Thelma Þorbergsdóttir
Smákökur
17. nóvember 2017

Smákökur

Smákökur

Við erum að sjálfsögðu byrjuð að baka á mínu heimili, en ekki hvað! Hildur Emelía hefur verið yfirsmakkari hvað varðar tilraunir á nýjum smákökum þetta árið. Hún er þó ekkert að fá sé eina eða tvær heldur nokkrar því hún segir að það sé ekki nóg að smakka eina til að vita hversu góðar manni finnst kökurnar vera. Uppáhalds kökurnar hennar eru þó kanilsmákökur með súkkulaðibitum sem láta allt húsið ilma eins og jólin séu komin og súkkulaðikökur með piparfylltu lakkrískurli. Flestir byrja að baka fyrir jólin um mánaðarmótin nóvember/desember og því ætla ég að deila með ykkur okkar uppáhalds smákökum! Kökurnar lifa ekki lengi í eldhúsinu hjá mér enda eru þær til þess að borða þær. 

Súkkulaðikökur með piparfylltu lakkrískurli

Þessar kökur er einstaklega góðar, þær eru svo mjúkar líkt og brownie. Þeir sem eru ekki með piparæði eins og flest allir á þessu landi geta sleppt því og aukið við súkkulaðið um 100 g, einnig er gott að setja hvítt súkkulaði í þessar fyrir þá sem finnst það gott. Himneskar með góðu kaffi eða heitu kakói með rjóma.

Um 30-40 stk.

Innihald

225 g smjör

300 g sykur

2 tsk vanilludropar

2 egg

3 msk sterkt kaffi

340 g hveiti

60 g kakó

1 tsk matarsódi

½ tsk salt

150 g piparfyllt lakkrískurl

100 g dökkt súkkulaði

 

Aðferð

Bræðið 100 g af smjöri inni í örbylgju eða í potti og setjið inn í frysti í 15 mínútur eða þar til smjörið hefur náð að storkna. Hitið ofninn í 160 gráðu hita og setjið smjörpappír á bökunarplötur. Setjið smjör við stofuhita og smjörið sem þið brædduð og frystuð í skál ásamt sykri og vanilludropum og hrærið þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við einu í senn og hrærið á milli. Setjið þurrefnin í skál og hrærið saman, blandið þeim saman við ásamt kaffinu og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skerið súkkulaðið gróflega niður og setjið saman við deigið ásamt piparfylltu lakkrískurli. Passið að hræra deigið ekki of mikið heldur aðeins þar til allt hefur náð að blandast saman. Gott er að nota kökuskeið til að gera kúlur úr deiginu svo þær verði allar jafn stórar. Raðið kökunum með jöfnu millibili á bökunarplötuna og bakið í 8 mínútur, takið þær út og leyfið þeim að jafna sig. Kælið kökurnar áður en þið takið þær af bökunarplötunni.  Geymið í kökuboxi eða lokuðu íláti til að halda kökunum mjúkum og góðum.

 

Stökkar smákökur með saltaðri karamellu og súkkulaði

Þessar kökur eru algjört lostæti, enda eru þær eins og hið besta sælgæti sem ekki er hægt að fá út í búð. Mjúk karamellan á móti stökkum hnetum og saltkringlum er himnesk blanda.

Innihald

140 g  hveiti

40 g kakó

¼ tsk sjávarsalt

80 g smjör við stofuhita

70 g sykur

70 g púðursykur

1 egg

1 ½ tsk vanilludropar

2 msk súrmjólk

50 g saltkringlur

80 g pekanhentur

eggjahvíta

Toppur

100 g karamellur t.d. ljósar töggur frá Nóa Siríus

3 msk rjómi

sjávarsalt

50 konsúm súkkulaði

Aðferð

Hrærið saman smjör, sykur og púðursykur þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjarauðunni (geymið hvítuna í skál inni í ísskáp), vanilludropum og súrmjólkinni saman við og hrærið. Setjið hveiti, kakó og salt saman í skál og hrærið. Bætið þurrefnunum saman við blönduna smátt og smátt í einu og hrærið á litlum hraða þar til allt hefur blandast vel saman. Passið ykkur að hræra þó ekki of mikið. Myndið stóra kúlu úr deiginu og setjið á disk, setjið plastfilmu yfir deigið og kælið í rúmar 30 mínútur.

