Thelma Þorbergsdóttir
Kók, súkkulaði og hnetur
08. ágúst 2014

Kók, súkkulaði og hnetur

Þann 1. ágúst varð Mr. Handsome 30 ára!! Við fjölskyldan eyddum ekki deginum með honum þetta árið heldur sendum við hann í óvænta heimsókn til Noregs að heimsækja besta vin sinn! Já hann hafði ekki hugmynd um það að hann væri að fara til Noregs og ég ætlaði að láta hann vita það bara kvöldið áður eða sama morgun og hann átti að fara út, en hann var farinn að plana næstu útileigur og þetta var farið að vera hálf skrítið. Ég þóttist ekki vera í stuði að fara í aðra útileigu alveg strax og honum fannst ég nú frekar leiðinleg. Mamma var svo næstum því búin að klúðra þessu 2x!! Já já hún var alltaf að tala um þegar við færum norður! Ég, mamma, systir mín og krakkarnir eyddum nefnilega verslunarmannahelginni fyrir norðan hjá systur minni og áttu góða tíma saman.

 

En í tilefni þess að Mr. Handsome átti afmæli ætla ég að deila með ykkur einum af hans uppáhalds bollakökum, það er ekki nóg fyrir hann að fá sér bara eina köku af þessum bollakökum heldur nokkrar, já svona 3-4!! Mr. Handsome elskar hnetusmjör og hnetur og hann vill helst að ég setji það í allar mínar uppskriftir, en það er þess vegna sem þessar kökur eru í svo miklu uppáhaldi hjá honum!

 

Mr. Handsome á ströndinni í Stavanger á afmælidaginn sinn! Jiminn eini hvað hann er HANDSOME!

 

Kók, súkkulaði og salthnetur!

Þessa uppskrift má að sjálfsögðu finna í bókinni minni Freistingar Thelmu!

 

Ok, kók í köku hljómar kannski mjög sérkennilega en það er mikill sykur í kóki eins og í mörgum kökum og kókið gerir kökurnar alveg einstaklega mjúkar. Þannig þetta er eins og sykur í uppskriftinni nema bara mun betra! Það verður að nota sykrað kók ekki diet eða coke zero. Það hafa fáir í minni fjölskyldu smakkað þessar kökur en þær koma fólki alltaf á óvart, bara svona ef þú vilt slá í gegn þá myndi ég skella í þessar! Just saying smiley

 

                                  

 

U.þ.b. 18-20 stk

 

Innihald

250 ml kók, ekki sykurlaust

60 g dökkt kakó

60 g smjör við stofuhita

130 g sykur

60 g púðursykur

1 egg

125 g hveiti

1 tsk matarsódi

½ tsk salt

 

Hnetusmjörskrem

230 g smjör við stofuhita

230 g hnetusmjör

500 g flórsykur

4 msk rjómi

¼ tsk Maldon-salt

 

Toppur

Sjávarsalt

Súkkulaðisprinkles

Skornar salthnetur

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180°C og raðið bollakökuformum í bökunarmót og setjið á bökunarplötu.

Setjið kók, kakó og smjör í pott og bræðið yfir meðalháum hita þar til smjörið hefur

bráðnað. Bætið sykri saman við og hrærið þar til hann er uppleystur. Takið pottinn af

hellunni og látið kólna. Setjið egg í skál og hrærið, bætið því saman við blönduna og

hrærið vel saman. Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál og svo saman við

blönduna. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið deigið í bollakökuformin

og passið ykkur að fylla þau ekki meira en að 2/3, eða u.þ.b. 2 msk af deigi í hvert form.

Bakið í 20-25 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar.

Kælið kökurnar alveg áður en kremið er sett á.

 

Hnetusmjörskrem

Hrærið smjörið og hnetusmjörið þar til það hefur blandast vel saman. Bætið flórsykri

saman við, litlu í einu og hrærið vel á milli. Bætið því næst rjóma út í ásamt salti og

hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á

kökurnar. Skreytið með súkkulaðisprinkles, salti og skornum salthnetum.

 

Ég eyddi svo verslunarmannahelginni á Akureyri með þessum snillingum! Við fengum æðislegt veður og áttum svo góða tíma saman með mömmu og systur minni, en að sjálfsögðu söknuðum við Mr. handsome verulega en vorum dugleg að senda honum hvað hann gæti keypt fyrir okkur í útlandinu og deila með honum myndum af okkur ! cool

 

 

Þangað til næst!!

Kveðja Thelma

www.freistingarthelmul.blogspot.com

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!