Thelma Þorbergsdóttir
Freistingar Thelmu
20. september 2012

Freistingar Thelmu

Fyrir rúmum 3.5 ári eignaðist ég frumburð minn hann Kristófer Karl, snilling með meiru og má eiginlega segja það að þá hafi áhugi minn fyrir bakstri kviknað að alvöru. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bakstri og allri matargerð yfir höfuð og finnst fátt skemmtilegra en að halda flottar veislur með öllu tilheyrandi. Þegar maður eignast börn þá kemur að barnaafmælum og fyrir fyrsta afmælið á maður til að missa sig svolítið, allavega var það þannig hjá mér og ég held ég hafi googlað hugmyndir af afmælisþemu og kökuuppskriftum í nokkrar vikur, alla daga vikunnar áður en ég ákvað mig hvað það var sem ég vildi, þrátt fyrir að hann hafði ekkert vit á því hvað var í gangi... og hef ég bara farið versnandi í þeim efnum! Því 16 mánuðum síðar eignaðist ég litla prinsessu, hana Hildi Emelíu... og já það er bara eitthvað við bleikar glitrandi kökur sem lætur mann missa vitið! Svo er um að gera að fá karlinn með sér í þetta brjálæði... en ég skal kenna ykkur leyndarmálið við það hvernig ég fékk Mr. Handsome til þess að aðstoða mig í eldhúsinu.

Gullmolarnir mínir

Í sumar átti dóttir mín Hildur 2 ára afmæli. Mér finnst alltaf mjög mikilvægt þegar maður er að hugsa um afmælisþema fyrir börnin að það sé eitthvað sem þau þekkja og hafa gaman af. Ég gat þó ekki ákveðið mig hvort ÉG vildi hafa Dóru þema eða Mínu mús... svo ég lét auðvitað afmælisbarnið velja! Mína mús varð fyrir valinu. Mig langaði til þess að gera afmælið persónulegt og skemmtilegt og fór því út í smá föndur!

Mínu mús kaka popp poki og plastflaska Mikka mús bollakökustandur

 

Ég gerði  Mínu mús kökuna þannig að ég notaði eitt stórt hringlaga form fyrir andlitið og 2 minni hringlaga form fyrir eyrun. Ég skar aðeins af litlu hringjunum svo þeir myndu falla betur að andlitinu. Slaufan á Mínu mús eru svo tvær hjartalaga bollakökur og augnhárin úr lakkrísreimum, mjög einfalt og fljótlegt! Ég sprautaði kreminu á kökuna með litlum stjörnustút.

Popp pokana keypti ég í Hafnarfirði hjá Pappír hf en þar er hægt að fá poka í allskyns lituðum pokum. Plastflöskurnar fékk ég hjá Vífilfell og rörin í Partýbúðinni. Til þess að gera þetta persónulegt fann ég síðu þar sem ég gat halað niður fríu Mínu mús þema til að nota í afmælið (sjá slóð hér að neðan) svo skrifaði ég nafnið hennar á það og aldur og þetta sló algjörlega í gegn. Mikka mús bollakökustandinn fékk ég á eBay. Þetta er að sjálfsögðu smá föndur en vel þess virði og gerir afmælið eftirminnilegt.

Hérna getið þið náð í Mínu mús afmælisþema frítt!

http://www.sherykdesigns-blog.com/2011/04/free-svg-and-pintable-mini-birthday-kit.html

Og síðast en ekki síst, þá langar mig að segja ykkur frá skemmtilegu símtali sem ég fékk í sumar...og deila með ykkur uppskrift af köku sem ég gerði í framhaldinu af því!

Ring, ring...

Ég: Halló

Jennifer: Hi, it´s Jennifer Connelly, how are you?

Ég: Hi, I´m fine thank you (OMG)

Jennifer: I heard you are the best baker in whole Iceland.

Ég: Really?? (hlátur)

Jennifer: (hlátur) Well I´m sure that you are better then I am! My son Stellan is turning 9 and I need a cake for his birthday...

Já! Jennifer hringdi í mig bara sí svona og bað mig um að baka eldfjallaköku handa syni sínum og ég var ekki lengi að segja já! Hún sagðist yfirleitt baka sjálf fyrir strákana og með því að fá köku frá mér myndu þeir loksins uppgötva hvað þeir hafa verið að missa af öll þessi ár, þar sem hún sagði að kökurnar sínar væru ekkert þær bestu í bænum. Stellan vildi fá „yellow cake“ sem er bara venjulegur svampbotn, rjómi, jarðaber og súkkulaði.  Hún sagði líka að hann elskaði allt með Oreo svo hann fékk því nokkrar Oreo cupcakes sem hann var hæðst ánægður með. Uppskriftin af Oreo bollakökunum má finna hér á síðunni www.gottimatinn.is

Ég og Mr. Handsome kíktum svo til þeirra með kökurnar á sunnudagsmorgni þar sem vel var tekið á móti okkur. Það var svolítið mál að koma kökunni inn í ísskáp hjá þeim þar sem hún varð aðeins stærri en ég lagði upp með í fyrstu, en það tókst á endanum!

SMS

Stellan loved the cake. He squealed with happiness when he saw it. He took loads of photos of it and said it was delicious. Thank you so much- it was a huge success. And he had cupcake for breakfast yesterday! He couldn´t have been happier. - Jennifer

Já, það eru sko ekki allir sem geta sagst hafa bakað fyrir Hollowood stjörnu! Og ég bíð spennt eftir símtali fyrir næsta afmæli! Ha, ha, ha...

Úps. Gleymdi næstum því að segja ykkur hvernig ég fékk Mr. Handsome með mér í eldhúsið! Hann er aðal smakkarinn! Hann er maðurinn á bak við fullkomnun bragðsins og finnst sá titill ekki neitt smáræðis!

Stellan - Afmæliskaka 

Svampbotn

226 g smjör við stofuhita
375 g hveiti
1 msk. lyftiduft
½ tsk. salt
390 g sykur
4 egg
2 tsk. vanilludropar
270 ml. mjólk

Hitaðu ofninn í 180 gráður og settu í tvö meðalstór form. Blandaðu saman hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og settu til hliðar. Hrærðu saman smjör og sykur þar til blandan verður ljós og létt, bættu eggjunum saman við einu í einu og hrærðu vel á milli. Skafðu hliðarnar og blandaðu vel saman. Bættu vanilludropum saman við.

Fylling

½ lítri rjóma, þeyttur
4 kókosbollur
1 askja af jarðaberjum skorin smátt niður

Þeyttu rjómann og blandaðu saman kókosbollunum og jarðaberjunum saman, settu á milli botnanna.

Krem

60 g smjör við stofuhita
250 g rjómaostur við stofuhita
500 g flórsykur
1 – 2 tsk. vanilludropar
200 g bráðið súkkulaði
1 msk. dökkt kakó

Hrærðu smjörið og rjómaostinn saman þangað til blandan verður mjúk. Bættu flórsykrinum saman við, smá og smá í einu og hrærðu vel á milli. Bættu vanilludropum saman við. Blandaðu saman við brædda súkkulaðinu og kakóinu og hrærðu vel. Smurðu kreminu á kökuna. Skreytt að vild.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!