Thelma Þorbergsdóttir
Réttir í saumaklúbbinn
20. febrúar 2015

Réttir í saumaklúbbinn

Hvern vantar ekki rétti í saumaklúbbinn eða veisluna fyrir vinnufélagana? Ég elska smárétti sem maður er fljótur að gera og eru algjörlega skotheldir hvað varðar bragð og vinsældir. Hérna eru nokkrir réttir sem eru ómissandi í veislur og annað hjá mér! Þeir henta líka einstaklega vel fyrir Mexikó-þema partý, en hver þarf ekki á því að halda í þessu blessaða veðri sem höfum þurft að búa við síðustu vikur! 

Fersk Mexíkó salsa ídýfa

Þessa ídýfu smakkaði ég fyrst hjá vinkonu minni. Í fyrstu leist mér ekkert á hana og þorði varla að smakka, en ég smakkaði og síðan þá var ekki aftur snúið. Þessi ídýfa er nánast í öllum veislum í fjölskyldunni og ég útbý hana mjög oft þegar ég á von á saumaklúbbnum heim eða vinnufélögunum. Hún slær alltaf í gegn sama hvað! Það getur tekið smá tíma að skera allt svona rosalega smátt í ídýfuna en trúið mér það er svo þess virði. Því smærra sem allt er því betri er hún! Svo er um að gera að prófa sig áfram og nota ídýfuna ofan á baquette eða hvað sem ykkur dettur í hug!

 

Innihald:

1-2 rauðlaukur

450 g rjómaostur

1 dós af mildri salsasósu

5 tómatar

1 gúrka

1 rauð paprika

½ kálhaus

Aðferð:

Hafið tilbúið meðalstórt form fyrir ídýfuna. Takið utan af laukunum, skerið í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Hakkið laukinn þar til hann er orðinn fínsaxaður eða skerið smátt niður. Dreifið laukum jafnt og þétt í botninn á forminu. Setjið rjómaostinn í matvinnsluvél og hrærið þar til rjómaosturinn er orðinn mjúkur og sléttur. Setjið salsasósuna saman við og hrærið vel saman. Dreifið úr rjómaostablöndunni yfir rauðlaukinn og sléttið vel úr með sleif. Skerið tómatana niður til helminga og takið innan úr þeim. Skerið þá mjög smátt niður og dreifið jafnt og þétt yfir rjómaostablönduna. Því næst skerið þið gúrkuna og paprikuna smátt niður og dreifið jafnt og þétt yfir tómatana. Skerið kálið niður mjög smátt og dreifið jafnt og þétt yfir allt saman. Geymið ídýfuna inn í kæli þar til hún er borin fram. Ídýfan er einstaklega góð með nachos snakki ásamt kexi að vild.

-----

Tortilluhjól með rjómaostafyllingu og salsa

Heima hjá mér köllum við þetta tortilluhjól, þau eru jú hringlaga og við rúllum þeim upp. Þau eru einstaklega góð og það er eins með tortilluhjólin og fersku salsa ídýfuna, þetta er í nánast öllum boðum hjá okkur. Það er eiginlega þannig með þetta að þegar þú færð þér einn bita þá getur þú ekki hætt og maður er orðinn eins og vél að raða þessu í sig án þess að fatta það. Þetta er algjör snilld t.d. þegar maður ætlar að vera með puttamat í veislum eða saumaklúbbnum og mjög auðvelt að bera fram. Síðan er svo gott við þetta að þú getur gert þetta allavega tveimur dögum áður en þú berð þetta fram.

 

Innihald:

16 stk litlar tortillakökur

450 g rjómaostur

1 dós sýrður rjómi 10% eða 18%

1 poki Gott í matinn pizzaostur

1 blaðlaukur lítill eða ½ stór (fer eftir smekk líka)

Aðferð:

Setjið rjómaost og sýrðan rjóma saman í hrærivél og hrærið þar til blandan verður mjúk og slétt. Bætið pizzaostinum saman við og hrærið vel. Skerið blaðlaukinn í grófa bita, setjið í matvinnsluvél og hakkið þar til laukurinn er orðinn fínsaxaður. Blandið lauknum saman við rjómaostablönduna og hrærið allt vel saman. Setjið 1-2 msk af rjómaostablöndu á hverja tortilla köku, eða eins mikið og þarf til að þekja hana vel með þunnu lagi. Ekki er gott að setja of mikið af rjómaostablöndunni á tortillurnar því þá á rjómaosturinn það til að leka út. Rúllið tortillunum þétt upp og setjið á disk. Endurtakið þetta þar til þið hafið sett rjómaostablöndu á allar tortillakökurnar. Setjið rúllurnar inn í ísskáp og geymið inn í ísskáp í rúma klukkustund. Þeir sem þurfa að skera þær strax niður gera það, en betra er að leyfa tortillunum aðeins að festast saman. Takið tortillurnar út og skerið í litla bita rúmlega 1-2 cm. Raðið tortillahjólunum fallega á disk og berið fram með salsasósu. 

-----

Sítrónuostamús með sýrðum rjóma og berjum

Einn biti af þessari mús getur farið með mann í sól og sumaryl í huganum. Einstaklega léttur og ferskur réttur sem hentar vel við öll tækifæri. Gott er að hafa sæt ber á móti súra bragðinu í músinni og einnig er gott að hafa þeyttan rjóma með. Ostamúsin geymist fersk inni í ísskáp í 2-3 daga.

Fyrir 6-8 manns

 

Innihald:

175 ml og 2 msk vatn

2 msk safi úr sítrónu

4 plötur matarlím

360 g sýrður rjómi (10%)

140 g rjómaostur

Börkur af ½ sítrónu

170 g sykur

240 ml rjómi

Fersk ber til skrauts

 

Aðferð:

Setjið 2 msk af vatni og sítrónusafa saman í skál og brjótið matarlímsplöturnar smátt ofan í vökvann. Leyfið matarlíminu að liggja í vökvanum í 5 mínútur. Hrærið sýrða rjómann, rjómaostinn og börkinn af sítrónunni saman í skál þar til blandan verður létt í sér. Setjið restina af vatninu í pott ásamt 110 g af sykri og hitið yfir meðalháum hita, hrærið allan tímann þar til sykurinn hefur leyst upp. Takið pottinn af hellunni og hellið vökvanum yfir matarlímsblönduna og hrærið vel saman. Blandið því svo saman við rjómaostablönduna og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Þeytið rjómann ásamt restinni af sykrinum og blandið honum saman við blönduna með sleif þar til rjóminn hefur náð að blandast vel saman við. Hellið blöndunni í 6-8 glös, setjið plastfilmu yfir hvert glas og kælið inni í ísskáp í rúmlega tvær klukkustundir. Skreytið með ferskum berjum að eigin vali.

 

Njótið!

 

Kveðja Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!