Thelma Þorbergsdóttir
Kjúklingapasta með sítrónu og sítrónukaka
15. maí 2017

Kjúklingapasta með sítrónu og sítrónukaka

Á meðgöngunni hef ég verið sjúk í appelsínur og sítrónur. Ég hef reyndar verið með æði fyrir öllum ávöxtum og öllu því sem ferskt er... já ok, í bland við kanilsnúða og skúffuköku og grillmat og… og annað gott.

Mig langaði í eitthvað létt og ferskt pasta um daginn og skellti í sítrónupasta sem heppnaðist svona rosalega vel. Einstaklega ferskt og gott og ekki skemmir fyrir hversu snöggur maður er að elda það og bera það fram. Síðan er ein af mínum uppáhaldskökum sandkaka, en ég elska heita sandköku með ískaldri mjólk. Best er að setja mjólkina aðeins inn í frysti svo hún verði einstaklega köld með kökunni! Mæli með því! En þar sem ég átti tonn af sítrónum skellti ég í sítrónuköku með sítrónuglassúr. Hún er algjörlega himnesk á bragðið, sérstaklega fyrir ykkur sem líkar vel við sítrónubragðið. Svo minna sítrónur svo mikið á sumartímann sem við bíðum flest spennt yfir!

Ferskt kjúklingapasta með sítrónu og spínati

Þetta pasta er sjúklega ferskt og fljótlegt, tekur um 20 mínútur að koma því á matarborðið! Mr. Handsome gúffaði þessu í sig með bestu lyst!

Fyrir um 4

Innihald

250 g Tagliatelle pasta

2 kjúklingabringur

2 msk. ólífuolía

4 msk. smjör

½ laukur

1 stk. hvítlaukur

2 msk. sítrónusafi

Börkur af hálfri sítrónu

50 g spínat, ferskt

50 g parmesan ostur, rifinn niður

1,5 dl matreiðslurjómi

Kryddið t.d. með salti, pipar og sítrónupipar

Aðferð

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum, gott er að setja smá olíu og salt í pottinn þegar pastað er soðið. Passið ykkur á því að sjóða pastað ekki of mikið.

Skerið kjúklinginn í litla bita og steikið á pönnu ásamt ólífuolíu, kryddið kjúklinginn með salti og pipar. Þegar kjúklingurinn fer að verða tilbúinn skerið þá laukinn smátt niður og blandið honum saman við ásamt hvítlauk, smjöri, sítrónusafa, sítrónuberki og spínati. Steikið þar til kjúklingurinn er tilbúinn og hrærið vel. Blandið pastanu saman við á pönnuna og setjið rifinn parmesan ost yfir ásamt matreiðslurjómanum og hrærið vel. Kryddið að vild, gott er að smakka pastað til og krydda eftir því.

Berið fram með auka parmesan osti og hvítlauksbrauði.

 

Sítrónukaka með glassúr

 

Innihald

230 g smjör við stofuhita

400 g sykur

4 egg

40 g af rifnum sítrónuberki ( af ca. 2 meðalstórum sítrónum)

370 g hveiti

½ tsk. matarsódi

½ tsk. lyftiduft

1 tsk. sjávarsalt

50 ml af sítrónu safa (úr 1- 1 ½  sítrónu)

180 g grísk jógúrt frá Gott í matinn

1 tsk. vanilludropar

Glassúr

250 g flórsykur

3-4 msk. sítrónusafi

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og smyrjið ílangt form að innan ásamt því að setja smjörpappír í það.

Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum saman við, einu í senn ásamt sítrónuberki og hrærið á milli.

Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í skál og hrærið saman. Setjið gríska jógúrt, sítrónusafa og vanilludropa saman í skál og hrærið vel saman. Blandið hveitiblöndunni og jógúrtblöndunni saman við deigið til skiptis og hrærið á milli. Þegar allt hefur farið saman við deigið er gott að hræra þar til allt hefur blandast vel saman, gott er að skafa hliðar skálarinnar hér.

Setjið deigið í bökunarformið og bakið í um 60-70 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið glassúrinn á.

Setjið flórsykur í skál og hrærið honum saman við sítrónusafann þar til glassúrinn er orðið sléttur og fínn og setjið svo ofan á kökuna.

Best er að borða kökuna samdægurs en annars er mikilvægt að geyma hana á kökudisk með loki, í poka eða inni í ofni svo hún þorni ekki upp.

 

Verði ykkur að góðu,

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!