Thelma Þorbergsdóttir
Jólabakstur og mexíkósúpa
12. desember 2013

Jólabakstur og mexíkósúpa

Jiminn eini ég held ég sé búin að baka yfir mig af smákökum fyrir jólin!! Og það er ekki kominn desember!! Bókin mín er nefnilega komin út og er ég búin að vera að kynna hana ásamt því að ég hélt æðislegt útgáfuteiti til að fagna útkomu bókarinnar í versluninni Heimili & hugmyndir. Þeir sem þekkja mig og hafa komið í veislur til mín vita það að það er ALDREI of lítið af veitingum í boði! Reyndar var ég að kynna bókina í Ilva um daginn á afsláttarkvöldi hjá þeim og var ég með bollakökur og smákökur sem smakk, þær hurfu á met tíma og ég ákvað því fyrir útgáfuteitið mitt að þetta væri ekki eitthvað sem myndi gerast 2x á mínu heimili! Það er að veitingarnar kláruðust! Svo ég þrælkaði yndislegu  móður minni hér út í litla eldhúsinu mínu (já þið fengjuð hláturskast ef þið sæjuð að allt þetta kemur úr afar litlu eldhúsi) og við bökuðum fyrir útgáfuteitið hátt í 800 smákökur, 100 stk konfekt og 450 bollakökur! Já það var bara þannig....plús allt hitt sem við höfum bakað fyrir allt hitt!!

 

 

 

Bókin mín! loksins komin í allar helstu verslanir og búin að fá frábærar viðtökur smiley

 

Um daginn var ég svo að baka fimm nýjar sortir af smákökum fyrir síðuna hér Gott í matinn, ég var búin að fela einn dúnkinn mjög vel inn á skrifstofunni okkar því það voru þær kökur sem ég var búin að taka frá fyrir myndatöku. Daginn sem ég ætlaði að fara með kökurnar í myndatöku áttaði ég mig á því að dunkurinn var tómur!! Já ég var ekki allt of sátt með það og gekk að sjálfsögðu beint á Mr. Handsome sem játaði brot sitt! Hann át kökurnar....ég þurfti bara að baka þær aftur ekki málið!!! Ég var ekki mjög hress með hann þar sem hann var nú þegar búinn að éta þvílíkt af smákökum!!

 

Hérna eru smákökurnar sem ég var að baka fyrir Gott í matinn, þær heppnuðust ótrúlega vel og slógu í gegn hjá yfirsmökkurum hér og þar, t.d. á Remax Borg, hjá Mr. Handsome, mömmu, systur minni og vinnufélögum! Já ég er með gott teymi sem sér um að smakka það sem ég blanda saman í eldhúsinu. Uppskriftirnar eru að finna undir kökur og svo smákökur.

 

 

 

 

Og þar sem ég er svo mikil bollakökukona varð ég að gera jólabollaköku líka, ég kalla þessar jólabollakökur eða piparkökubollakökur því þær eru svo kryddaðar og fínar og alveg einstaklega mjúkar á bragðið með sítrónukremi cheeky

 

Ég ætla líka að deila með ykkur uppskrift af minni uppáhalds Mexikósúpu, hún kemur frá ömmu Stínu, hún er ekki amma mín og ekki amma barnanna minna né mansins míns en hún er frænka þeirra, en hún er samt amma, bara ekki amma okkar. Æj þetta er kannski of flókið fyrir venjulegan mann að skilja.....en allavega súpan er rosalega góð og þegar það er svona kuldalegt og dimmt úti finnst mér ekkert betra en að fá góða súpu. Súpur eru líka svo léttar og góðar í matinn og ekki veitir okkur af að hafa súpur í  matinn núna aðeins fram að jólum þegar maður fer að éta á sig gat. Það sem mér finnst best við það að hafa súpur í matinn er að eiga afgang daginn eftir....og jafnvel daginn eftir það! hún verður bara betri og þvílíkur lúxus að þurfa ekki að elda daginn eftir, bara taka pottinn úr ísskápnum og skella honum á helluna, LOVE IT! Ég lofa ykkur því að þið verðið ekki svikin af þessari súpu. Ég hef smakkað ótal margar tegundir af Mexikósúpu og þessi slær öllum þeim við til samans....nei ég er ekki að grínast.. wink

 

Jólabollakökur

 

 

Jólabollakökur með sítrónukremi  12 stk.

Innihald

160 g hveiti

1 ½ tsk engifer krydd

1 tsk kanill

½ tsk múskat

¼ tsk salt

55 g smjör við stofuhita

115 g sykur

130 g síróp

1 egg létthrært

110 ml sterkt heitt kaffi

1 tsk matarsódi

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 C og raðið 12 bollakökuformum í bollakökubökunarform.

Setjið hveiti, engifer, kanil, múskat og salt saman í skál og setjið til hliðar. Hrærið saman smjör og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Létthrærið eggið og blandið því saman við ásamt sírópinu og hrærið. Setjið matarsóda saman við sterkt heitt kaffi og hrærið þar til matarsódinn hefur náð að leysast alveg upp og hellið því saman við blönduna. Blandið síðan hveitinu saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Fyllið bollakökuformin til hálfs og bakið í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar.

 

Sítrónukrem

250 g smjör við stofuhita

500 g flórsykur

2 msk mjólk

1 tsk sítrónudropar

Aðferð

Hrærið kremið þar til það verður ljóst og létt, bætið flórsykrinum saman við smátt og smátt í einu. Blandið mjólk saman við ásamt sítrónudropunum og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman og kremið er orðið mjúkt og slétt. Setjið kremi í sprautupoka með sprautustút 1M og sprautið því á kældar kökurnar. Skreytið með piparkökum.  

 

Svo er um að gera að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug til að skreyta bollakökurnar fyrir jólin laugh

                              

Mexikósúpa

 

Mexikönsk kjúklingasúpa fyrir 8

 

Innihald

4 rauðlaukar

3 hvítlauksrif, rifin niður

1 rauður ferskur chilipipar

10 dl vatn

2 kjúklingakrafts teningar

2 kjötkrafts teningar

1 tsk. Cayenne pipar, setja 1/2 fyrst og smakka svo

4 dósir niðursoðnir tómatar skornir smátt

6 ferskir tómatar skornir í  grófa bita

1/2 lítri matreiðslurjómi (meira fyrir sælkera)

5 kjúklingabringur

salt og pipar

 

Meðlæti

sýrður rjómi

rifinn ostur

nachos ostaflögur

 

Aðferð

Setjið eina msk. af ólífuolíu í stórann pott, skerið rauðlaukinn gróflega niður og steikið hann í pottinum. Bætið hvítlauknum saman við og hrærið, passið að hvítlaukurinn brenni ekki. Þegar rauðlaukurinn er aðeins farinn að brúnast bæti þið restinni saman við. Byrjið á því að setja niðursoðnu tómatana saman við ásamt vatninu og kjúklinga- og kjötkraftinum. Bætið svo saman við Cayenne piparnum, chilipiparnum og fersku tómötunum. Steikið kjúklinginn á sér pönnu með smá salti og pipar, best er að setja kjúklinginn saman við þegar súpan er alveg að verða tilbúin. Smakkið súpuna og bætið við pipar, salti eða Cayenne pipar eftir smekk. Ef ykkur finnst súpan of bragðlítil geti þið bætt við kryddum t.d. Cayenne pipar hann gerir súpuna sterkari, ef ykkur finnst hún vera orðin of sterk þá bæti þið bara aðeins meira af rjóma saman við.

 

 

Verði ykkur að góðu!

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

https://www.facebook.com/pages/Freistingar-Thelmu/171572929714300

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!