Thelma Þorbergsdóttir
Pet shop afmæli, brownie og pastasalat
15. ágúst 2016

Pet shop afmæli, brownie og pastasalat

Þann 19. júní sl. hélt framkvæmdastjóri heimilisins, hún dóttir mín, upp á 6 ára afmælið sitt. Það á mjög vel við hennar persónuleika að eiga afmæli á þessum merka degi, kvenréttindadaginn! Hún er með miklar kröfur til móður sinnar hvað varðar afmælið sitt (kannski mér að kenna, en ég kvarta samt!) en hún vildi helst fá 6 hæða afmælisköku og hafa tvö afmælisþemu. Hún vildi líka fá Friðrik Dór til þess að halda tónleika á nýja pallinum okkar! Ég náði að semja við framkvæmdastjórann og fá hana til að sætta sig við 4 hæða afmælisköku og eitt þema! Ég sagðist svo auðvitað hafa hringt í Friðrik Dór en hann væri bara því miður upptekinn! Hún var fljót að redda því og hringdi í fjölskylduvininn hann Andra og bað hann um að spila í afmælinu og æfa lögin sérstaklega vel! Hún valdi sér Pet shop afmælisþema og þar sem við fundum ósköp lítið af ókeypis efni til að prenta út af netinu varð mamman að föndra sjálf. Kakan var ósköp einföld, enda eru Pet shop dýrin svo falleg, lítil og í allskonar litum og því var bara tilvalið að þvo þau og skella þeim beint á kökuna og málið er dautt! Ég ætla að deila með ykkur þeim hugmyndum sem við fengum fyrir afmælið, hvernig við gerðum afmæliskökuna og tveimur hrikalega góðum uppskriftum. Brownie með saltaðri karamellu og saltkringlum í botninum, þessi kaka lætur þig fara til tunglsins og aftur til baka! Jiminn eini hvað hún var góð, enda gúffuðu gestirnir í sig eins og enginn væri morgundagurinn og ég taldi mig vera heppna að ná einum bita fyrir sjálfa mig! Hin uppskriftin hefur verið í afmælum hjá okkur frá upphafi, ferskt og gott pastasalat með ostum. Einstaklega fljótlegt og gott og klikkar aldrei.

Kristófer 7 ára og Hildur Emelía 6 ára

Pet shop afmæli

Afmæliskakan er skúffukökuuppskrift sem hægt er að finna á heimasíðunni minni. Við notum hana yfirleitt þegar við erum að gera afmæliskökur því það er auðvelt að stafla henni og hún helst mjúk svo lengi, fyrir utan það hvað hún er hrikalega góð á bragðið. Hérna er hægt að finna uppskriftina af kökunni en kakan var svo skreytt með vanillusmjörkremi og hér er hægt uppskriftin að því. Ég skreytti alla kökuna með sama sprautustútnum, 1M frá Wilton. Ég lagði stútinn upp að kökunni, byrjaði neðst og vann mig upp líkt og þegar maður gerir blúndur. Þessi stútur getur gert ótrúlegustu hluti og það kemur alltaf vel út. Ég nota alltaf gelmatarliti frá Allt í köku eins og ég hef sagt frá svo oft. Við settum nóg af glimmeri á kökuna og dóttirin valdi svo Pet shop dýr til þess að skella ofan á. Það er hefð hjá okkur að afmælisbarnið fái stjörnuljós á kökuna sína, það verður svo skemmtileg stemming við það að kveikja á því á meðan maður syngur afmælisönginn. Það er hægt að fá allskonar stjörnuljós hjá Allt í köku, bæði í mismunandi litum og tölustafi.

Við bjuggum til límmiða og límdum á glös og flöskur. Skreyttum rice krispies kökur og límdum fána á rör. Það er ótrúlegt hvað smá föndur getur vakið mikla lukku. Afmælisbarnið hjálpaði mömmu sinni við að klippa þetta allt út og líma. Við fundum boðskort í Toys'r'us ásamt diskum og servéttum. Það voru ekki til glös en við redduðum því og vorum einnig með flöskur merktar afmælisbarninu.

Við klipptum út Pet shop grímur og gerðum litabækur. Við höfum áður gert litabækur í afmælisþemanu, annað hvort er hægt að senda börnin heim með hana eða að allir fara að lita í afmælinu. Það er gott ef allt er að fara úr böndunum! Ef þið hafið áhuga á því að fá ráð eða senda til ykkar litabókina og annað sem ég gerði þá megi þið hafa samband við mig. 

Brownie með saltaðri karamellu

Uppskriftin er frekar stór og auðvelt er að helminga hana. Hún var þó ekki lengi á veisluborðinu hjá okkur í afmælinu!

