Thelma Þorbergsdóttir
Ljúffeng boost
19. janúar 2015

Ljúffeng boost

Jæja þá er komið nýtt ár og allir með ný markmið. Flest þeirra snúa örugglega að bættri heilsu og hollustu eða svona allavega í kringum mig. Ég er sjálf byrjuð að hreyfa mig á fullu og finn mikinn mun á mér og þá sérsaklega andlega. Ég var búin að vera flottur styrktaraðili heilsuræktarstöðva í langan tíma og ég ákvað að hætta því! Það er ótrúlega erfitt að koma sér aftur í rútínu og labba fyrsta skrefið inn í ræktina en maður er líka fljótur í gírinn aftur þegar það skref er yfirstaðið… en líka fljótur að detta úr rútínu ef maður fer ekki reglulega. Já þetta er nú bara mjög flókið verkefni! En hreyfing og hollusta skiptir auðvitað miklu máli og maður finnur fyrir mikilli vellíðan þegar maður hefur náð jafnvægi hvað þessa hluti varðar. En það er líka mikilvægt að leyfa sér eitthvað rosa gott af og til og við sérstök tækifæri og því er ég sko alls ekki hætt að búa til sætar freistingar fyrir ykkur svo ekki örvænta! Ég ákvað þó að byrja árið á einhverju léttu og skellti í nokkur boost hérna heima og lét heimilismenn smakka. Kristófer sonur minn var líka að koma úr hálskirtlatöku og má því bara borða eitthvað mjúkt, hann ELSKAR skyr svo þeir innihalda flestir skyr og alls kyns góðgæti! Hann gúffaði þessu í sig allsæll þessi elska og er allur að hressast! Ég er ekki frá því að skyr geri kraftaverk! Allavega í hans heimi.

Verði ykkur að góðu!

Bleikt morgunverðar-boost

Innihald

200 g frosin jarðarber

1 banani

50 g hafrar

120 g hnetusmjör

180 ml fjörmjólk

1-2 bollar af klökum

 

Aðferð

Setjið allt hráefnið í blandara eða matvinnsluvél og hrærið þar til klakinn er orðinn vel mulinn og allt hefur blandast vel saman. Ef ykkur finnst drykkurinn ekki nægilega þykkur er gott að setja aðeins meiri klaka saman við. Drykkurinn er bestur ef hann er drukkinn strax, en geymist inn í ísskáp yfir daginn.

----------

Súkkulaðiprótein-boost

Innihald

1 frosinn banani (gott að setja í frysti daginn áður)

180 ml fjörmjólk

180 g hreint skyr

3 msk hnetusmjör

2 msk súkkulaðiprótein

10 dropar Stevia með súkkulaðibragði

1-2 bollar af klökum

Aðferð

Gott er að taka hýðið af banananum og skera hann í bita, setja í poka og frysta yfir nótt. Setjið allt hráefnið saman í blandara eða matvinnsluvél og hrærið þar til klakinn er orðinn vel mulinn og allt hefur blandast vel saman. Ef ykkur finnst drykkurinn ekki nægilega þykkur er gott að setja aðeins meiri klaka saman við. Drykkurinn er bestur ef hann er drukkinn strax, en geymist inn í ísskáp yfir daginn.

----------

Súkkulaði-boost með kanil og kókos

Innihald

200 g vanilluskyr

180 ml fjörmjólk

1 msk kakó

1 tsk kanill

2 msk chia fræ

2 msk kókosflögur

2 bollar af klökum

 

Aðferð

Setjið allt hráefnið í blandara eða matvinnsluvél og hrærið þar til klakinn er orðinn vel mulinn og allt hefur blandast vel saman. Ef ykkur finnst drykkurinn ekki nægilega þykkur er gott að setja aðeins meiri klaka saman við. Drykkurinn er bestur ef hann er drukkinn strax, en geymist inn í ísskáp yfir daginn.

 

Verði ykkur að góðu :)

Kveðja,
Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!