Thelma Þorbergsdóttir
Minions afmæli
02. mars 2016

Minions afmæli

Skósveina - afmæli

Kristófer varð 7 ára þann 27. febrúar, hvert fór tíminn?? Hann er mikill aðdáandi Minions eða skósveinana eins og hann kallar þá. Hann kann allar myndirnar utan að (sérstakir eiginleikar hans) og myndi helst vilja vera einn skósveinn ef hann fengi að ráða. Það var því ekki erfitt val fyrir hann þegar ég spurði hann hvernig afmæli hann vildi. Hann var alsæll með daginn og fékk held ég nánast allt minions á landinu í afmælisgjöf og okkur foreldrana er farið að dreyma litla gula karla út um allt! Ég var síðan svo heppin að fá smá gjöf sjálf, ég fékk skósveinabúning! Og að sjálfsögðu skellti ég mér í hann og hafði gaman!

Þar sem ég veit að hann er ekki einn um það að halda upp á skósveinana þá ætla ég að deila með ykkur nokkrum hugmyndum fyrir afmælisveisluna. Hvernig hægt er að gera einfalda köku með smjörkremi og skreyta með smá föndri til að gera afmælið ennþá persónulegra og skemmtilegra.

Byrjum á skrautinu. Á netinu er hægt að finna allskonar frítt föndur sem hægt er að prenta út, klippa og líma saman. Eins og til dæmis miða á flöskur, á bollakökur og svona afmælisflögg eða banner eins og það er kallað þar sem hægt er að skrifa nafn barnsins á. Mér finnst það gera rosalega mikið fyrir afmælið og þarf ekki að vera svo flókið. Tilvalið að klippa og föndra með krökkunum, þeim finnst það ekki leiðinlegt.

Glösin, hattana og servétturnar fékk ég í Toy´s r us.

Bláir og gulir diskar, rör, bollakökuform, stjörnuljós, blátt sprinkes og kerti fékk ég í Allt í köku.

Kallarnir ofan á kökuna fékk ég í Toy´s r us.

Flöskurnar eru glerflöskur sem ég hef safnað mér.

Hitt prentaði ég út af eftirfarandi síðum

 

 

Miðar á flöskur - smellið hér - og hér. :)

 

Toppar á bollakökur - smellið hér. :)

Afmælisflagg, boðskort, fánar á rör og fleira - smellið hér. :)

Minions búningur á mömmur – keyptur á netinu!

Afmæliskakan er mjög einföld. Ég er með skúffuköku uppskrift sem ég nota yfirleitt í allar afmæliskökur, svo mjúk og fín. Ég gerði eina og hálfa uppskrift til þess að fá 3 botna en 2 botnar eru alveg nóg. Ég er bara þekkt fyrir það að gera stórar kökur! Þið getið fundið uppskriftina hér. Það er allt í góðu að gera afmæliskökuna 2 dögum áður en veislan er. Þið setjið þá kremið á kökuna og geymið í kæli þar til hún er borin fram.

Ég gerði þrefalda uppskrift að smjörkremi því ég vil hafa vel af kremi á milli botnanna og utan á kökunni enda var ég með 3 botna, fyrir 2 botna þarf aðeins tvöfalda uppskrift. Þið getið fundið uppskriftina hér.

Mikilvægt er að kæla botnana alveg áður en þið farið að stafla þeim ofan á hver annan og setja smjörkremið á. Best er svo að hræra smjörkremið mjög vel svo það verði mjúkt og slétt. Þegar þið setjið kökuna saman setjið þið krem á milli botnanna og þunnt lag af kremi utan á alla kökuna, það er gert til þess að festa kökuna og svo að það komi ekki kökumynsla í allt kremið. Kælið kökuna í nokkra stund þar til kremið hefur náð að storkna. Setjið svo restina af kreminu á kökuna og skreytið af vild. Ég notaði sprautustút 1M Wilton og svo lítinn hringlaga stút til þess að skrifa nafnið á kökuna.

Stjörnuljós á kökur eru algjör snilld, krökkunum mínum finnst það verða að vera enda myndast ákveðin stemning við það að kveikja á því á meðan afmælissöngurinn er sunginn. 

Litlu skósveinana keypti ég í Toy´s r us og það er um að gera að nota það sem maður á heima eða bara prenta út nokkra skósveina og líma þá á tannstöngla eða kökupinna og stinga í kökuna. Það þarf alls ekki að vera flókið að gera skemmtilega köku.

Geymið svo kökuna í kæli þar til hún er borin fram. Gott er þó að taka kökuna út svona um 20 mín. áður. 

Við buðum upp á heita rétti, ostasalat, rice krispies kökur með súkkulaði, marengs og fleira. Ég gerði einnig pizzasnúða á núll einni sem slógu heldur betur í gegn!

Ég keypti pizzadeig út í búð sem búið er að fletja út, skellti á það pizzasósu, skinku, pepparoni og osti. Rúllaði deiginu upp og skar í bita líkt og maður gerir með kanilsnúða. Setti inn í ofn í rúmar 15 mín. Krakkarnir voru að elska þetta og reyndar Mr. Handsome líka!

 

Vona að þið getið nýtt ykkur eitthvað af þessu fyrir næsta barnaafmæli!

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!