Thelma Þorbergsdóttir
Meiriháttar marengskökur
29. september 2017

Meiriháttar marengskökur

Það er ekki veisla nema að það sé ein marengskaka á veisluborðinu. Þessar gömlu góðu standa alltaf fyrir sínu og sumir vilja aldrei bregða út af vananum, en það er líka gaman að koma bragðlaukum fólks á óvart með einhverjum nýjungum. Ég ætla að deila með ykkur tveimur marengskökum sem hafa slegið í gegn hjá mér. Það er svo auðvitað hægt að láta hugmyndarflugið ráða og breyta og bæta eftir því sem þið viljið.

Marengs með lakkríssósu og súkkulaðirjóma

Botn

3 eggjahvítur
180 g sykur
½ tsk. lyftiduft
70 g Rice Krispies

Lakkrísósa

1 poki Bingókúlur
100 g suðusúkkulaði
½ dl rjómi

Toppur

½ lítri rjómi
2 msk. kakó
2 msk. flórsykur
1 kassi af hrauni
250 g jarðarber

Aðferð:
Hitið ofninn í 150 gráður hita (með blæstri) og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til marengsinn verður stífur og stendur. Setjið lyftiduft saman við og hrærið vel. Blandið Rice Krispies saman við og hrærið léttilega með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Myndið hring á bökunarpappírinn, gott er að nota hringlótt kökuform til að móta marengsinn eftir. Setjið marengsinn á formið og bakið í um það bil 50 mínútur eða þar til marengsinn er þurr viðkomu. Kælið marengsinn alveg áður en þið takið hann af bökunarplötunni svo hann brotni ekki, setjið á botninn kaldan. Það er í góðu lagi að baka marengsbotn nokkrum dögum áður en setja á ofan á hann svo lengi sem hann er geymdur vel t.d. inni í ofni.

Lakkríssósa:
Setjið Bingókúlur, súkkulaði og rjóma saman í pott yfir lágum hita og hrærið þar til allt hefur bráðnað og blandast vel saman. Setjið helming sósunnar á marengsbotninn og setjið afganginn svo ofan á kökuna.

Toppur:
Þeytið rjóma þar til hann verður stífur og stendur, passið þó að þeyta hann ekki of mikið. Sigtið 2 msk. af kakói ofan í rjómann og hrærið varlega saman með sleif ásamt flórsykrinum. Setjið rjómann ofan á botninn. Grófsaxið hraunbita og jarðarber og setjið ofan á. Setjið restina af lakkríssósunni ofan á kökuna.

Geymið í kæli þar til kakan er borin fram.

Bounty marengs

Botn

4 stk. eggjahvítur
200 g sykur
100 g kókosmjöl

Krem

100 g suðusúkkulaði
50 g smjör
3 stk. eggjarauður
60 g flórsykur

Toppur

½ lítri rjómi
200 g Bounty, (eða eins mikið og þið viljið)
Súkkulaðisíróp

Aðferð:
Hitið ofninn í 150 gráðu hita (með blæstri) og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til marengsinn verður stífur og stendur. Blandið kókosmjölinu saman við og hrærið með sleif þar til allt hefur blandast saman. Myndið hring á bökunarpappírinn, gott er að nota hringlótt kökuform til að móta marengsinn eftir. Setjið marengsinn á formið og bakið í um það bil 50 mínútur eða þar til marengsinn er þurr viðkomu. Kælið marengsinn alveg áður en þið takið hann af bökunarplötunni svo hann brotni ekki, setjið á botninn kaldann. Það er í góðu lagi að baka marengsbotn nokkrum dögum áður en á að setja ofan á hann svo lengi sem hann er geymdur vel t.d. inni í ofni.

Krem:
Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti yfir lágum hita þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið súkkulaðinu varlega saman með sleif og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Setjið kremið á botninn.

Toppur:
Þeytið rjóma þar til hann verður stífur og stendur en passið ykkur á því að þeyta hann ekki of mikið. Grófsaxið Bounty súkkulaðið niður og setjið ofan á maregengsinn ásamt súkkulaðisírópinu. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram.

 

Verði ykkur að góðu!

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!