Thelma Þorbergsdóttir
Eftirréttir sem svíkja engan!
22. desember 2014

Eftirréttir sem svíkja engan!

Í þessu bloggi ákvað ég að taka saman okkar uppáhaldseftirrétti sem hafa slegið í gegn, alltaf! Og þá eftirrétti sem mér finnst passa vel sem jóla- og áramótaeftirréttir. Okkur finnst algjörlega nauðsynlegt að hafa heimatilbúinn ís. Það er mjög einfalt að gera heimatilbúinn ís og er mun auðveldara en flesta grunar, svo er hann líka miklu betri en sá sem keyptur er úti í búð. Ég vona að þið getið nýtt ykkur einhverja af þessum uppskriftum og svo er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt á hverju ári ásamt því sem hefð er fyrir hjá fjölskyldunni.

Kanilís með nóakroppi og karamellu-pipp

Það er eitthvað við kanil sem minnir mig svo á jólin! Þessi ís er einstaklega góður fyrir börn og fullorðna. Hann er sérstaklega góður með karamellusósu eða bræddu pipp-súkkulaði með karamellufyllingu. Ekki sakar að hafa þeyttan rjóma með!

Innihald:

6 egg
6 msk. syk­ur
150 g dökk­ur púður­syk­ur
7 dl rjómi, þeytt­ur
200 g Kons­um-súkkulaði
Fræ úr einni vanillu­stöng (má sleppa)
1 tsk. vanillu­drop­ar
1 tsk. kanill

Þeytið eggj­ar­auður og syk­ur sam­an þar til bland­an verður ljós og létt. Blandið púður­sykri var­lega sam­an við með sleif. Þeytið rjómann og blandið hon­um sam­an við með sleif og hrærið þar til allt hef­ur bland­ast vel sam­an.

Grófsaxið 100 g súkkulaði og blandið sam­an við ís­blönd­una. Blandið því næst fræj­um úr einni vanillu­stöng, vanillu­drop­um og kanil sam­an við. Þeir sem vilja geta síðan þeytt eggja­hvít­urn­ar þar til þær verða stíf­ar og blandað þeim sam­an við ís­inn svo það verði meira úr hon­um eða geymt þær til annarra nota.

Hellið ís­blönd­unni í hring­laga smellu­form, bræðið hin 100 g af súkkulaðinu, hellið yfir ís­inn og létt­hrærið í form­inu. Frystið ís­inn í lág­mark 5 klst. Þegar ís­inn er tek­inn út er gott að láta hann standa aðeins við stofu­hita svo auðvelt sé að ná ís­kök­unni úr form­inu. Takið beitt­an hníf og skerið und­ir botn­inn á ísnum og færið yfir á kökudisk.

Topp­ur:

1 poki Nóa kropp
100 g kara­mellu-pipp og 3 msk. rjómi, bráðið

Skreytið ís­inn með Nóa kroppi og bræðið kara­mellu-pippið ásamt rjóm­an­um og hellið yfir. Ísinn geym­ist vel í rúma 3 mánuði í frysti.
Upp­skrift­in dug­ar fyr­ir 10-12 manns.

--------------------

Romm rúsínu ís

Þessi ís er rosalega hátíðlegur og kemur skemmtilega á óvart!

Innihald:

6 egg
6 msk. sykur
7 dl. rjómi
3 tsk. vanilludropar
170 gr. púðursykur
200 gr. romm rúsínur frá H-berg (þær eru hjúpaðar með hvítu súkkulaði)

Þessi uppskrift gerir rúmlega 2 til 2,5 lítra af ís, en auðvelt er að helminga uppskriftina fyrir minna magn.

1. Þeytið eggjarauðurnar og sykurinn saman þangað til blandan verður ljós og létt.
2. Blandið púðursykrinum varlega saman við.
3. Þeytið rjómann og blandið honum varlega saman við ásamt romm rúsínunum (ég skar þær til helminga).
4. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim saman við ásamt vanilludropunum.
5. Setjið í box eða kökuform ef þið viljið gera ístertu og frystið í rúmlega 5 klst.  

