Thelma Þorbergsdóttir
Nýárs eftirréttir
29. desember 2013

Nýárs eftirréttir

Mikið ósköp líður tíminn hratt eftir því sem maður verður eldri. Ég man t.d. hvað aðfangadagur var rosalega lengi að líða í mínum huga þegar ég var lítil en í ár flaug hann áfram og mér fannst ég varla hafa tíma til þess að hafa allt tilbúið eins og ég vildi hafa það. Kannski er maður líka ótrúlega kröfuharður við sig á jólunum með það að allt þurfi að vera tip top og það þurfi að þrífa inn úr öllum skápum í eldhúsi og herbergjum og endurraða öllu!! En svo spyr ég mig afhverju á þessum tíma? Þegar það þarf að kaupa jólagjafir, pakka öllu inn, skreyta, þrífa....og já allt hitt! Afhverju þurfum við þá líka að fara hamförum á staði sem við tökum bara svona rækilega í gegn 1-2 ári?? Ég hugsa alltaf með mér hver einustu jól, á næsta ári ætla ég að vera mun tímalegri í þessu öllu og hafa róleg og notaleg jól. Þau eru að vísu alltaf notaleg en ég væri til í að stressið væri aðeins minna. Þessi jól voru extra annasöm hjá mér þar sem ég var út um allt að kynna bókina mína og baka fyrir það og í vinnunni og reyna að gera eitthvað með fjölskyldunni...já ég verð örmagna að skrifa þetta hér, en þetta tókst!

 

Mig hlakkar ótrúlega til að byrja nýtt ár. Eru ekki allir með sömu markmiðin? Fara í ræktina og allt þetta? Ég er samt staðráðin í því að vera duglegri að hreyfa mig, alveg ótrúlegt hvað manni líður miklu betur þegar maður hreyfir sig og hugsar aðeins betur um sjálfan sig því maður á það til að gleyma að hugsa um sjálfan sig í öllu amstrinu og það er ekki gott! Svo markmiðið mitt er að vera besta útgáfan af sjálfri mér árið 2014!!

 

En nóg um það! það þurfa allir að hafa góða eftirrétti eftir matinn á gamlárs og með skaupinu! Hérna eru nokkrar hugmyndir af eftirréttum og svo uppskrift að einni ídýfu sem er guðdómlega góð!!! Spínat ídýfa sem hefur verið ein vinsælasta uppskriftin á blogginu mínu. Að sjálfsöðgu er hægt að fara á bloggið mitt líka og finna mun fleiri freistingar þar! www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

 

Nutella-ostamús með Oreo og rjóma

Hver elskar ekki eftirrétti sem þarf ekki mikið að hafa fyrir og þarf ekki einu sinni að baka? Nei, ég bara spyr. Snilldin við svona eftirrétti er sú að maður þarf lítið að hafa fyrir þeim, maður getur borið þá fram í fallegum glösum og dúllað sér við að skreyta fallega í lokin. Þeir sem eru hrifnir af hnetum og súkkulaði ættu að prófa þennan eftirrétt.

Fyrir 4-6 manns

Innihald

12 Oreo-kexkökur

45 g smjör

225 g rjómaostur

210 g Nutella-hnetusmjör

1 tsk vanilludropar

230 ml rjómi

 

Toppur

½ lítri rjómi

Súkkulaðispænir

Salthnetur

 

Aðferð

Setjið Oreo-kex í matvinnsluvél og hakkið vel. Bræðið smjör og blandið því saman við kexið og hrærið vel saman. Skiptið kexblöndunni á milli glasanna og þrýstið niður í botninn. Hrærið rjómaostinn og hnetusmjörið saman þar til blandan verður létt og mjúk. Bætið vanilludropum saman við og hrærið vel. Þeytið rjóma og blandið honum saman við rjómaostablönduna með sleif. Setjið rjómaostablönduna í sprautupoka og sprautið henni jafnt í glösin. Setjið plastfilmu yfir glösin og kælið í u.þ.b. 2 tíma.

 

Toppur

Þeytið rjóma og sprautið honum fallega ofan á ostamúsina. Skreytið með súkkulaðispónum og söxuðum salthnetum. Geymið í kæli þar til ostamúsin er borin fram.

