Thelma Þorbergsdóttir
Gleðilega páska!
27. mars 2013

Gleðilega páska!

 

 

Það er eitthvað við páskana sem mér finnst svo yndislegt og spennandi, kannski er það að veturinn er svona næstum því búinn og það er alveg að fara koma sumar, farið að birta til úti og maður sér sól á lofti! Tími til kominn, og kannski er það nú líka bara það að maður fer í smá frí! Svo má borða eins mikið súkkulaði og maður vill á páskunum ef þið spyrjið mig, hver hatar það?? Ég myndi helst vilja vefja lakkrísreimum utan um heilt eða nokkur páskaegg og borða það þannig. Svo las ég líka einhverstaðar að súkkulaði væri holt og ég ætla taka þá staðreynd með mér inn í páskana.

Eins og sjá má finnst Hildi Emelíu súkkulaði mjög gott og er þetta uppáhaldið við það að fá að hjálpa mömmu að baka!

 

 

Þegar ég fór að velta því fyrir mér hvaða uppskrift ég ætti að deila með ykkur fór ég að hugsa um það sem minnir mig á páskana. Það kom strax upp í huga minn súkkulaði, en ekki hvað? Ég hugsaði um gulrótarköku og piparmyntu eitthvað. Ég veit ekki af hverju piparmynta minnir mig á páskana, kannski af því  mér finnst eitthvað svo fínt við piparmyntusúkkulaði, það er svona eitthvað sem er ekki alltaf til og fullorðna fólkinu finnst svo gott. En þar sem ég átti slatta af Pipp súkkulaði ákvað ég að gera nokkrar tilraunir og út komu þessar dýrindis bollakökur. Mr. Handsome sagði að þær væru mjög mjúkar og léttar, með góðu súkkulaðibragði og mildu myntubragði þar sem Pippið sem ég setti ofan á hverja köku toppaði þær alveg, svona stökkt á móti.

 

En hér kemur uppskriftin, njótið!

 

Myntu Bollakökur

Undirbúningstími 30 mín. bökunartími 20 mín. Rúmlega 24 stk. bollakökur

Innihald

115 g. smjör

225 g. sykur

2 egg

170 g. hveiti

2 msk. kakó

2 tsk. lyftiduft

¼ tsk maldon salt

1.5 dl. mjólk

3 tsk. vanilludropar

100 g. Pipp piparmyntu + 2 msk. rjómi

Aðferð

 1. Stillið ofninn í 180 gráður og raðið upp 24 stk. bollakökuformum.
 2. Hrærið smjörið þangað til það verður létt og bætið síðan sykrinum saman við, hrærið vel saman.
 3. Bætið einu og einu eggi saman við og hrærið vel á milli og svo vanilludropum.
 4. Blandið saman þurrefnunum og blandið varlega saman við, setjið til skiptis þurrefnin og mjólkina saman við.
 5. Bræðið Pipp með 2 msk. af rjóma í pott á lágum hita. Blandið því svo saman við og hrærið  léttilega. Passið að hræra ekki of mikið svo kakan verði ekki of seig.
 6. Setjið deigið í formin og passið að fylla þau ekki  meira en 2/3. Bakið í 20 mín. og kælið alveg áður en þið setjið kremið ofan á.

 

Piparmyntukrem

Innihald

250 g. smjör

500 g. flórsykur

1 tsk. vanilludropar

4 msk. rjómi

200 gr. piparmyntu Pipp + 4 msk. rjómi

(1 tsk. piparmyntudropar fyrir þá sem vilja sterkt bragð)

 

Aðferð

 1. Hrærið smjörið vel þangað til það er orðið ljóst og létt. Bætið saman flórsykrinum smá og smá saman við í einu og hrærið vel á milli.
 2. Bætið rjómanum og vanilludropum saman við.
 3. Bræðið pippið og rjóman saman í potti á lágum hita og blandið saman við kremið, hrærið vel þangað til allt hefur blandast vel saman.
 4. Setjið kremið á kökurnar og skreytið  með einum Pipp mola ofan á. Einnig er gott að geyma örlítið af bræddu Pippsúkkulaði og setja ofan á hverja köku.
 5. Borðið!

 

 

Ákvað að gera nokkrar páskakökur, en kremið ofan á þessar kökur er sama kremið en aðeins með piparmyntudropum en ekki súkkulaðinu. Liturinn er myntugrænn og kremið er sprautað á með laufblaðastút frá Wilton. Kanínurnar er hægt að prenta út hér ásamt körfu til að setja utan um hverja bollaköku.

Free printables er hægt að nálgast hér

 

www.facebook.com/freistingarthelmu

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!