Gott er að bera ísinn fram með þeyttum rjóma.

--------------------

Súkkulaði og pecanhnetu ísterta með karamellu

Þessi ís hentar bæði fyrir börn og fullorðna og er einstaklega 'krunsí' og góður. Pecanhnetur eru svo góðar í ís og með súkkulaði. Svo er að sjálfsögðu gott að þeyta nóg af rjóma með heimatilbúnum ís!

Innihald:

6 egg
6 msk. sykur
100 gr. bráðið mars súkkulaði með 5 msk. af rjóma
7 dl. rjómi
2 tsk. vanilludropar
150 gr. suðusúkkulaði dökkt/ljóst eftir smekk, skorið niður í litla bita
100 gr. H-Berg pecanhnetur, skornar mjög smátt
100 gr. H-Berg heslihnetur, hakkaðar
60 gr. karamellusíróp og aðeins meira til skrauts (ég notaði karamellusósu Rikku)

Þeytið eggjarauðurnar saman við sykurinn þangað til blandan er orðin ljós og létt, hellið svo bráðnuðu marsi saman við. Þeytið síðan rjómann og blandið honum varlega saman við blönduna, ásamt súkkulaðinu, pecanhnetunum og vanilludropunum. Stífþeytið því næst eggjahvíturnar og blandið þeim varlega saman við allt saman. Setjið hakkaðar heslihnetur í botninn á meðalstóru kökuformi, hellið svo blöndunni yfir, svo karamellusírópinu og blandið því saman við með því að snúa hníf í nokkrar hringi í gegnum ísinn. Gætið þess að fara ekki of nálægt botninum til að fara ekki í hneturnar sem eru neðst í forminu. Frystið ísinn að lágmarki í 5 klst. Þegar ísinn er orðinn vel frosinn er hann tekinn úr kökuforminu og settur á disk. Raðið pekanhnetum ofan á og skreytið með karamellusírópi.

--------------------

Rólókaka með karamellukremi

Það er erfitt að lýsa þessari köku. Það er eitthvað í henni sem fær mann til að lygna aftur augunum og detta inn í draumaheim. Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mörgum af mínum vinum og fjölskyldumeðlimum - hún slær alltaf í gegn og klárast alltaf! Súkkulaðikakan er einstaklega blaut í sér með miklu súkkulaðibragði. Þetta er hin fullkomna afmæliskaka sem svíkur engan og á þeyttur rjómi mjög vel við.

 

Innihald:

Kaka

60 g dökkt kakó
180 ml heitt vatn
1 dós sýrður rjómi
215 g smjör við stofuhita
330 g sykur
3 egg
3 tsk vanilludropar
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
½ tsk salt
1 pk súkkulaðibúðingur (óblandaður, þ.e. duftið)

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið tvö 24 cm hringlaga bökunarform. Blandið kakóinu og heita vatninu saman og hrærið vel, bætið svo sýrða rjómanum saman við og kælið. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið einu eggi í senn út í og hrærið stuttlega á milli. Bætið vanilludropum saman við. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, salti og súkkulaðibúðingsduftinu. Blandið þurrefnunum saman við deigið ásamt súkkulaðiblöndunni smátt og smátt. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið deiginu jafnt í formin og bakið í miðjum ofni í 20 mínútur eða þar til tannstöngli sem dýft er ofan í kökuna kemur hreinn upp úr miðju hennar. Kakan er örlítið blaut í sér út af súkkulaðibúðingnum. Kælið kökuna alveg.

