Thelma Þorbergsdóttir
Jólabakstur fjölskyldunnar
04. desember 2014

Jólabakstur fjölskyldunnar

 

Ég er varla að trúa því að nóvember sé að verða búinn og jólin í næsta mánuði. Desember er að sjálfsögðu minn uppáhalds mánuður þá bæði út af því að ég er mikið jólabarn og því að ég á afmæli í desember. En nú er jólafílingurinn að komast í landann og eitt af því sem er algjör nauðsyn til að koma sér í jólaskapið er jólabaksturinn! Flestar fjölskyldur eiga sínar uppáhalds uppskriftir af smákökum og jólakonfekti sem það bakar hvert einasta ár. Margar fjölskyldur eru með ýmsar hefðir varðandi jólabaksturinn. Mín fjölskylda hefur gert það að hefð að hittast öll saman og gera jólakonfekt sem oft ratar í jólapakkann hjá nokkrum heppnum fjölskyldumeðlimum. En það er líka gaman að gera eitthvað nýtt hver jól og prófa nýjar uppskriftir af smákökum. Smákökur geta líka ratað í jólapakkann og ég veit ekkert betra en að fá góða bók og nokkrar smákökur með til að maula á við lesturinn.

 

Hérna ætla ég að deila með ykkur tveimur nýjum smákökuuppskriftum sem ég gerði um daginn. Reyndar er önnur uppskriftin frá Mr. Handsome sem er allur að koma til hvað varðar hugmyndir að nýjum uppskriftum! Læt svo fylgja nokkrar smákökur sem okkur fjölskyldunni finnst mjög svo góðar og passa vel við jólin.

 

Þessi skeið er nauðsyn á hvert heimili. Cookie scoop! Þú gerir smákökur á núll einni, inn í ofn og búmm allt tilbúið!

 

 

Krunsí kanilkökur með pekahnetum og súkkulaði

 

u.þ.b 40 stk.

Innihald

225 g smjör við stofuhita

200 g dökkur púðursykur

100 g sykur

2 egg

1 ½  tsk vanilludropar

150 g Kornax hveiti

1 tsk matarsódi

4 tsk kanill

½ tsk múskat

½ tsk maldon salt

240 g Hafrar

150 g pekanhnetur, grófsaxaðar

150 g Hvítir súkkulaðidropar frá Nóa siríus

200 g dökkt súkkulaði frá Nóa siríus

 

Toppur

100 g dökkt súkkulaði frá Nóa siríus

50 g pekanhnetur, saxaðar smátt

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180° C og setjið smjörpappír á tvær bökunarplötur. Hrærið smjör, púðursykur og sykur vel saman. Skafið hliðarnar á skálinni og bætið eggi saman við ásamt vanilludropum. Setjið hveiti, matarsóda, kanil, múskat og salt saman í skál og hrærið. Blandið hveitiblöndunni saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Blandið höfrum saman við og hrærið léttilega. Grófsaxið dökkt súkkulaði og pekanhnetur og blandið saman við ásamt hvíta súkkulaðinu og hrærið varlega þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið u.þ.b 1 msk eða 25 g í hverja köku og myndið kúlu og raðið þeim með góðu millibili á bökunarplöturnar. Bakið í 8-10 mínútur. Kökurnar eru mjög linar þegar þær koma út úr ofninum en þær jafna sig þegar þær kólna. Kælið kökurnar í 10 mínútur áður en þið setjið toppinn ofan á.

 

Toppur

Bræðið dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði og hrærið stanslaust þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Slettið súkkulaðinu óreglulega yfir hverja kökur fyrir sig. Saxið pekanhneturnar smátt niður og setjið ofan á hverja köku fyrir sig.

 

Smákökur frá Mr. Handsome!

Hnetu Nizzaan súkkulaðikökur með salthnetum

 

U.þ.b. 20 kökur

Innihald

120 g smjör

75 g Hnetu Nizza súkkulaðismjör

100 g ljós púðursykur

50 g sykur

1 egg

2 tsk vanilludropar

220 kornax hveiti

1 tsk matarsódi

½ tsk maldon salt

100 g Hvítir súkkulaðidropar frá Nóa siríus

100 g dökkt súkkulaði frá Nóa siríus, grófsaxað

Toppur

 100 g dökkt súkkulaði frá Nóa siríus

50 g salthnetur, grófsaxaðar

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180°c og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Setjið smjör, Nizzan súkkulaðismjör, púðursykur, sykur, egg og vanilludropa saman í skál og hrærið þar til allt hefur náð að blandast vel saman, í rúmar 5 mínútur. Skafið hliðarnar á skálinni. Blandið saman hveiti, matarsóda og salti saman í skál og blandið saman við deigið. Grófsaxið dökka súkkulaðið og blandið því sama við ásamt hvítu súkkulaðidropunum og hrærið þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Setjið u.þ.b. 1 msk af deigi í hverja köku og myndið kúlu úr því, raðið þeim með jöfnu millibili á bökunarplötuna. Setjið plastfilmu yfir kökurnar og setjið þær inn í ísskáp og kælið í 1 klst. Bakið kökurnar í 8-10 mínútur. Kökurnar eru linar þegar þær eru teknar út úr ofninum en jafna sig þegar þær kólna. Kælið kökurnar aðeins áður en þið setjið toppinn ofan á.

Toppur

Bræðið dökka súkkulaðið yfir vatnsbaði og hrærið þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Slettið súkkulaðinu óreglulega yfir hverja köku. Grófsaxið salthneturnar og setjið ofan á hverja köku fyrir sig.

 

Karamellyfylltar smákökur

Þessar kökur eru algjörlega himneskar. Þær eru fylltar með Rolobitum að innan sem bráðna í munni!

http://www.gottimatinn.is/uppskriftir/jol/karamellufylltar-smakokur/321

 

Súkkulaðimarengstoppar með lakkrískurli

Þessar kökur geri ég hver jól og eru í uppahaldi hjá öllum meðlimum fjölskyldunnar.

http://www.gottimatinn.is/uppskriftir/jol/sukkuladimarengstoppar-med-lakkriskurli-/389

Hafraklattasamlokur með mjúku kremi

Þessar kökur eru í einstaklega miklu uppáhaldi á tveimur litlum meðlimum fjölskyldunnar. Stundum er nú kakan bara tekin í sundur og kremið sleikt af og kökunum skilað, en svona oftast eru þær étnar alveg!

http://www.gottimatinn.is/uppskriftir/jol/hafraklattasamlokur/390

 

 

Í desember ætla ég svo að deila með ykkur mínum uppáhalds eftirréttum fyrir jólin og nýrri uppskrift af jólaís!

Þangað til næst og gleðilegan jólabakstur!!

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!