Thelma Þorbergsdóttir
Hátíðar eftirréttir
19. desember 2012

Hátíðar eftirréttir

Það er svo margt sem mig langar að koma að í þessu bloggi að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja...kannski byrja á því að segja frá hversu svekkt ég er að það sé ekki kominn snjór, svona í þeirri von um að eitthvað fari að gerast í þeim efnum. Ég get bara ekki hugsað mér rauð jól!

Mig langar einnig að segja ykkur frá því að milli þess sem ég baka, vinn og sé um annasamt heimili gaf ég út bók í nóvember ásamt vinkonu minni Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur. Bókin heitir Gleðigjafar og innheldur reynslusögur foreldra barna sem eru sérstök á einhvern hátt eða hafa þurft að glíma við erfið veikindi eða sjúkdóma. Fyrir ykkur sem ekki vitið þá á ég prins með downs heilkenni, hann Kristófer karl gleðigjafa með meiru og er hann ástæðan fyrir því að þessi bók varð að veruleika. Þetta er bók sem ALLIR ættu að lesa og hafa gott af og ég er sannfærð um það að eftir lesturinn munt þú horfa á lífið öðrum augum, svo ég skora á þig að næla þér í eintak og lesa yfir jólin. Kristófer er einnig forsíðumódel bókarinnar og er alsæll með sig!

 

Kristófer Karl

Svo er ég hálfnuð með jólagjafainnkaupin sem er léttir en ég varð mjög stressuð þegar ég áttaði mig á því hversu stutt er til jóla, á nefnilega eftir að finna gjöf handa Mr.handsome! og það er ekki eins auðvelt og að segja það, því hann er mjög hár í loftinu og er í skóstærð sem ekki er til á landinu !

En það sem ég er mikið búin að hugsa út í er hvaða eftirrétt ég ætla að bera fram á aðfangadags- og gamlárskvöld því það þarf að vera eitthvað einstakt!  Ég ætla að deila með ykkur nokkrum hugmyndum fyrir ykkur sem eruð ekki búin að taka ákvörðun um það nú þegar. Þetta eru eftirréttir sem ALLIR geta gert, já og meira segja þið strákar!

 

Eftirréttir

                                             Súkkulaði og pecanhnetu ísterta með karamellu

 

Innihald
6 egg
6 msk. sykur
100 g bráðið Mars með 5 msk. rjóma
7 dl. rjómi
2 tsk. vanilludropar
150 g suðusúkkulaði dökkt/ljóst eftir smekk skorið niður í litla bita
100 g H- Berg pecanhnetur skornar mjög smátt
100 g H-Berg heslihnetur hakkaðar
60 g karamellusíróp og aðeins meira til skrauts

Þeytið eggjarauðurnar saman við sykurinn þangað til blandan er orðin ljós og létt, hellið svo bráðnuðu Marsi saman við. Þeytið síðan rjómann og blandið honum varlega saman við blönduna, ásamt súkkulaðinu, pecanhnetunum og vanilludropunum. Stífþeytið því næst eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við allt saman. Settu hakkaðar heslihnetur í botninn á meðalstóru kökuformi, heltu svo blöndunni yfir, heltu karamellusírópinu yfir og blandaðu því saman við með því að snúa hníf í nokkrar hringi í gegnum ísinn, passaðu þig að fara ekki of nálægt botninum til að fara ekki í hneturnar í botninum. Frystu í lágmark 5 klst. Þegar ísinn er orðinn vel frosinn er hann tekinn úr kökuforminu og settur á disk, raðaðu pecanhnetunum ofan á og skreyttu með karamellusírópi.

 

 Jólakaka

 

Innihald
2 botnar af þinni uppáhalds súkkulaðiköku skornir í tvennt svo úr því verði 4 botnar.

Oreo Krem sett á milli botnanna

Innihald
450 g smjör við stofuhita
50 ml. rjómi
2 tsk. vanilludropar
1 kg. flórsykur
15 stk Oreo-kökur muldar vel niður, gott er að nota matvinnsluvél

því næst er kakan skreytt með vanillusmjörkremi

Innihald
250 g. smjör við stofuhita
500 g. Flórsykur
70 ml. rjómi
4 tsk. vanilludropar

Þegar þið hrærið saman krem er best að hræra smjörið fyrst og bæta svo smátt og smátt saman við flórsykrinum og hræra vel á milli svo allt fari ekki út um allt. Síðan er rjómanum blandað saman við og svo vanilludropum. Ef deigið er of þykkt bætið þá bara aðeins meiri rjóma saman við. Svo er hægt að skreyta með sprinkles í öllum litum.

 

Fyrir ykkur sem elskið bollakökur jafn mikið og ég  þá er þetta málið fyrir gamlárskvöld!

 

Bollakökur í kampavínsglasi

Aðferð
Í rauninni er hægt að gera þetta á marga vegu. Mæli með að þið bakið ykkar uppáhalds bollakökuuppskrift í litlum formum. Þeytið rjóma og notið t.d. jarðarber og bræðið súkkulaði með smá smjöri og sírópi. Setjið eina bollaköku í botninn, smá rjóma, ber og svo súkkulaði yfir og endurtakið þetta þangað til glasið er orðið fullt. Einnig er gott að nota t.d. Nóakropp eða Rólobita fyrir þá sem eru ekki fyrir ber eða bara það sem hugurinn girnist!

Svo er gaman að segja frá því að smákökuuppskriftin sem ég deildi með ykkur á síðasta bloggi, súkkulaði og pecanhnetu smákökur með karamellu hlaut 2. sætið í smákökukeppni DV núna um daginn hægt er að nálgast uppskriftina hér ásamt fleiri gómsætum smákökuuppskriftum  http://www.gottimatinn.is/uppskriftir/jol/sukkuladibita-og-pekanhnetu-smakokur-med-karamellu/323

 

Munið svo bara að það sem skiptir mestu máli um jólin er að vera í faðmi fjölskyldunnar og njóta þess að vera saman. Það ætla ég að gera og ég ætla njóta þessa að nota tíma með börnunum mínum. Ég held samt að ég sé orðin spenntari fyrir jólunum en þau!

 

Gleðilega Hátíð                       

Kveðja Thelma            

www.facebook.com/freistingarthelmu

 

 

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!