Thelma Þorbergsdóttir
Smákökur og heitt kakó
02. desember 2016

Smákökur og heitt kakó

Þá er maður kominn í þvílíkt jólaskap enda er ég algjört jólabarn og á meira að segja afmæli í desember, svo desember er mánuðurinn minn. Ég bíð spennt eftir að það verði allt á kafi í snjó, frost og sól úti! Um helgina skellum við í nokkrar gómsætar smákökur og skreyttum heimilið að innan sem utan. Það er ekkert betra en að vera búin að þrífa aðeins hjá sér og finna svo ilminn af nýbökuðum kökum úr eldhúsinu. Hérna eru nokkrar uppskriftir af okkar uppáhalds. Ekki skemmir fyrri að fá sér heitt kakó með nýbökuðum smákökum eða konfekti. Inni á heimasíðu Gott í matinn er svo hægt að finna ótal uppskriftir að girnilegum smákökum svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.  

Snjóbolta súkkulaðikökur

Ótrúlega einfaldar og fljótlegar smákökur, já og góðar!

Innihald í um 30 stk.

120 g smjör, við stofuhita
200 g púðursykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
160 g hveiti
70 g kakó
1 tsk lyftiduft
¼ tsk sjávarsalt
100 g flórsykur

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og setjið smjörpappír á tvær bökunarplötur. Hrærið smjör og púðursykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við ásamt vanilludropum og hrærið vel. Gott er að skafa innan úr skálinni með sleif og hræra. Blandið hveiti, kakói, lyftidufti og salti saman í skál og setjið saman við deigið smátt og smátt í einu. Hrærið þar til deigið hefur blandast vel saman. Myndið jafn stórar kúlur úr deiginu, setjið flórsykur í skál og veltið hverri köku vel upp úr flórsykrinum þannig að hún verður alveg hvít. Raðið með jöfnu millibili á bökunarplöturnar og bakið í 12 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en þið takið þær af bökunarplötunni. Geymið kökurnar í lokuðu boxi til að þær haldist góðar. 

 

Þessi uppskrift er algjör dásemd og er búin að vera í fjölskyldunni lengi, snilld að gefa í fallegri pakkningu með jólapakkanum. 

Kirsuberjakossar

Um 25 stk.

Hráefni

1 krukka af kirsuberjum með stilka
200 g marsípan
80 g flórsykur
250 g dökkt súkkulaði

 

Aðferð

Setjið bökunarpappír á plötu og setjið til hliðar. Hellið vatninu af kirsuberjunum og raðið þeim á pappír til þess að þurrka þau. Hnoðið marsípan og flórsykur þar til það hefur blandast vel saman. Fletjið marsípanið út þar til það er orðið um 0,5 cm á þykkt. Gott er að hafa vel af flórsykri þegar þið fletjið marsípanið út svo það festist ekki við borðið. Skerið út litla kassa um 5x5 cm. Setjið marsípanið utan um hvert kirsuber fyrir sig og myndið fallega kúlu. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði  þar til það hefur bráðnað alveg. Dýfið kirsuberjunum ofan í súkkulaðið og leggið á smjörpappír. Gott er að setja kirsuberin í kæli þar til súkkulaðið hefur náð að storkna. Geymist í kæli þar til borið er fram. 

Bicotti með dökku súkkulaði og möndlum

Þessar eru unaðslegar með heitu kakói eða kaffi. Gott er að dýfa þeim ofan í til að mýkja þær aðeins upp.

Um 25 stk.

Hráefni:

130 g smjör við stofuhita
120 g sykur
100 g púðursykur
1 msk skyndikaffiduft
2 egg
300 g hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
½ tsk sjávarsalt
2 tsk kanill
100 g möndlur
200 g dökkt súkkulaði

Aðferð:

Hitið ofninn í 170 gráður og setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Hrærið smjör, sykur, púðursykur og kaffi saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við, einu í senn og hrærið vel. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og kanil saman í skál og blandið saman við deigið og hrærið varlega. Grófsaxið möndlur og súkkulaði og setjið saman við deigið og hrærið varlega þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Setjið hveiti á eldhúsbekkinn eða bretti og hnotið deigið léttilega svo það festist saman. Skiptið deiginu í 3 bita og formið sívala hleifa úr því um 10 cm á breidd og setjið á bökunarplötuna. Bakið í 25 mínútur. Takið hleifana út úr ofninum og látið þá standa í 10 mínútur. Skerið hleifana í um 2 cm þykkar sneiðar og leggið á plötuna með sárið upp. Bakið í 10 mínútur. Snúið  kökunum við á hina hliðina og bakið í aðrar 10 mínútur. Kælið kökurnar. Kökurnar eiga að vera stökkar og góðar.

Heitt kakó fyrir 4-6

 

Innihald

40 g kakó
150 g sykur
¼ tsk salt
1 dl vatn
8 dl mjólk

Toppur:

Þeyttur rjómi og súkkulaðispænir 

 

Aðferð:

Blandið kakói, sykri og salti saman í pott. Sjóðið vatn í örbylgju eða öðrum potti, hellið því saman við kakóblönduna og hrærið. Hrærið í rúmlega 2 mínútur eða þar til örlítil suða kemur upp. Blandið mjólkinni saman við og hrærið vel saman við. Hitið þar til nægilega heitt. Berið fram með þeyttum rjóma og súkkulaðispónum. 

Latte með hvítu súkkulaði og rjóma

Fyrir 2-4

Innihald

3 dl mjólk (nýmjólk)
200 g hvítt súkkulaði
2 dl  sterkt kaffi
1  tsk vanilludropar

Toppur

¼ lítri rjómi, þeyttur
kanill

Aðferð

Setjið mjólk, hvítt súkkulaði og vanilludropa saman í pott og hitið yfir meðalháum hita. Hrærið stanslaust þar til hvíta súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Hitið þar til suðan er alveg að koma upp en látið súkkulaðiblönduna ekki sjóða. Takið pottinn af hellunni og hellið sterku kaffi saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið kaffiblöndunni ofan í glas eða bolla. Þeytið rjóma og sprautið honum ofan á ásamt smá kanil. 

 

Njótið

Thelma

www.freistingarthelmu.blospot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!