Thelma Þorbergsdóttir
Hrekkjavaka - Trick or Treat -
25. október 2012

Hrekkjavaka - Trick or Treat -


Þann 31. október
er Halloween Bandaríkjamanna haldin hátíðleg með öllu tilheyrandi. Hrekkjavaka er hátíðisdagur ættaður úr keltneskri trú, en upphaflega hét dagurinn Samhain, hátíð hinna dauðu. Mörk heima hinna lifandi og hinna dauðu voru óljós þennan dag og draugar og aðrar óvættir voru taldar sveima um. Dúrítar dulbjuggu sig til þess að þekkjast ekki og buðu óvættunum í mat og drykk til að friðþægja þær. Hefð myndaðist fyrir því að á Samhain/Halloween væri brennandi kertum komið fyrir í útskornum næpum og á Írlandi og í Skotlandi tíðkaðist að kveikja í bálköstum. Einnig fóru bæði unglingar og fullorðnir á milli húsa klæddir búningum og með grímur, eins og nú tíðkast á öskudegi Íslendinga og gerðu öðrum gjarnan einhvern grikk í leiðinni. Sagt er að Hrekkjavakan sé upprunalega frá Írum og Skotum en þegar þeir fluttu búferlum til Ameríku á 19. öldinni fluttist Hrekkjavökuhátíðin með þeim. En í Bandaríkjunum uxu aftur á móti grasker sem voru mun stærri en næpurnar og mun auðveldra að skera út, svo graskerin tóku við af næpunum og hafa þau nú verið tákn Hrekkjavökunnar í Bandaríkjunum.

                         

Já þetta var svona smá fræðsla fyrir ykkur sem viljið vita sögu þessa dags. Norðurlöndin eru farin að taka þátt í þessum degi í síauknum mæli þó svo það sé kannski ekki með alveg sama hætti og þau gera þetta í Bandaríkjunum. Persónulega finnst mér Hrekkjavaka mun skemmtilegri hefð heldur en öskudagurinn og ég get ímyndað mér að öskudagurinn sé meiri svona kvöl og pína fyrir foreldra heldur en eitthvað skemmtilegt, skutla börnunum út um allan bæ, stundum koma þau að lokuðum dyrum þar sem er miði á hurðum, ,,allt nammið búið” hversu glatað er það?

Þegar ég var 18 ára gömul var ég aupair í Bandaríkjunum og var ég svo heppin að fá að upplifa Hrekkjavökuna þar í tvígang, þetta var eitthvað sem öll fjölskyldan tók þátt í saman og allt hverfið, þessi upplifun var alveg mögnuð. Það var svo gaman að klæða sig upp með allri fjölskyldunni og rölta um hverfið, banka upp hjá nágrönnunum og hitta aðra. Ég hafði sérstaklega gaman af þeim sem höfðu þvílíkan metnað í að skreyta garðana sína og ég er ekki frá því að það varð til samkeppni milli fólks hvað það varðar.


Ég mæli með því að þið brjótið aðeins upp októbermánuð með því að baka nokkrar hrollvekjandi bollakökur með fjölskyldunni, ég veit allavega að krakkarnir eiga eftir að vera hæst ánægðir með það ;)

 

Í tilefni Hrekkjavökunnar bjó ég til þessar hrollvekjandi bollakökur sem börnunum mínum fannst alveg æðislegar!

 

Ætla að deila með ykkur unaðslegri uppskrift sem ég prófaði síðustu helgi, ég lofa ykkur því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

                                      Síróp- og súkkulaðibita bollakökur með Nutella kremi

Um það bil 20 stk. litlar bollakökur

330 g hveiti
1 tsk lyftiduft
¼ tsk maldon salt
115 g smjör við stofuhita
390 g sykur
2 egg
3 tsk. vanilludropar
3 dl mjólk
1 dl síróp
100 til 150 g súkkulaði (fer eftir því hversu mikið þú vilt) brytjað niður.

Krem
75 g smjör við stofuhita
125 g Nutella
smá salt
1 tsk vanilludropar
225 g flórsykur
3 msk rjómi

 1. Hitaðu ofninn í 180 gráður og raðaðu upp bollakökuformum.
 2. Blandaðu saman hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og settu til hliðar.
 3. Hrærðu smjörið og sykurinn vel saman.
 4. Bættu eggjum saman við, einu í einu og hrærðu vel á milli.
 5. Blandaðu vanilludropunum saman við mjólkina.
 6. Bættu saman við hveitiblöndunni og mjólkurblöndunni, smá og smá í einu og hrærðu vel á milli.
 7. Bættu saman við sírópinu og hrærðu á lágum hraða þangað til það er rétt svo blandað saman við deigið. 
 8. Bættu saman við súkkulaðibitunum og hrærðu með sleif.
 9. Settu deigið í formin og reyndu að fylla þau ekki meira en 2/3, bakið í u.þ.b. 20 mín. Gott er að fylgjast vel með þeim eftir rúmar 15 mín. þar sem þú vilt alls ekki baka þær of lengi. Láttu kökurnar kólna alveg áður en þú setur kremið á.

Krem

 1. Hrærðu smjörið og Nutella vel saman, eða í u.þ.b. 3-4 mín.
 2. Bættu flórsykrinum saman við smá og smá í einu.
 3. Blandaðu saman við salti, vanilludropum og rjóma, bættu meiri rjóma við kremið ef þér finnst það of þykkt. Hrærðu kremið vel í rúmar 3 mín. eða þangað til það er orðið fallegt og mjúkt.

 

Þegar ég er að gera krem á kökur og bollakökur sem þarf að lita eins og t.d. á myndinni hér að ofan af hrekkjavöku bollakökunum finnst mér best að nota þessa uppskrift af kremi, það er auðvelt að lita það og það passar með næstum hvaða kökuuppskrift sem er.

Vanillusmjörkrem:  http://www.gottimatinn.is/uppskriftir//kokur/sukkuladikaka-med-vanillusmjorkremi/293

Verði ykkur að góðu!

Thelma

www.facebook.com/freistingarthelmu

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!