 

 Súkkulaðimús með kókosrjóma

Súkkulaðimús sem er alveg einstaklega einföld og fljótleg með kókosrjóma sem er sérlega góður með mjúkri súkkulaðimúsinni. Passar við öll tækifæri, sem eftirréttur eða sem smádesert fyrir veisluna. Hægt að setja í hvaða stærð af glösum sem er.

 

Innihald

200 g dökkt súkkulaði

3 msk vatn

4 egg, skipt í eggjahvítur

og eggjarauður

¼ tsk salt

 

Kókosrjómi

250 ml rjómi

2 msk kókos

 

Aðferð

Setjið súkkulaði og vatn í pott, bræðið yfir vatnsbaði og hrærið vel. Þegar súkkulaðið er bráðnað skuluð þið setja pottinn til hliðar og kæla. Setjið eggjahvítur og salt í skál og hrærið þar til þær eru orðnar stífar. Blandið eggjarauðum saman við súkkulaðið og hrærið vel með sleif. Blandið þeyttu eggjahvítunum saman við súkkulaðiblönduna smám saman og hrærið vel á milli með sleif þar til allt hefur blandast saman. Sprautið súkkulaðimúsinni í glös eða skálar og kælið inni í ísskáp í 2-3 klukkustundir með plastfilmu yfir.

Kókosrjómi

Þeytið rjómann og hrærið kókosinn saman við með sleif. Setjið rjómann í sprautupoka og sprautið honum fallega ofan á súkkulaðimúsina. Skreytið með súkkulaðispónum.

 

 

Súkkulaði- og Pekanhnetuísterta með karamellu

Þessa tertu bauð ég upp á sem eftirrétt á aðfangadag. Pekanhnetur eru svo girnilegar og gaman að skreyta kökuna að vild. Mr. Handsome segir að það sé nauðsynlegt að hafa þeyttan rjóma með þessari og nóg af karamellusósu, heitri eða kaldri.

 

Innihald

Botn

100 heslihnetur, hakkaðar

 

Ís

6 egg

6 msk sykur

100 g bráðið Mars

5 msk rjómi

7 dl rjómi

150 g dökkt súkkulaði,

saxað gróft

100 g pekanhnetur,

skornar smátt

2 tsk vanilludropar

60 g karamellusíróp/sósa

 

Toppur

Pekanhnetur

Karamellusíróp/sósa

 

Aðferð

Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Setjið Mars og 5 msk af rjóma í pott og bræðið saman yfir meðalháum hita. Takið pottinn af hellunni og blandið innihaldinu varlega saman við eggjarauðublönduna og hrærið með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Þeytið rjómann og blandið honum saman við með sleif, ásamt grófsöxuðu súkkulaði, pekanhnetum og vanilludropum. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim saman við. Ekki er nauðsynlegt að setja eggjahvíturnar saman við ef þið viljið nýta þær í annað. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið hökkuðu heslihneturnar í botninn á hringlaga kökuformi og hellið ísblöndunni ofan á. Hellið karamellusírópinu yfir ísinn og blandið því saman við ísinn með því að snúa hníf í nokkra hringi. Frystið í lágmark 5 klukkustundir. Þegar ísinn er tekinn út er gott að láta hann standa aðeins við stofuhita svo auðvelt sé að ná ískökunni úr forminu. Takið beittan hníf og skerið undir botninn á ísnum og færið á disk. Skreytið með karamellusírópi og pekanhnetum.

 

 

Uppskriftina geti þið séð skref fyrir skref á síðunni minni http://freistingarthelmu.blogspot.com/2013/05/gudomlegt-spinatsalat.html

 

Þessi kaka verður líka að fá að fljóta með því þetta er algjör BOOOMBA! Á mjög vel við á áramótunum wink

 

 

Marengs, súkkulaðikaka, rjómi, jarðaber, oreo og meira súkkulaði! Uppskriftin er skref fyrir skref á síðunni minni http://freistingarthelmu.blogspot.com/2013/10/marengs-sukkulaidraumur.html

 

Njótið vel!!

Kveðja

Thelma

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!