Thelma Þorbergsdóttir
Magnolia vanillu bollakökur og fylltar marengs rósir
29. apríl 2013

Magnolia vanillu bollakökur og fylltar marengs rósir


Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur mjög ljúffengum uppskriftum sem hægt er að baka við öll tækifæri! Ég var með saumaklúbb um daginn og gerði þessar freistingar fyrir vinkonurnar, mig langaði að hafa eitthvað fallegt og eitthvað alveg sjúklega djúsí og girnilegt og það tókst svo sannarlega!

Það hafa eflaust margir heyrt af Magnolia Bakery eða hvað? Magnolia Bakery er mjög frægt bakarí í Bandaríkjunum og er meðal annars í New York. Þeir eru með sérstakt svona “signiture swirl” á bollakökunum sínum eins og það er kallað á góðri amerísku og hafa kökurnar frá þeim slegið heldur betur í gegn. Kökurnar þeirra eru svo girnilegar og flottar að það liggur við að það nægi að bara horfa á þær! Mig vantaði svo einhverja góða uppskrift að vanillukökum, einhverja uppskrift sem er létt í sér, passlega moist (rakar) og bragðgóðar. Ég fór að “googla” og fann ansi margar tilraunauppskriftir sem fólk var búið að gera af Magnolia vanillu bollakökum, ég blandaði nokkrum saman og betrumbætti svo sjálf og eftir nokkrar tilraunir fannst mér ég vera komin með það sem ég hafði í huga. Góðu fréttirnar eru því þær að þið þurfið ekki að fara alla leið til New York til þess að smakka þessar heimsfrægu vanillu bollakökur, heldur bara inn á heimasíðu Gott í Matinn og skella í eina uppskrift í ykkar eigin eldhúsi! Hversu frábært er það??

 

Hérna er hægt að sjá Magnolia Bakery signature swirlsmiley
 

Magnolia vanillu bollakökur

Innihald
230 g smjör
450 g sykur
4 egg
335 g hveiti
3 tsk lyftiduft
¼ tsk. Maldon salt
2.5 dl mjólk
1 msk. og 1 tsk. vanilludropar

Aðferð
Hrærið smjörið þangað til það er orðið létt í sér og bætið svo sykrinum saman við og hrærið vel. Bætið einu og einu eggi saman við og hrærið vel á milli. Blandið þurrefnunum saman í skál og blandið saman við hægt og rólega ásamt mjólkinni þangað til öllu hefur verið blandað saman. Bætið því næst vanilludropunum saman við. Passið ykkur á því að hræra ekki of mikið því þá geta kökurnar orðið seigar. Raðið annað hvort upp rúmlega 24 stk. bollakökuformum eða tveimur meðalstórum kökuformum og setjið deigið í. Passið  ykkur að fylla ekki bollakökuformin meira en 2/3.

Bakið við 180 °C í u.þ.b. 20 mín. það er mjög mikilvægt að baka þær ekki of mikið því þá missa þær rakann sem gerir þær svo mjúkar og góðar, takið þær því út frekar fyrr en seinna. Látið kökurnar kólna alveg áður en kreminu er sprautað á þær.

Heimsins besta smjörkrem!
Þetta smjörkrem er án efa eitt það besta sem ég hef smakkað enda þróaði ég það þangað til Mr. Handsome gaf því 10 stig! Það er einfalt, fljótleg og inniheldur ekki egg. Það er líka mjúkt og gott og því er auðvelt að skreyta með því t.d. rósir sem þessar.

Innihald
250 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur
50 ml. rjómi
4 tsk. vanilludropar
Matarlitur að vild

Aðferð
Hrærið smjörið þar til það er orðið létt og fluffy, þetta er mjög mikilvægt sérstaklega ef þú ætlar að skreyta með kreminu að það séu engir harðir smjörkögglar í kreminu því það getur stíflað stútinn. Bætið svo flórsykrinum smá og smá saman við ásamt rjómanum, gott er að hræra vel á milli svo flórsykurinn slettist ekki út um allt. Bætið svo vanilludropunum saman við. Gott er að smakka kremið, ef þér finnst það of þykkt þá er hægt að bæta við rjóma, ef það er of þunnt þá bætir þú við flórsykri og ef þú vilt meira vanillubragð þá er um að gera að bæta við það. Það er einnig hægt að nota hvaða bragð sem er fyrir þetta krem. Gott er að vita að það þarf rosalega lítið magn af matarlit í kremið og best er að setja lítið í einu og bæta svo bara við ef rétti liturinn er ekki kominn, því það er ekki aftur snúið! Kreminu er svo sprautað á kökurnar og notaði ég sprautustút 1M fyrir þessar rósir.

 

Og nei þetta er ekki búið.....


 

Fylltar Marengs Rósir

6 eggjahvítur 
400 g ljós púðursykur 
1 tsk. lyftiduft

Þeytið eggjahvíturnar og púðursykurinn þangað til blandan er orðin stíf og þétt. Bætið svo saman við lyftidufti og hrærið vel. Setjið matarlit að eigin vali saman við marengsinn og hrærið þangað til matarliturinn hefur blandast vel saman við. Setjið smjörpappír á bökunarplötu. Setjið marengsinn í sprautupoka með sprautustút nr. 1M (eins og myndin sýnir hér að ofan) og sprautið fallegar rósir á bökunarplötu, rósirnar eru á stærð við litla undirskál.

Bakið við 150°C í u.þ.b. 30 mín. eða þar til marengsinn hefur bakast alveg og er þurr í viðkomu. Kælið marengsinn alveg. 

Súkkulaðikrem
3 eggjarauður
100 g flórsykur
150 g dökkt súkkulaði
25 g smjör
1 tsk. vanilludropar

Þeytið eggjarauðurnar þangað til þær eru orðnar aðeins ljósar. Bætið svo flórsykrinum saman við og hrærið þangað til blandan er orðin ljós og létt. Bræðið súkkulaðið saman við smjörið í potti yfir lágum hita og blandið því vel saman við blönduna. Bætið því næst vanilludropum saman við og hrærið vel. Setjið u.þ.b. 2-3 msk. af súkkulaðinu á hverja köku fyrir sig, eða eins mikið og þú villt! Einnig er hægt að setja það ofan á kökurnar.

Fylling
500 ml. rjómi
6 kókosbollur
1 poki Nóakropp 

Þeytið rjómann þangað til hann stendur alveg og setjið ofan á botninn. Setjið slatta af Nóakroppi ofan á rjómann, skerið hverja kókosbollu í tvennt og setjið ofan á, bætið smá rjóma ofan á hverja kókosbollu og setjið svo marengsrós ofan á og þrýstið lauslega saman.

Geymið í kæli þar til borið er fram.

 Varúð! Passið ykkur að klára þær ekki áður en gestirnir koma!

 Verði ykkur að góðu!

 Kveðja
Thelma

 

www.freistingarthelmu.blogspot.com


 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!