Karamellukrem

450 g smjör við stofuhita
340 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
¼ tsk sjávarsalt
70 ml karamellusíróp

Aðferð:
Hrærið smjörið þar til það verður ljóst og létt. Blandið flórsykrinum saman við, smávegis í einu og hrærið vel á milli. Blandið vanilludropum, sjávarsalti og karamellusírópi saman við og hrærið í 5 mínútur. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta smá mjólk saman við. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna. Takið örlítið krem frá til þess að skreyta. Setjið kökuna í kæli á meðan þið gerið súkkulaðigljáann.

Súkkulaðigljái

1 dl rjómi
115 g súkkulaði
2 msk hunang
2 msk síróp
1 tsk vanilludropar

Hitið rjómann í litlum potti yfir meðalháum hita þar til hann er orðin mjög heitur, hann á þó ekki að sjóða. Brytjið súkkulaðið niður í litla bita og setjið í skál. Hellið heita rjómanum yfir súkkulaðið og látið standa þar til rjóminn hefur brætt súkkulaðið. Þetta tekur rúmar 5 mínútur. Bætið því næst hunanginu, sírópinu og vanilludropunum saman við og hrærið vel. Kælið súkkulaðigljáann, hann þarf að kólna og þykkna aðeins áður en honum er hellt yfir kökuna svo hann bræði ekki kremið. Best er að hella súkkulaðigljáanum á kalda kökuna, hellið honum varlega yfir hana svo gljáinn leki fallega niður hliðar kökunnar. Setjið kökuna inn í ísskáp og leyfið gljáanum aðeins að storkna. Skreytið svo með restinni af karamellukreminu og setjið rólóbita ofan á.

--------------------

Baby Ruth

Baby Ruth er amerískt súkkulaði sem er mjög vinsælt þar í landi. Það inniheldur hnetur, súkkulaði og karamellu. Þessi kaka er í algjöru uppáhaldi hjá Mr. Handsome, hann myndi borða hana alla ef hann fengi að ráða. Baby Ruth kakan hentar vel við öll tækifæri og gerð hennar er ekki tímafrek.

Innihald:

Botn

3 stk eggjahvítur
220 g sykur
100 g salthnetur
100 g ritzkex
½ tsk lyftiduft

Aðferð:

Hitið ofninn í 160°C og setjið smjörpappír í 24 cm eldfast smelluform. Þeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum rólega saman við. Þeytið blönduna þar til hún er orðin stíf og stendur. Hakkið niður ritzkexið í matvinnsluvél eða myljið það niður og blandið saman við salthneturnar og lyftiduftið. Blandið því saman við eggjablönduna og hrærið saman með sleif. Bakið í 25-30 mínútur. Kælið kökuna alveg áður en þið setjið kremið ofan á hana.

Krem

3 stk eggjarauður
70 g flórsykur
100 g dökkt súkkulaði
40 g smjör

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti á meðalháum hita. Blandið brædda súkkulaðinu varlega saman við eggjarauðublönduna og hrærið rólega með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið kremið yfir botninn og látið það leka niður hliðarnar.

Toppur

½ lítri rjómi
50 g salthnetur, grófsaxaðar
50 g súkkulaðispænir

Þeytið rjóma og setjið yfir kökuna. Grófsaxið salthnetur og stráið yfir rjómann ásamt súkkulaðispónum. 

--------------------

Vanillukaka með jarðarberjarjóma og súkkulaðiglassúr

Vanilla, jarðarber og súkkulaði, hverjum líkar það ekki? Þessi kaka hentar fyrir alla aldurshópa og er alveg einstaklega falleg á borði. Það er eiginlega bara nóg að stara á þessa köku því hún er svo falleg og er alveg tilvalin sem afmæliskaka eða eftirréttur í matarboðið. Kakan er jafngóð daginn eftir, ef það verður þá einhver afgangur.

