Thelma Þorbergsdóttir
Kjúklingur í Mexíkó-ostasósu með Nachos
12. janúar 2014

Kjúklingur í Mexíkó-ostasósu með Nachos

Hver kannast ekki við það  að þurfa að huga að kvöldmatnum en þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ætlar að elda og ert einhvern veginn komin með nóg af öllu því sem þú ert búin að vera elda upp á síðkastið. Ég lendi svo oft í þessu, maður festist svo í sömu uppskriftunum og svo verður maður svo hugmyndasnauður að nýjum réttum. Maður fer svo og leitar að nýjum réttum á netinu og finnst þeir allir eitthvað svo flóknir að þú nennir ekki að gera þá akkúrat núna?? Það er ég!! Svo er maður bara stundum svo lúinn eftir vinnuna þegar maður kemur heim.

 

Ég elska allt einfalt og fljótlegt og þessi  kjúklingaréttur hefur þetta allt saman. Hann er einfaldur, fljótlegur og unaðslega góður! Mæli með því að þið prófið að gera þennan rétt fyrir fjölskylduna því hann slóg heldur betur í gegn heima hjá mér og líka hjá litla fólkinu.

 

Dóttir mín byrjar alltaf á því að horfa á matinn og segja svo, hvað er þetta? Ég svaraði henni að þetta væri Mexíkó kjúklingur, hún svaraði þá, ha? Ég borða ekki svona mat. Ég sagði henni að hún vissi það nú ekki fyrirfram því hún hefði aldrei smakkað hann. Með smá mútum smakkaði hún réttinn og sagði, namm mamma þetta er rosa góður matur, núna borða ég kjúkling frá Mexikó! Þessi börn eru stundum svo fyndin og stundum er svo erfitt að gera þeim til geðs hvað varðar kvöldmat. En með því að láta þau smakka og jafnvel bera matinn fram á skemmtilegan hátt eru þau líklegri til að smakka. Þau eru ennþá að þroska bragðlaukana svo við foreldrarnir megum ekki gefast upp á þeim þó svo þau séu stundum erfið við okkur smiley

 

Svo að sjálfsögðu er ég með uppskrift af köku, kakan gæti verið eftirréttur eftir þessum kjúklingarétti t.d. í matarboðinu eða í saumaklúbbnum. Þessi marengskaka sló líka í gegn og sérstaklega hjá Mr. Handsome. Það var eiginlega hann sem bað mig um að gera marengs með heslihentum því það er eitt uppáhaldsnammið hans, heslihnetur með súkkulaði frá H-berg.

 

Kjúklingur í Mexíkó-ostasósu með Nachos

 

Eldunartími 30 mínútur, fyrir u.þ.b. 4

3-4 kjúklingabringur

1 pk. Fajitas krydd

1 stk. Mexikóostur

1 ½ dl matreiðslurjómi

1 poki osta Nahcos

2 bollar hrísgrjón

Salsa sósa og sýrður rjómi

 

Aðferð:

Sjóðið hrísgrjónin eftir leiðbeiningum eða setjið tvo bolla af hrísgrjónum í pott ásamt fjórum bollum af vatni og nokkra dropa af olíu. Hitið helluna í hæsta þar til það fer að sjóða, þegar það er rétt farið að sjóða er gott að hræra léttilega með gaffli í hrísgrjónin og leyfa þeim að malla aðeins lengur. Hrísgrjónin eiga að mynda holur, setjið svo lokið yfir og slökkvið á hellunni. Leyfið hrísgrjónunum að klárast að eldast í gufunni ofan í pottinum.

 

Skerið kjúklinginn í litla teninga u.þ.b 2 cm stóra. Steikið upp úr 1 msk af olíu þar til þeir eru eldaðir alveg í gegn. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn setjið þá 1 dl af vatni á pönnuna ásamt fajitas kryddinu og hrærið vel þar til kjúklingurinn er vel þakinn í kryddi og vatnið er farið.

 

Skerið Mexíkóostinn í smáa bita og setjið í pott yfir meðalháan hita ásamt 1 ½ dl matreiðslurjóma. Þegar rjóminn er aðeins farinn að sjóða hrærið þá þar til osturinn er alveg bráðnaður. Þegar sósan er tilbúin hellið henni þá yfir kjúklinginn og hrærið þar til allt hefur blandast saman.

 

Setjið hrísgrjón á disk, setjið kjúklinginn yfir og myljið svo Nachos yfir kjúklinginn. Gott er að bera kjúklingaréttinn fram með fersku salati ásamt sýrðum rjóma og salsa sósu.

 

 

Súkkulaðimarengs með helsihnetum

Bökunartími u.þ.b. 60 mínútur

 

Marengs

6 eggjahvítur

330 g sykur

1 tsk lyftiduft

100 g bráðið súkkulaði

 

Aðferð

Hitið ofninn í 150 C og setjið smjörpappír á tvær bökunarplötur og myndir tvo jafna hringi.

Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til blandan verður hvít og stíf. Setjið lyftiduft saman við og hrærið vel. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og hellið því yfir marengsinn í skálinni. Ekki hræra súkkulaðinu saman við heldur hellið marengsinum á bökunarplöturnar og myndið fallega jafn hringi, þannig myndast fallegt súkkulaðimynstur á marengsinn. Bakið í 50 mínútur eða þar til marengsinn er þurr viðkomu. Kælið alveg.

 

Fylling

½ lítri rjómi

200 g súkkulaðiðhúðaðar heslihnetur H-Berg

4 kókosbollur

150 g súkkulaði

4 msk síróp

½ dl rjómi

 

Aðferð

Bræðið súkkulaðið, ½ dl rjóma og sírópi yfir vatnsbaði. Hellið helmingnum á annan botninn. Grófsaxið 100 g heslihnetur og setið ofan á súkkulaðið. Þeytið ½ líter rjóma og bætið kókosbollunum saman við rjómann og setjið hann ofan á neðri botninn. Setjið hinn botninn ofan á og skreytið með restinni af brædda súkkulaðinu og 100 g grófsöxuðum pekanhnetum. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram.

 

Þangað til næst....

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!