Thelma Þorbergsdóttir
Ítölsk kaka með rjómaostakremi og fljótlegir eftirréttir
12. apríl 2017

Ítölsk kaka með rjómaostakremi og fljótlegir eftirréttir

Á hátíðisdögum skipta eftirréttirnir alltaf jafn miklu máli og máltíðin að mínu mati. Eftirrétturinn er svona rúsínan í pylsuendanum eftir að maður hefur gúffað í sig góðri steik eða veislumat. Í ár ákvað ég að gera tilraun að ítalskri köku með rjómaostakremi, ástæðan fyrir því er sú að það er mikið um kókós í þessari köku sem minnir mig einstaklega á páskana eitthvað. Þessi kaka er mjúk, bragðmikil og góð með mjúku rjómaostakremi með möndlu og vanillubragði sem bráðnar í munni. Pekanhneturnar eru svo stökkar á móti mjúka kreminu, sem sagt fullkomin blanda. Einnig ætla ég að deila með ykkur tveimur eftirréttum fyrir þá sem hafa mjög lítinn tíma en vilja bera fram eitthvað glæsilegt og gott á borð fyrir fjölskyldu og vini, án þess að nokkur viti af því hversu lítinn tíma þetta tók þig. Svo er um að gera að skreyta eftirréttina og kökurnar með afgangs páskaeggjum.

Annars bara gleðilega páska og njótið!

Ítölsk kaka með rjómaostakremi

Innihald

230 g smjör við stofuhita

230 g sykur

100 g púðursykur

2 tsk. vanilludropar

½ tsk. möndludropar

5 egg

250 g hveiti

1 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

2 dl súrmjólk

200 g kókós

100 g pekanhnetur

 

Rjómaostakrem

230 g rjómaostur

230 g smjör

900 g flórsykur

2 tsk. vanilludropar

½ tsk. möndludropar

Toppur

Ristaður kókós

Pekanhnetur

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og setjið smjörpappír í botninn á tveimur ca. 22 cm hringlaga kökuformum. Hrærið smjör þar til það verður létt og ljóst, bætið sykri og púðursykri saman við ásamt vanilla- og möndludropum. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið eggjum saman við, einu í senn og hrærið vel á milli. Gott er að skafa innan úr skálinni með sleif svo allt blandist sem best saman. Setjið hveiti, matarsóda og lyftiduft saman í skál og blandið því saman við deigið ásamt súrmjólkinni. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Grófsaxið pekanhneturnar og blandið þeim saman við ásamt kókósnum og hrærið með sleif. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna og bakið í 25 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Kælið kökuna alveg áður en þið setjið kremið á hana.

Rjómaostakrem

Hrærið rjómaost og smjör saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið flórsykri saman við, smátt og smátt í einu og hrærið vel á milli. Gott er að skafa innan úr skálinni af og til svo allt blandist vel saman. Setjið því næst vanillu- og möndludropa saman við og hrærið þar til kremið verður slétt og fínt. Gott er að hræra kremið vel. Setjið kökubotnana á disk og setjið rjómaostakrem á milli ásamt því að setja krem yfir alla kökuna. Skreytið af vild með kreminu. Þrýstið ristuðum kókós upp að hliðum kökunnar og skreytið með pekanhnetum. Ég notaði sprautustút 1M frá wilton til þess að skreyta toppinn á kökunni. Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram. Það er alltaf gott að taka kökur út úr kæli 15-20 mínútum áður en á að gæða sér á þeim.

 

 

Tilvalinn eftirréttur fyrir þá sem vilja bjóða fram eitthvað ómótstæðilega gott en hafa lítinn tíma til undirbúnings.

Marengsbomba í skál

Fyrir um 8 manns

Innihald

1 marengsbotn

1 lítri rjóma

1 poki Nóa Kropp

4 stk. kókósbollur

500 g jarðarber

250 g bláber

Súkkulaðisíróp

The

Aðferð

Með þennan eftirrétt er snilldin sú að í rauninni skiptir engu máli hvernig þú raðar þessu í skálina, svo það er um að gera að láta sköpunargáfuna njóta sín. Það sem skiptir máli er að bleyta marengsinn í rjóma.

Ég setti Nóa Kropp neðst í skálina, rjóma ofan á og braut helminginn af yfir rjómann og setti svo rjóma yfir marengsinn. Því næst skar ég jarðarberin í sneiðar og raðaði þeim meðfram hliðum skálarinnar, brytjaði nokkur niður og setti í miðjuna ásamt því að setja súkkulaðisíróp yfir jarðarberin. Skar niður kókósbollurnar í sneiðar og raðaði ofan á. Setti því næst rjóma og marengs yfir það ásamt bláberjum. Endaði á því að setja rjóma ofan á og skreytti með afgangs rjómanum ásamt jarðarberjum og bláberjum. Sprautaði síðan súkkulaðisírópi yfir. Gott er að setja marengsbombuna inn í frysti í rúmar 30 mínútur. Fyrir ykkur sem viljið ekki frysta rjómann aðeins þarf að geyma réttinn í kæli þar til hann er borinn fram.

Það er enginn eftirréttur sem tekur minni tíma að undirbúa en þennan!

Crème brûlée með pekanhnetum og karamellu

Fyrir 4-6

Innihald

340 g Ísey skyr Crème brûlée 

2 msk. púðursykur

400 ml rjómi

50 g pekanhnetur

Toppur

Rjómi

Pekanhentur

Karamella (íssósa)

salt

 

Aðferð

Þeytið rjóma þar til hann verður stífur og stendur. Blandið helmingnum af rjómanum saman við skyrið, ásamt púðursykri og hrærið vel saman. Grófsaxið pekanhentur og blandið saman við skyrblönduna. Sprautið skyrblöndunni fallega í glös eða setjið ofan í með skeið. Skreytið með restinni af rjómanum, grófsöxuðum pekanhnetum og karamellusósu. Gott er að strá smá sjávarsalti yfir karamellusósuna. Geymist í kæli þar til borið er fram.

 

Njótið

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!