Thelma Þorbergsdóttir
Grískt pastasalat og kjúklingasalat með beikoni
26. júní 2017

Grískt pastasalat og kjúklingasalat með beikoni

Ég ætla að deila með ykkur ferskum og léttum salötum sem eru tilvalin í sumarbrunsinn á pallinum í sumar. Þau reyndar slá líka í gegn í öllum barnaafmælum, saumaklúbbum og öðrum veislum, svo hægt er að bera þau á borð allan ársins hring. Þessi salöt taka stuttan tíma að gera og má gera þau deginum áður en þau eru borin fram.

Grískt pastasalat

Þetta salat er einstaklega létt og ferskt með grænmeti og grískri jógúrt. Hægt er að bera það fram eitt og sér, með brauði, eða sem meðlæti með grillmatnum.

Innihald

250 g Tortellini pasta með osti

250 g pastaskrúfur

1 lítil dós svartar ólífur

½ gúrka

1 box konfekt tómatar

½ rauðlaukur

1 krukka MS fetaostur

1 dós MS grísk jógúrt

40 ml ólífuolía

2 msk. safi úr sítrónu

1-2 msk. ferskt dill

1 hvítlauksgeiri

Salt og pipar

Aðferð

Sjóðið pastað í tveimur pottum eftir leiðbeiningum á pakkanum. Gott er að bæta smá ólífuolíu og salti saman við vatnið. Þegar pastað er tilbúið, setjið það í skál og látið renna á það kalt vatn þar til pastað hefur náð að kólna alveg. Skerið ólífurnar til helminga ásamt tómötunum. Skerið gúrkuna gróflega niður og blandið öllu saman við pastað. Skerið rauðlaukinn niður og setjið saman við. Hellið olíunni af festaostinum og blandið honum svo saman við. Setjið gríska jógúrt í skál ásamt ólífuolíu, sítrónusafa, hvítlauk og fersku dilli og hrærið vel saman. Blandið því saman við pastað og hrærið saman við þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Kryddið með salti og pipar. Geymið í kæli þar til salatið er borið fram.

  

 

Kjúklingasalat með beikoni

Þetta salat er einstaklega gott á ristað brauð eða baguette.

Innihald

3 kjúklingabringur

2 bréf af beikoni

1 dós sýrður rjómi 10% frá Gott í matinn

5 msk. majones

1-2 msk. sætt dijon sinnep

Aromat

Graslaukur

Aðferð

Grillið kjúklingabringurnar þar til kjúklingurinn er orðinn full eldaður. Skerið þær niður í smáa bita. Einnig er gott að klippa kjúklinginn niður. Setjið smjörpappír á bökunarplötu og raðið beikoninu á plötuna, stillið ofninn á 200°C og eldið þar til beikonið er orðið vel stökkt. Klippið beikonið eða brjótið það niður í smáa bita og blandið saman við kjúklinginn. Blandið saman sýrðum rjóma, majonesi og sinnepi og hrærið vel saman. Ef ykkur finnst salatið þurfa að vera blautara í sér er gott að bæta við majonesi. Kryddið með aromati, gott er að smakka salatið til. Skerið niður graslauk og setjið ofan á salatið. Geymið í kæli þar til salatið er borið fram.

 

Verði ykkur að góðu

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Fylgist endilega með mér á Facebook: https://www.facebook.com/freistingar/?ref=bookmarks

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!