Thelma Þorbergsdóttir
Rabarbara ostakökubitar og rabarbarasulta
15. ágúst 2018

Rabarbara ostakökubitar og rabarbarasulta

Bakað úr rabarbara frá Kópsvatni

Rabarbara ostakökubitar

Um 15-20 bitar

Innihald

Botn og toppur

300 g hveiti

200 g grófir hafrar

200 g púðursykur

230 g smjör við stofuhita

½ tsk. salt

1 tsk. matarsódi

 

Ostakaka

680 g rjómaostur frá Gott í matinn

3 egg

150 g sykur

1 tsk. vanilludropar

500 g rabarbari

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og setjið bökunarpappír í bökunarform. Mitt form var 40x30 cm að stærð.

Hrærið hveiti, hafra, púðursykur, smjör, salt og matarsóda saman í skál þar til allt hefur blandast vel saman og myndað áferð eins og brauðmylsna. Setjið um 500 g af þessu í botninn á kökuforminu og þrýstið vel niður með t.d. botni af glasi. Hrærið rjómaost, egg, sykur og vanilludropa saman þar til allt hefur blandast vel saman og blandan orðin slétt og fín. Skerið gróflega niður rabarbara og dreifið honum yfir botninn. Hellið rjómaostablöndunni yfir og sléttið úr henni þannig hún þekji allan rabarbarann. Setjið restina af púðursykursblöndunni sem þið settuð í botninn ofan á toppinn. Þrýstið toppnum örlítið ofan í ostakökuna. Bakið í 50-60 mínútur eða þar til kakan er orðin stíf. Kælið kökuna í 30 mínútur við stofuhita. Setjið plastfilmu yfir kökuna og kælið í 3 klst. Skerið kökuna í bita eftir smekk.

 

Rabarbarasulta með appelsínu

Innihald

500 g rabarbari

250 g sykur

1 tsk. vanilludropar

Börkur og safi af einni appelsínu

¼ dl vatn

Aðferð

Skerið rabarbarann í litla bita og setjið í pott ásamt sykri. Setjið smá rabarbara og sykur til skiptis í pottinn svo sykurinn blandist rabarbaranum vel. Setjið vanilludropa saman við ásamt safa og berki af einni appelsínu. Setjið lok á pottinn og geymið í pottinum yfir nótt. Setjið vatn saman við og hitið yfir meðalháum hita eða þar til sykurinn hefur náð að leysast alveg upp. Hrærið rólega af og til. Þegar sykurinn hefur leyst alveg upp hækkið þá hitann undir sultunni og sjóðið í rúmar 10 mínútur eða þar til blandan er orðin að sultu. Gott er að hræra reglulega í pottinum. Þegar sultan er orðin slétt og fín þá takið þið hana af hellunni og hellið í krukkur með loki. Sultan er einstaklega góð með heitum vöfflum eða pönnukökum.

 

Njótið

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!