Thelma Þorbergsdóttir
Jólabakstur
22. nóvember 2012

Jólabakstur

Það styttist óðum í jólin og margir eflaust farnir að huga að jólabakstri, eða hvað? Mér fannst þó frekar sérstakt þegar maður sá verslanir komnar í jólafötin í byrjun nóvember, aðeins of snemmt ef þú spyrð mig. En það er sko ekki of snemmt að fara huga að jólabakstrinum og mér finnst í rauninni fyrsta helgin í desember fullkomin helgi til þess að skella í sína uppáhalds smákökuuppskrift, nú eða prófa eitthvað nýtt og jafnvel byrja að skreyta heimilið í leiðinni.

Ég ætla að deila þessari unaðslegu smákökuuppskrift með ykkur en hún er í algjöru uppáhaldi hjá minni fjölskyldu. Þetta er ekkert endilega jóla jóla...en mjög góð upphitun fyrir hvað koma skal!

Súkkulaðibita og pecanhnetu smákökur með karamellu

 

Um það bil 40 stykki.

225 g smjör við stofuhita
200 g dökkur púðursykur
100 g sykur
2 egg
1,5 tsk. vanilludropar
2 msk. síróp
150 g hveiti
3 tsk. kanill
1.5 tsk. matarsódi
½ tsk. maldon salt
350 g dökkt súkkulaði, gróf saxað
200 g H-berg pecanhnetur
200 g hafrar

 

Karamella
30 stk. Nóa Sirius ljósar töggur
6 msk. rjómi
4 msk. síróp

Hitið ofninn í 180 gráður. Hrærið smjöri, sykri og púðursykri vel saman. Bætið við eggjum og hrærið vel saman á milli. Bætið við vanilludropum og sírópi. Blandið saman hveiti, kanil, salti og matarsóda og bætið rólega saman við. Gróf saxið súkkulaðið og hneturnar niður og blandið saman með sleif, bætið saman við höfrum og hrærið vel saman með sleif. Setjið u.þ.b. 30 g í hverja köku, myndið litla bolta og setjið á plötu með smjörpappír. Bakið í 10-12 mínútur. passið að baka þær ekki of lengi. Þegar kökurnar eru teknar út úr ofninum er stráð maldon salti yfir þær alla, kælið í 15 mínútur. Á meðan kökurnar eru að kólna er gott að undirbúa karamelluna sem er svo helt léttilega yfir hverja köku.

Fyrir ykkur sem langar að baka eða föndra eitthvað sniðugt fyrir jólin með börnunum ætla ég að deila með ykkur nokkrum skemmtilegum hugmyndum.

 

  1. Hugmyndir að jólalímmiðum
  2. Útlit að límmiðum fyrir baksturinn (frítt)
  3. Uppskrift að köku-sleikjópinnum fyrir krakkana
  4. Skemmtilegar bollakökur með piparkökum ofan á
  5. Uppskrift að piparkökum
  6. Skemmtilega skreyttir piparkökukarlar

 

40 girnilegar uppskriftir beint í iPadinn, frítt!

Sækja hér!

 

Í desember ætla ég svo að deila með ykkur uppskriftum að hátíðlegum eftirréttum, sérstaklega fyrir aðfangadag og gamlárskvöld!

www.facebook.com/freistingarthelmu

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!