Thelma Þorbergsdóttir
Eplapæ og draugar
13. október 2014

Eplapæ og draugar

 

Það er ótrúlegt hvað tímanum líður! Ég trúi því varla að það séu 73 dagar til jóla! Hvert fer tíminn? Það er líka alltaf helgi?? Þegar ég var lítil var bara gamalt fólk sem talaði svona ,,það er alltaf helgi” ,,guð mánuðurinn var rétt að byrja og hann er að verða búinn” flýgur tíminn bara þegar maður eldist?? Mér er þó alveg sama þó svo tíminn líði hratt núna því ég er algjört jólabarn enda á ég afmæli í desember. Ég veit fátt skemmtilegra en að borða góðan mat, baka smákökur og gefa fólkinu sem mér þykir vænt um pakka. Já ég sagði pakka, ég held ég eldist aldrei upp úr því, ég er jafn spennt og börnin fyrir þessum degi og skammast mín ekkert fyrir það. En þá finnst mér tíminn þó líða aðeins og hratt því allt í einu situr maður í pappírsflóði og kvöldið búið!

 

Haustið er líka ein af mínum uppáhalds árstíðum, sérstaklega vegna þess að þá eru jólin þar næst á eftir. Veðrið síðustu daga er búið að vera yndislegt þrátt fyrir kulda en það er búið að vera svo bjart og fallegt veður að maður stekkur upp úr rúminu þegar maður vaknar á morgnanna....ummm, nema á mánudögum. Það er einstaklega fallegt að fara í göngutúr í þessu veðri og sjá náttúruna klæðast nýjum litum. Mér finnst við hérna á Íslandi þó gleymast einstöku sinnum hvað varðar árstíðir því stundum verða þær bara tvær! 

 

En haustið er líka sú árstíð þar sem eplapæ og kanill hljóma einstaklega vel saman og logandi grasker á stigapallinum, já eða sko allavega í Ameríku. Ég sakna þess mikið frá því ég bjó í Ameríku hversu mikið er gert úr öllum viðburðum. Ég held það kæti sálina og við Íslendingar þurfum oft á því að halda. Væri ekki gaman ef hvert heimili tæki 1-2 grasker og skæri þau út með fjölskyldunni og léti þau loga fyrir utan húsið hjá sér, svo gætu börnin farið í næsta hús að sníkja góðgæti?  Eða fjölskyldur gengju á milli nágranna sinna í spjall og kósí og kannski smá eplapæ og með því?

 

En í tilefni haustsins ákvað ég að deila með ykkur fjölskylduleyndarmáli! Eplapæ fyrir sælkera. Litli bróðir minn hann Gunnar er mikil sérImonía og fullkomnunarsinni þegar kemur að mat og eftirréttum og er þetta einn af hans uppáhalds eftirréttum. Ég veit þó ekki hvort hann verði sáttur með þær breytingar sem ég hef gert, en ég ákvað að pimpa eplapæið aðeins upp í þetta sinn sem gerir það enn betra að mínu mati! Systir mín er líka snillingur í að baka eplapæ og lærði ég það af henni! Skora á ykkur að prófa og bjóða nágrannanum í bita!

 

Eplapæ með pekanhnetum

 

Einstaklega góð heit með ís eða rjóma eða bara bæði ef þú getur ekki valið á milli!

 

 

Innihald

Botn

225 g smjör við stofuhita

1 msk sykur

½ tsk salt

310 g hveiti

1 egg

1 eggjarauða

1 msk mjólk

1 tsk vanilludropar

 

Fylling

60 g smjör, bráðið

Kanilsykur

40 g sykur og 4 tsk kanill

600 g epli skorin smátt niður

2 msk hveiti

2 msk vanillusykur

 

Pekanhnetutoppur

120 g smjör við stofuhita

160 g púðursykur

130 g hveiti

½ tsk kanill

 

Púðursykursgljái

100 g púðursykur

½ tsk vanilludropar

2 msk vatn

 

Aðferð

Botn

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið 29 cm stórt hringlaga eldfast form. Blandið öllu hráefninu

saman í skál og vinnið hröðum höndum þar til deigið er orðið laust við kekki og orðið

þétt. Þið hnoðið það hröðum höndum ofan í skálinni, ef það er mikið að festast við ykkur

er hægt að setja smá hveiti í hendurnar. Setjið deigið inn í ísskáp og kælið á meðan

þið útbúið fyllinguna. Takið svo deigið út úr ísskápnum og fletjið það út. Gott er að setja

flórsykur undir deigið áður en það er flatt út svo það festist ekki við borðið. Klæðið

eldfasta formið að innan með deiginu og látið það ná alveg upp fyrir brúnir formsins.

