Thelma Þorbergsdóttir
Leyndardómsfullar marengstertur
20. maí 2016

Leyndardómsfullar marengstertur

Marengstertur virðast alltaf vera jafn vinsælar. Þær eru auðveldar í framkvæmd og möguleikarnir eru endalausir svo lengi sem maður er með egg, sykur og rjóma við hönd. Ég skellti í tvær marengs um síðustu helgi og bauð upp á þær í Eurovisonboðinu okkar. Við getum sagt að við vorum meira að gúffa í okkur en að horfa á Eurovison. Ég er ekki Eurovison aðdáandi nr. 1 en ég hef gaman af því að horfa þegar við erum með! En það drepur alveg stemninguna á mínu heimili þegar Ísland er bara ekki með á lokakvöldinum, en við krossum fingur og vonumst eftir því að við komumst áfram næst! Kannski hefðum við bara átt að senda Pál Óskar með Eurovisonlagið sitt út… held að það hefði náð langt og sérstaklega ef hann hefði komið fram í glansgallanum sínum.

Við fengum nágrannana einnig yfir til að smakka og gestina þeirra! Já við eigum bestu nágranna í heimi það er alveg óhætt að segja það. Marengskakan með Nutella og Nóa kroppi með pipardufti fékk 10 stig og hin var þar á eftir. Mr. Handsome vildi svo ekki segja bróður sínum frá því að við ættum tertur inni í ísskáp inni í bílskúr því hann vildi ekki þurfa að deila afgöngnunum með honum! Hann fékk sér sem sagt köku í morgunmat, hádegismat og kvöldmat… og var afvelta í sófanum á eftir og kom ekki neinu í verk á heimilinu daginn eftir! Ég tek það á mig… enda fær hann ekki köku á næstunni!

En hérna koma uppskriftirnar! Njótið.

Innihald

3 eggjahvítur

200 g púðursykur

½ tsk lyftiduft

 

Toppur

4 msk Nutella, kúfaðar, eða meira ef þið viljið

½ lítri rjómi

2 msk flórsykur

1 poki Nóa kropp með pipardufti (180 g)

súkkulaðisíróp

 

Aðferð

Hitið ofninn í 150 gráðu hita og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Hrærið eggjahvíturnar þar til þær verða að hálfgerðri froðu. Bætið púðursykrinum saman við, einni msk í einu og hrærið vel á milli. Hrærið þar til marengsinn er orðinn stífur og stendur. Bætið lyftiduftinu saman við og hrærið vel. Setjið marengsinn á bökunarplötuna og myndið jafnan hring, gott er að móta hring með t.d. hringlaga kökuformi. Bakið í um 50 mín. eða þar til maregnsinn er þurr viðkomu. Kælið marengsinn alveg og leyfið honum að jafna sig áður en þið takið hann af plötunni.

Setjið marengsinn á kökudisk og smyrjið Nutella yfir botninn. Þeytið rjóma þar til hann verður stífur, hrærið flórsykri saman við með sleif. Setjið rjómann á marengsinn, setjið Nóa kropp ofan á rjómann og sprautið súkkulaðisírópi yfir. Þeir sem vilja ekta súkkulaði geta brætt 100 g af dökku súkkulaði yfir vatnsbaði og slett yfir kökuna. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram. Gott er að setja á marengsinn deginum áður. 

 

Innihald

Marengs

3 egg

200 g sykur

½ tsk lyftiduft

50 g Rice Krispies

3 msk instant kaffiduft

 

Súkkulaðikrem

3 eggjarauður

70 g flórsykur

100 g dökkt súkkulaði

1 msk instant kaffiduft

 

Toppur

½ lítri rjómi

2 msk flórsykur

1 tsk vanilludropar

1 pk Oreo kexkökur (176 g)

Súkkulaðisíróp

 

Aðferð

Hitið ofninn í 150 gráðu hita og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær verða að hálfgerðri froðu. Bætið þá sykrinum saman við 1 msk í senn og hrærið vel á milli. Hrærið þar til marengsinn verður stífur og stendur. Setjið lyftiduft saman við og hrærið vel. Blandið því næst instant kaffidufti saman við ásamt Rice Krispies og hrærið með sleif þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Setjið marengsinn á bökunarplötuna og myndið jafnan hring, gott er að móta hring með t.d. hringlaga kökuformi. Bakið í um 50 mín. eða þar til maregnsinn er þurr viðkomu. Kælið marengsinn alveg og leyfið honum að jafna sig áður en þið takið hann af plötunni.

Súkkulaðikrem

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði þar til það hefur bráðnað alveg. Hellið saman við blönduna og hrærið súkkulaðið saman með sleif þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Smyrjið súkkulaðikreminu yfir botninn.

Toppur

Þeytið rjóma þar til hann stendur. Blandið saman flórsykri, kaffi og vanillu og hrærið saman með sleif. Hakkið u.þ.b. helminginn af Oreo kexkökunum í matvinnsluvél þar til kexkökurnar eru orðnar fínmalaðar, blandið þeim saman við rjómann og hrærið með sleif. Setjið rjómann ofan á botninn. Grófsaxið restina af Oreo kexkökunum og setjið ofan á rjómann ásamt súkkulaðisírópi. Þeir sem vilja ekta súkkulaði geta brætt 100 g af súkkulaði yfir vatnsbaði og slett yfir kökuna. Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram. Gott er að setja á botninn deginum áður. 

Verði ykkur að góðu!

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!