 

Innihald:

Kaka

115 g smjör
225 g sykur
2 egg
170 g hveiti
1 ½ tsk lyftiduft
¼ tsk Maldon-salt
125 ml mjólk
3 tsk vanilludropar

Aðferð

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið 24 cm hringlaga bökunarform. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið einu eggi í senn út í og hrærið stuttlega á milli. Setjið hveiti, lyftiduft og salt saman í skál og hrærið. Blandið vanilludropum saman við mjólkina. Blandið þurrefnum og mjólk saman við til skiptis þar til allt hefur blandast vel. Passið þó að hræra ekki of mikið því þá á kakan það til að verða seig. Setjið deigið í bökunarformið og bakið í 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Passið ykkur að baka þennan botn ekki of lengi því þá verður hann þurr og ekki eins mjúkur. Kælið botninn alveg, takið beittan hníf eða kökusög og skerið botninn í tvo hluta. Einnig er gott að gera tvöfalda uppskrift og gera tvo botna ef þið viljið hærri og meiri köku.

Jarðarberjarjómi

½  lítri rjómi
10 jarðarber, maukuð
10 jarðarber, heil

Maukið jarðarberin í matvinnsluvél eða blandara þar til þau eru orðin að vökva. Þeytið rjóma og hellið svo jarðarberjamaukinu saman við og hrærið varlega með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið jarðarberjarjómann á milli botnanna, raðið heilum jarðarberjum meðfram brúninni á kökunni og setjið hinn botninn ofan á.

Súkkulaðiglassúr

60 g flórsykur
2 msk dökkt kakó
30 g smjör
1 tsk vanilludropar

Blandið flórsykri og kakói saman í skál. Bræðið smjör og hellið saman við og hrærið vel. Bætið því næst vanilludropum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Notið heitt vatn til þess að ná kreminu mjúku og fínu en passið að gera það ekki of þunnt. Gott er að láta kremið standa stutta stund á borði til þess að það þykkni aðeins. Ef kremið er of þunnt á það til að leka niður alla kökuna og út af diskinum. Hellið kreminu varlega yfir kökuna og leyfið því að leka rólega niður hliðarnar.

Skreytið kökuna með jarðarberjum og bláberjum eða öðrum berjum að eigin vali. Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram. 

--------------------

Trufluð berjabomba

Eins og þið getið ímyndað ykkur þá er þessi eftirréttur tilvalinn fyrir marga, t.d. sem eftirréttur í matarboðið. Gestirnir eiga eftir að hafa orð á því hversu fallegur eftirrétturinn er og spyrja hvernig í ósköpunum þið hafið farið að því að gera hann. Leyndarmálið er þó að hann er mjög auðveldur og hægt að gera á marga vegu. Það er um að gera að nota hugmyndaflugið og setja allt það sem ykkur finnst gott saman í skál og raða því í fallegt munstur, eða ekki.

Innihald:

1 botn af súkkulaði- eða vanilluköku
1 lítri rjómi
1 kassi af Lu-kanilkexi
1 stór askja jarðarber
1 stór askja bláber
1 poki karamellukurl
1 poki hvítir súkkulaðidropar
200 g pipp-súkkulaði með karamellufyllingu

Aðferð:

Þeytið rjóma og setjið til hliðar. Skerið kanilkexkökurnar í tvennt og raðið þeim meðfram hliðum skálarinnar. Myljið kökubotninn og setjið helminginn í botninn á skálinni. Bræðið hvítu súkkulaðidropana yfir vatnsbaði og hellið yfir kökuna. Setjið rjóma yfir. Skerið jarðarberin langsum og raðið þeim meðfram hliðum skálarinnar og yfir rjómann, ásamt restinni af mulda kökubotninum. Bræðið pippið yfir vatnsbaði og hellið yfir kökuna. Setjið rjóma yfir. Raðið bláberjum meðfram hliðum skálarinnar og yfir rjómann, stráið því næst karamellukurli yfir bláberin og setjið rjóma yfir. Skreytið með restinni af Lu-kanilkexinu, bláberjunum og jarðarberjunum. Geymið bombuna inni í ísskáp þar til hún er borin fram.

 

Gleðileg jól!
Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!