Smyrjið deigið með smá smjöri, hellið eplafyllingunni ofan í og bakið í 30-40 mínútur,

eða þar til smjördeigið hefur náð fallega gylltum lit. Ekki þarf að kæla kökuna áður en

toppurinn er settur ofan á.

 

Fylling

Setjið smjör og kanilsykur í pott yfir meðalháan hita þar til smjörið hefur bráðnað

alveg. Brytjið eplin frekar smátt niður og setjið þau saman við, hækkið hitann og látið

eplin krauma í rúmlega 5 mínútur í pottinum, hrærið allan tímann svo blandan brenni

ekki. Takið pottinn af hellunni og kælið í 5 mínútur. Bætið hveiti og vanillusykri saman

við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.

 

Pekanhnetutoppur

Skerið smjörið í litla bita. Blandið öllu hráefninu saman í skál og vinnið með höndunum

þar til allt hefur blandast vel saman. Dreifið pekanhnetutoppnum yfir eplakökuna ásamt

púðursykursgljáanum.

 

Púðursykursgljái

Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Dreifið

gljáanum jafnt yfir pekanhnetutoppinn. Kakan er einstaklega góð heit með ís eða rjóma.

 

 

 

Svo skelltum við krakkarnir í eina draugaköku. Við áttum sykurpúða inn í skáp og mér fannst tilvalið að nota þá enda finnst krökkunum þeir mjög góðir. Við máluðum andlit á þá og skreyttum með hvítum, svörtum og appelsínugulum sykurdraugum sem hægt er að fá í t.d. Allt í köku. Krökkunum fannst þetta ekki leiðinlegt og sögðu að kremið væri drullupollur og draugarnir væru að sökkva ofan í. Þessi kaka er einstaklega mjúk súkkulaðikaka með súkkulaðiglassúr og hentar við öll tækifæri. Hægt er að kaupa tússpenna sem eru sérstaklega fyrir kökur og má borða til þess að gera andlitin nú eða bara nota matarlit og mála á þá beint.

 

 

Draugakaka með súkkulaðiglassúr

 

 

Innihald

200 g sykur

3 egg

150 g hveiti

1 ½ tsk lyftiduft

3 msk kakó

60 g smjör, bráðið

1 dl mjólk

100 g dökkt súkkulaðið

 

Súkkulaðiglassúr

300 g flórsykur

3 msk kakó

80 g smjör bráðið

3 msk kaffi (má sleppa)

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður og smyrjið og setjið bökunarpappír í botninn á 24 cm hringlaga bökunarformi. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman í skál og hrærið. Bætið því saman við blönduna ásamt mjólkinni og brædda smjörinu og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Grófsaxið súkkulaðið og hrærið því saman við deigið með sleif. Hellið deiginu í formið og bakið í rúmlega 20  mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Kælið kökuna áður en þið setjið glassúrið ofan á.

 

Súkkulaðiglassúr

Hrærið flórsykur og kakó saman í skál. Bræðið smjör og hellið saman við. Bætið því næst kaffi út í og hrærið vel. Bætið heitu vanti saman við þar til allt hefur náð að blandast vel saman og kremið orðið mjúkt og slétt. Bætið aðeins litlu magni af vatni saman við í einu og hrærið vel á milli.


 

Fyrir ykkur sem viljið taka þetta alla leið og skella í eitt hrekkjavökupartý þá er t.d. til allskonar dót í Tiger og Mega Store sá ég um daginn! Svo um að gera að gera sér glaðan dag.

 

Halloween er 31. október!

 

Verði ykkur að góðu!!

 

Kveðja

Thelma

 

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!