Thelma Þorbergsdóttir
Fljótlegir veisluréttir
26. janúar 2018

Fljótlegir veisluréttir

Ég elska uppskriftir sem taka stuttan tíma því jú tíminn er svo dýrmætur og oft lendir maður í því að eiga ekki nóg af honum. Þessar uppskriftir eru snilld í veisluna, vinnustaðakaffið, saumaklúbbinn eða í hvaða tilefni sem er og eiga það báðar sameiginlegt að vera mjög fljótlegar. Það er hægt að gera báðar þessar uppskriftir tilbúnar fyrirfram og skella þeim svo inn í ofn rétt áður en það á að njóta þeirra, sem er mikill kostur. Spínathringurinn hefur algjörlega slegið í gegn hér hjá fjölskyldu og vinum. Hann er einstaklega góður og ég lofa ykkur því að þið verðið ekki svikin með fljótlegheit og bragð! Eplalengjan er svo einnig afskaplega góð með rjóma, ís, súkkulaði eða Nutella.

Þessi uppskrift er algjörlega himnesk, ómissandi í saumaklúbbinn  eða sumarpartýið með góðum drykk.

 

Grískur spínathringur

Fyrir um 8-10

Innihald

1 pakki tilbúið smjördeig

300 g spínat

100 g Mozzarella ostur

120 g Fetakubbur frá Gott í matinn

30 g svartar ólífur

40 g Ristaðar furuhnetur

120 g majones

1 hvítlauksgeiri

Salt og pipar

Eggjahvíta

Parmesan ostur

 

Aðferð

Afþýðið spínatið og kreistið allt vatn úr því. Setjið spínatið í skál ásamt, mozzarella osti, fetaosti, furuhnetum, majonesi og hvítlauk. Skerið ólífurnar gróflega niður og setjið saman við. Kryddið með salti og pipar og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skerið smjördeigið í tvennt eftir endilöngu, myndið 10 ferninga og skerið hvern ferning í tvennt svo úr verði tveir þríhyrningar. Setjið smjörpappír á bökunarplötu og raðið þríhyrningunum á hana þannig að breiði endinn snúi inn til að mynda hring. Látið endana leggjast ofan á hvorn annan til hálfs og myndið hring. Setjið spínatblönduna ofaná hringinn, leggið endana af þríhyrningunum yfir spínatblönduna og festið við innanverðan hringinn.  Hrærið eggjahvítu í skál og penslið yfir deigið og setjið ofaná rifinn parmesan ost. Bakið í 15-20 mínútur við 180 gráðu hita eða þar til deigið er orðið fallega gullinbrúnt.  Gott bæði heitt og kalt.

 

Eplakaka á núll-einni! Unaðslega góð með ís eða rjóma eða bæði.

 

Eplalengja með pekanhentum

Fyrir um 8-10

Innihald

1 pakki tilbúið smjördeig

30 g smjör

2 tsk. kanill

20 g sykur

300 g epli

2 msk. hveiti

1 msk. vanillusykur

100 g pekanhentur

 

Toppur

1 egghavhita

Kanilsykur

 

Aðferð

Skerið smjördeigið í tvennt eftir endilöngu svo úr því myndist tvær ílangar ræmur. Setjið smjör, kanil og sykur í pott yfir meðal háan hita þar til smjörið hefur bráðnað alveg. Flysjið eplin og skerið þau smátt niður og setjið þau saman við, hækkið hitann og látið eplin krauma í rúmlega 5 mínútur í pottinum, hrærið allan tímann svo blandan brenni ekki. Takið pottinn af hellunni og kælið í 5 mínútur. Bætið hveiti og vanillusykri saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Skerið pekanhentu gróflega niður og setjið saman við. Setjið eplablönduna ofan á aðra smjördeigsræmuna og dreifið úr henni jafnt og þétt. Setjið hina ræmuna ofan á og festið hliðarnar saman með gaffli. Penslið eggjahvítu yfir lengjuna og stráið kanilsykri yfir, gott er að skera aðeins ofan í deigið eins og sjá má á mynd. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið fallega gullinbrúnt. Best er að bera fram kökuna heita með ís eða rjóma.

 

Verði ykkur að góðu

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!