Botn

200 g saltkringlur eða saltstangir

150 g smjör

2 msk dökkur púðursykur

 

Brownie

320 g smjör

600 g sykur

170 g kakó

½ tsk salt

4 egg

2 tsk vanilludropar

120 g hveiti

1 tsk lyftiduft

 

Söltuð karamella

400 g sykur

170 g smjör

240 ml rjómi

1 tsk vanilludropar

½-1 tsk salt (sjávarsalt)

 

Aðferð

Hitið ofninn í 200 gráður og setjið smjörpappír í bökunarform sem er um 20x30 cm að stærð. Mjög mikilvægt er að hafa smjörpappír í botninum og aðeins upp fyrir brúnirnar svo hægt sé að ná kökunni upp úr forminu sem best. Setjið saltkringlurnar í matvinnsluvél og hakkið þar til þær eru orðnar grófhakkaðar. Bræðið smjörið og hellið saman við ásamt púðursykrinum og látið matvinnsluvélina vinna vel þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið saltkringlublönduna ofan í formið og þrýstið vel niður í botninn. Gott er að nota botninn á glasi til þess að jafna út og þrýsta vel niður. Bakið botninn í 7 mín. takið formið út og kælið á meðan þið undirbúið kökuna.

 

Brownie

Lækkið hitann á ofninum niður í 180 gráður fyrir kökuna. Setjið smjör í pott og bræðið yfir lágum hita. Þegar helmingurinn af smjörinu er bráðnað, bætið þá kakói, sykri og salti saman við. Hrærið allt vel saman og passið ykkur að láta blönduna alls ekki sjóða. Blandan má einnig ekki vera of heit þegar eggin eru sett saman við. Bætið eggjum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli. Setjið vanilludropa saman við og hrærið. Setjið því næst hveiti saman við og hrærið vel saman þar til blandan verður mjúk og slétt. Hellið blöndunni yfir saltkringlubotninn og bakið í 30 mín. eða þar til að tannstöngull kemur næstum því hreinn upp úr miðju kökunnar. Það er allt í góðu og bara betra ef kakan er aðeins blaut þegar hún er tekinn út úr ofninum. Takið kökuna út og kælið á meðan þið undirbúið karamelluna.

 

Söltuð karamella

Það er mjög mikilvægt þegar maður gerir karamellu að vera búinn að hafa öll hráefnin tilbúin við höndina svo hægt sé að vinna hratt svo karamellan heppnist vel. Setjið sykur í pott yfir meðalháum hita og hrærið stanslaust með viðarsleif. Sykurinn fer í harða köggla en það lagast þegar hann hitnar frekar og verður að vökva. Hrærið stanslaust hérna og passið að sykurinn brenni ekki, ef ykkur finnst hitinn of hár er gott að lækka undir pottinum. Þegar sykurinn hefur bráðnað alveg og er orðinn gullinbrúnn, bætið þá smjöri saman við og hrærið vel. Blandið því næst rjómanum varlega saman við, smá og smá í einu og hrærið vel. Takið pottinn af hellunni og blandið saman við vanilludropum og salti. Leyfið karamellunni að kólna þar til hún hefur náð stofuhita áður en þið setjið hana yfir kökuna. Hellið síðan karamellunni yfir kökuna, myljið sjávarsalt yfir karamelluna og setjið inn í ísskáp. Kælið kökuna í rúmlega 2 klst. áður en þið berið hana fram. Gott er að setja beittan hníf undir heitt vatn áður en þið skerið kökuna svo að þið fáið fallegar sneiðar. Einnig er gott að skera með hníf meðfram köntum formsins því kakan situr föst í forminu. Skerið af vild og njótið! Geymið kökuna í kæli, kakan geymist vel í kæli í 4-5 daga.

Ferskt pastasalat með ljúffengum ostum

Einstaklega ferskt og gott pastasalat, gott með brauði, sem meðlæti eða bara eitt og sér. Þetta pasta slær alltaf í gegn í afmælum hjá okkur og er fastur liður á veisluborðinu. Fljótlegt og gott!

Innihald

500 g pastaskrúfur

½ tsk salt

1 msk olía

½ púrrulaukur

1 bréf af skinku

1 Mexíkóostur

1 piparostur

1 paprikuostur

1 dós sýrður rjómi (10%)

5 smk majónes

Salt og pipar

Sítrónupipar

 

Aðferð

Setjið vatn í pott og sjóðið þar til suðan er komin upp. Setjið pastaskrúfurnar ofan í pottinn ásamt salti og olíu. Sjóðið eftir leiðbeiningum utan á pakkanum (um 10 mín). Passið ykkur að sjóða pastað ekki of mikið. Takið pastað úr pottinum og látið kalt vant renna yfir það svo það kólni alveg. Gott er sigta pastað vel og setja í skál. Skerið púrrulaukinn gróflega niður og setjið í matvinnsluvél og hakkið mjög smátt. Skerið ostana í litla teninga ásamt skinkunni. Blandið öllu saman við pastaskrúfurnar og hrærið vel. Hrærið sýrðan rjóma og majónes saman og blandið saman við pastað. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Ef ykkur finnst pastað of þurrt er gott að bæta við majónesi eða sýrðum rjóma. Kryddið með salti, pipar og sítrónupipar. Gott er að byrja á því að setja lítið krydd og smakka svo þess á milli. Geymist í kæli þar til borðið fram.

 

Þangað til næst!!

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Hérna er hægt að fylgjast með mér á Facebook

 

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!