Hitið ofninn í 180 gráðu hita. Takið eggjahvítuna úr kæli og hrærið léttilega með gaffli. Saxið pekanhnetur og saltkringlur smátt niður og setjið í skál. Búið til kúlur úr deiginu, um 20 g hver. Setjið hverja kúlu ofan í eggjahvítuna og látið leka vel af, rúllið henni svo upp úr pekanhnetublöndunni. Setjið kökurnar á bökunarplötu með smjörpappír og búið til holu í miðju kökunnar. Bakið í 10 mínútur. Þegar þið takið kökurnar út þarf að þrýsta aftur ofan í miðjuna á kökunni með skeið svo að holan verði enn til staðar fyrir karamelluna.  Látið kökurnar kólna alveg áður en þið setjið karamelluna ofan á.

Setjið karamellur og rjóma í skál og bræðið í örbylgjuofninum. Gott er að hita þær í um 30 sek. í einu og hræra svo inn á milli. Þegar karamellurnar hafa bráðnað er gott að hræra vel og setja svo rúmlega eina tsk. af karamellu ofan á hverja köku, eða þar til holan fyllist. Setjið sjávarsalt ofan á karamelluna. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði eða inni í örbylgjuofni og sprautið fallega ofan á kökurnar. Látið kökurnar bíða aðeins áður en þið setjið þær í box svo karamellan leki ekki.

 

Brownie smákökur með myntu

Þessar eru fallegar á jólaborðið og einstaklega jólalegar bæði í útliti og á bragðið.

Um 20 stk.

Innihald

120 g smjör við stofuhita

100 g dökkur púðursykur

100 g sykur

1 egg, stórt

1 tsk vanilludropar

1 tsk piparmyntudropar

140 g hveiti

50 g kakó

2 tsk instant kaffiduft

1 tsk matarsódi

¼ tsk sjávarsalt

100 g dökkt súkkulaði

Toppur

150 g dökkt súkkulaði

4 stk Candy cane piparmyntustafir

 

Aðferð

Hrærið smjör þar til það verður ljóst og létt. Bætið sykri og púðursykri saman við og hrærið vel. Setjið egg, vanilludropa og piparmyntudropa saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að skafa innan úr hliðum skálarinnar hér. Blandið hveiti, kakói, kaffi, matarsóda og salti saman í skál og hrærið. Setjið hveitiblönduna saman við smátt og smátt í einu og hrærið þar til allt hefur náð að blandast vel saman, passið ykkur þó að hræra ekki of mikið. Grófsaxið súkkulaði og blandið saman við. Setjið deigið í skál með plastfilmu yfir og kælið í 2 klst. eða yfir nóttu. Setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur, myndið jafnstórar kúlur úr deiginu og raðið með jöfnu millibili á plöturnar. Þrýstið örlítið niður á hverja köku með fingrunum. Bakið í í 10 mínútur við 170 gráðu hita. Kælið kökurnar alveg áður en þið takið þær af bökunarplötunni þar sem þær þurfa að jafna sig áður en þið dýfið þeim ofan í súkkulaðið.

 

Snjóbolta súkkulaðikökur

Einstaklega góðar snjóbolta súkkulaðikökur, einfaldar og góðar með kaffinu.

Um 30 stk.

