisk, setjið krem ofan á, setjið næsta botn ofan á og krem  þar á milli þar til allir botnarnir eru komnir ofan á hvern annan. Setjið krem ofan á toppinn. Gott er að setja kökuna inn í ísskáp í 30 mínútur til þess að leyfa kreminu að þykkna því það rennur aðeins til fyrst.

 

Smjörkrem – draugar

Hrærið smjör þar til það verður ljóst og létt. Bætið flórsykri saman við smátt og smátt í einu og hrærið vel á milli. Gott er að skafa hliðar skálarinnar vel á milli. Bætið vanilludropum saman við og hrærið. Til þess að fá kremið sem ljósast þarf að hræra vel, rúmar 5-8 mínútur. Setjið kremið í sprautupoka með stórum hringlaga sprautustút eða klippið endann af pokanum. Sprautið í lita hringi og myndið drauga. Þekja skal toppinn á kökunni með draugum og skreytið að vild. Setjið augu hér og þar á kökuna sem og á draugana. Einnig er hægt að búa til sín eigin augu á kökuna með því að sprauta litlar doppur af smjörkreminu og nota annað kökuskraut sem augasteina eða restina af rjómaostakreminu. Það frábæra við þessa kökur er að hún þarf ekki að vera fullkomin, enda hrekkjavökukaka.

 

 

Gleðilega hrekkjavöku 😊

Kveðja, Thelma

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!