Thelma Þorbergsdóttir
Sítrónu-ostamús og skyr
09. maí 2016

Sítrónu-ostamús og skyr

Á miðvikudaginn sl. var lokahóf Hauka í körfubolta haldið. Bæði liðin spiluðu í úrslitum, strákar og stelpur og lentu í öðru sæti, frábær árangur! Dóttir mín var þó ekki á sama máli og sagði að það væri alls ekki gott að vera í 2. sæti og nú gæti pabbi sinn ekkert kennt sér lengur þar sem hann kynni ekkert í vörn! Mr. Handsome var að spila sitt síðasta tímabil (thank good) og fékk treyjuna sína innrammaða að gjöf. Ég verð að viðurkenna að ég á eftir að sakna þess að sjá hann spila en ég á ekki eftir að sakna þess að hann sé að fara á æfingar öll kvöld vikunnar á kvöldmatartíma. Í hvert sinn sem hann er að fara út um dyrnar segja krakkarnir „Ertu að fara á æfingu” og ef hann kemst ekki með okkur eitthvað þá er svarið, „Pabbi er á æfingu.” Nú mun það breytast og ég mun eignast líf í kjölfarið! Mr. Handsome óttast samt að fitna eitthvað eftir að vera búinn að setja skóna á hilluna og þurfa að smakka allar kökurnar hjá mér, en ég blæs nú á það!

Ég var beðin um að aðstoða við eftirréttinn fyrir lokahófið og eftir að við veltum þessu lengi fyrir okkur ákváðum við að skyr væri fullkomið í eftirréttinn. Ferskt, gott og eitthvað öðruvísi en er vanalega. Ég notaði eplaskyr og ristaði hafra og pekanhnetur upp úr kanil, smjöri og púðursykri. Eftirrétturinn sló heldur betur í gegn! Mæli með að þið gerið eftirrétti úr skyri fyrir næstu veislu og jafnvel fyrir brúðkaupið, svo ekta íslenskt og óteljandi möguleikar sem hægt er að prófa sig áfram með.

Ég ætla líka að deila með ykkur ferskri sítrónu-ostamús sem er einnig einstaklega góð og auðveld að gera með rjóma og pekanhnetum. Snilld í veisluna eða í eftirrétt eftir grillmatinn í sumar.

Sítrónu ostakaka í glasi

Fyrir um 6 manns

 

Botn

1 pk Golden Oreo kexkökur (154g)
50 g pekanhentur

Ostakaka

226 g rjómaostur
Börkur af 2 límónum
2 tsk sítrónusafi
½ tsk vanilludropar
5 msk  sítrónu búðingur (aðeins duftið)
250 ml rjómi

Toppur

250 ml rjómi
Pekanhnetur 

Aðferð

Setjið Oreo kexkökur og pekanhnetur í matvinnsluvél og hakkið þær gróflega. Skiptið blöndunni milli glasanna og þrýstið niður. Þeytið rjómaostinn þar til hann verður mjúkur og sléttur. Bætið við rifnum sítrónuberki, sítrónusafa (úr sítrónunni) og vanilludropum. Hrærið þar til allt hefur blandast saman.  Blandið því næst 5 msk af lemon jello dufti saman við og hrærið vel. Þeytið rjómann þar til hann stendur og blandið honum saman við rjómaostablönduna með sleif. Hrærið þar til rjóminn hefur blandast vel saman við. Setjið ostablönduna í sprautupoka og sprautið henni jafnt í glösin. Kælið í rúmlega 2 klst. Þeytið rjóma og sprautið honum fallega ofan á (ég notaði Wilton 1M) og skreytið með söxuðum pekanhnetum. 

 

Skyrmús með bökuðum eplum og pekanhnetum

Innihald
70 g smjör
5 msk dökkur púðursykur
150 g tröllahafrar
100 g pekanhnetur grófsaxaðar
2 tsk kanill

Skyrblanda
500 g skyr með bökuðum eplum
¼ l rjómi, þeyttur
½ tsk kanill

Aðferð
Bræðið smjör á pönnu yfir meðalháum hita ásamt púðursykri. Grófsaxið pekanhnetur og setjið á pönnuna áasamt tröllahöfrum og kanil. Ristið á pönnunni í rúmar 15 mínútur. Hrærið stanslaust allan tímann til að koma í veg fyrir að pekanhneturnar brenni við. Setjið blönduna í skál og geymið inn í ísskáp á meðan þið undirbúið skyrblönduna. Gott er þó að geyma pekanhnetublönduna í ísskáp í 15-20 mínútur.

Þeytið rjóma og hrærið honum saman við skyrið. Blandið kanil saman við og hrærið þar til blandan verður mjúk og slétt. Takið pekanhnetublöndua út úr ísskápnum. Setjið 2 msk í botninn á hverju glasi fyrir sig, sprautið u.þ.b. 1-2 cm þykku lagi af skyrblöndu ofan á, setjið aftur 1-2 msk af pekanhnetublöndunni, setjið svo aðra umferð af skyri og endið á því að skreyta toppinn með pekanhnetublöndunni. Geymið í kæli þar til borið er fram. Þennan eftirrétt er best að njóta samdægurs þar sem skyrið gerir pekanhnetublönduna mjúka. Best er að hafa pekanhnetublönduna stökka á móti skyrinu.

Uppskriftina er líka hægt að nálgast á uppskriftavef Gott í matinn  og þar er hægt að margfalda uppskriftina á auðveldan hátt. Slóðin á uppskriftina er hér.

Mr. Handsome að gúffa í sig. Ívar þjálfari Hauka og Svali voru sáttir með eftirréttinn, en Svali var veislustjóri kvöldsins (mæli með honum, snillingur!). Emil og Kári voru sáttir með kvöldið enda villukóngur vinstramegin og besti leikmaður hauka hægra megin.

 

Verði ykkur að góðu :)

Kveðja,

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!