Innihald

120 g smjör, við stofu hita

200 g púðursykur

2 egg

1 tsk vanilludropar

160 g hveiti

70 g kakó

1 tsk lyftiduft

¼ tsk sjávarsalt

100 g flórsykur

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og setjið smjörpappír á tvær bökunarplötur. Hrærið smjör og púðursykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við ásamt vanilludropum og hrærið vel. Gott er að skafa innan úr skálinni með sleif og hræra. Bandið hveiti, kakói, lyftidufti og salti saman í skál og setjið saman við deigið smátt og smátt í einu. Hrærið þar til deigið hefur blandast vel saman. Myndið jafn stórar kúlur úr deiginu, setjið flórsykur í skál og veltið hverri köku vel upp úr flórsykrinum þannig að hún verður alveg hvít. Raðið með jöfnu millibili á bökunarplöturnar og bakið í 12 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en þið takið þær af bökunarplötunni. Geymið kökurnar í lokuðu boxi til að þær haldist góðar.

 

Kanilkökur með súkkulaði

Þegar þessar fara í ofninn hjá mér eru jólin komin, húsið ilmar af kanil og jólum. Ég þekki engan sem finnst þessar kökur ekki góðar.

Um 40 stk.

Innihald
225 g smjör, við stofuhita
200 g dökkur púðursykur
115 g Sykur
2 egg
1 msk. dökkt síróp 
1 tsk. vanilludropar
145 g hveiti 
1 tsk. matarsódi
4-5 tsk. kanill
¼ tsk. múskat
½ tsk. salt
240 g hafrar 
350 g dökkt súkkulaði 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráðu hita og setjið smjörpappír á bökunarplötur.

Hrærið smjör, púðursykur og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við einu í senn og hrærið á milli ásamt vanilludropum og sírópi. Setjið hveiti, kanil, matarsóda, salt og múskat í skál og blandið saman. Blandið því saman við ásamt höfrum og hrærið þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Grófsaxið súkkulaði og setjið saman við, hrærið léttilega þannig að súkkulaðið nái að blandast deiginu vel. Myndið jafnstórar kúlur úr deiginu og raðið með jöfnu millibili á bökunarplötuna. Gott er að nota kökuskeið sem flýtir bæði fyrir og gerir allar kökurnar jafnar í stærð. Bakið í 10- 12 mínútur. Látið kökurnar kólna í rúmlega 10 mínútur áður en þið takið þær af bökunarplötunni. Fyrir ykkur sem viljið meira súkkulaði er hægt að bræða auka súkkulaði og skreyta kökurnar. Geymið í kökuboxi eða öðru lokuðu íláti svo að kökurnar haldist góðar. 

 

Bicotti með konsum súkkulaði og möndlum

Biscotti eru frægar í Ítalíu, stökkar og góðar sem gott er að dýfa ofan í heitt kaffið til að mýkja þær upp. Snilldin ein að eiga þessar upp í skáp þegar góðir gestir koma í heimsókn.

Um 25 stk.

Innihald

130 g smjör við stofuhita

120 g sykur

100 púðursykur

1 msk skyndikaffiduft

2 egg

300 g hveiti

1 ½ tsk lyftiduft

½ tsk sjávarsalt

2 tsk kanill

100 g möndlur

200 g konsum súkkulaði

 

Aðferð

Hitið ofninn í 170 gráður og setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Hrærið smjör, sykur, púðursykur og kaffi saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við, einu í senn og hrærið vel. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og kanil saman í skál og blandið saman við deigið og hrærið varlega. Grófsaxið möndlur og súkkulaði og setjið saman við deigið og hrærið varlega þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Setjið hveiti á eldhúsbekkinn eða bretti og hnoðið deigið léttilega svo það festist saman. Skiptið deiginu í 3 bita og formið sívala hleifa úr því um 10 cm á breidd og setjið á bökunarplötuna. Bakið í 25 mínútur. Takið hleifana út úr ofninum og látið þá standa í 10 mínútur. Skerið hleifana í um 2 cm þykkar sneiðar og leggið á plötuna með sárið upp. Bakið í 10 mínútur. Snúið  kökunum við á hina hliðina og bakið í aðrar 10 mínútur. Kælið kökurnar. Kökurnar eiga að vera krispí og góðar.

 

Njótið

Jólakveða Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!