Thelma Þorbergsdóttir
Eftirréttir fyrir páskana
30. mars 2015

Eftirréttir fyrir páskana

Jæja páskarnir eru handan við hornið og mikið hlakkar mig til að fara í þetta langþráða páskafrí! Svo er farið að birta til úti og börnin mín segja ekki lengur þegar þau vakna á morgnanna “mamma það er sko ennþá nótt” svo það er allt uppávið hér á bæ.

 

Mig langaði til að segja ykkur frá hefð sem ég ætla að tileinka fjölskyldunni okkar og gerir páskana ennþá skemmtilegri. Þegar ég var aupair í Bandaríkjunum kynntist ég amerískri hefð um páskana sem ég heillaðist af. Reyndar eru þau ekki eins mikið með páskaegg og við heldur frekar kanínur úr súkkulaði og eru þær til í mismunandi stærðum. Það sem þeir gera þó kanarnir er að hver fjölskyldumeðlimur fær “Easter basket” eða páskakörfu. Páskakarfan er svo full af allskyns dóti, sælgæti og súkkulaði. Til dæmis fékk ég frá fjölskyldunni minni þarna úti körfu sem innihélt tískublað, naglalökk, augnskugga, teygjur í hárið, bursta, shampoo, sælgæti og súkkulaðikanínu. Hver og einn fær sína körfu sem inniheldur eitthvað sem hentar hverjum og einum. Þetta finnst mér ótrúlega spennandi svo verkefni mitt næstu daga er að útbúa páskakörfu fyrir krakkana og Mr. Handsome og ég er með fullt af hugmyndum sem munu koma þeim á óvart. Þetta þarf þó ekki að vera dýrt, t.d. er ýmislegt til í Mega Store í smáralind sem gæti verið skemmtilegt að setja í körfuna, litir og litabækur, litlir legokassar eða það sem börnin ykkar hafa gaman af. Ég ætla að finna DVD mynd sem ég mun setja í körfuna hjá krökkunum og við fjölskyldan getum horft á saman á meðan við gúffum í okkur páskaegg og höfum það notalegt um páskana!

 

Páskafríið er þó ekki mjög spennandi án gómsætra eftirrétta og því ætla ég að deila með ykkur nokkrum uppskriftum af kökum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni og mér finnst passa einstaklega vel við páskana. Njótið!

Súkkulaðiostakaka með súkkulaðihjúp og berjum

 

Botn

14 Oreo kex

45 g smjör, bráðið

 

Ostakaka

380 g dökkt súkkulaði

450 g rjómaostur

250 g sykur

1 dós sýrður rjómi

3 egg

 

Toppur

100 g dökkt súkkulaði, bráðið

3 msk síróp

4 msk rjómi

Jarðaber og bláber eða ber að eigin vali

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður. Setjið smjörpappír í hringlaga form um 20 cm að stærð. Setjið Oreo kex í matvinnsluvél og fínmalið. Bræðið smjör og hrærið saman við Oreo kexið. Setjið kexblönduna í botninn á forminu og þrýstið vel niður og upp á hliðar formsins. Bakið í 10 mínútur og kælið.

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og setjið til hliðar. Hrærið rjómaostinn þar til hann er orðinn mjúkur og sléttur. Bætið sykri saman við ásamt sýrðum rjóma og hrærið vel. Setjið eggin saman við og hrærið vel. Blandið brædda súkkulaðinu saman við ostablönduna og hrærið með sleif þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Hellið rjómaostablöndunni ofan á Oreo kex botninn og bakið 40-45 mínútur, ef þið notið stærra form þurfi þið styttri bökunartíma ca. 25-30 mínútur. Með því að nota minna form verður kakan hærri og veglegri. Kakan er aðeins mjúk í miðjunni þegar þið takið hana úr ofninum. Þegar kakan kólnar fellur hún í miðjunni og myndar hálfgerða skál þar sem berin fara ofan í.

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði, blandið sírópi og rjóma saman við og hrærið stanslaust þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Hellið því yfir kælda kökuna, dreifið úr súkkulaðinu  og látið það leka örlítið niður hliðar kökunnar. Kælið kökuna þar til súkkulaðið hefur náð að storkna örlítið. Skreytið með berjum að vild. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram.

 

Twix ostakökubitar með súkkulaði

 

Botn

230 g Homeblest kexkökur

60 g sykur

100 g smjör bráðið

7 pk Twix

 

Súkkulaðiostamús

370 g rjómaostur

90 g dökkt kakó

90 g sykur

2 egg

 

Toppur

200 g hvítt súkkulaði

80 g kókosolía

50 g dökkt súkkulaði

 

Aðferð

Hitið ofinn í 180 gráður, setjið smjörpappír í eldfast mót ca. 20x30 cm. Setjið Homeblest kex og sykur í matvinnsluvél og fínmalið. Bræðið smjör og blandið því saman við með sleif. Setjið kexblönduna í eldfasta mótið og þrýstið vel í botninn, gott er að nota glas eða skeið. Blakið botninn í 10 mínútur og kælið alveg.

Raðið Twixbitunum jafnt og þétt ofan á kexbotninn. Hrærið rjómaoststinn þar til hann er orðinn mjúkur og sléttur. Bætið kakói og sykri saman við og hrærið vel. Setjið eggin saman við og hrærið þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Smyrjið rjómaostablöndunni varlega yfir Twixið, blandan er þykk og því þarf að dreifa varlega úr blöndunni með sleif. Bakið í 30 mínútur og kælið svo alveg.

Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði ásamt kókosolíu. Hrærið stanslaust þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Hellið súkkulaðinu yfir ostakökuna og setjið í kæli. Bræðið því næst dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði, skreytið kökuna með því að sletta því óreglulega yfir hvíta súkkulaðið eða að vild. Geymið í kæli þar til bitarnir eru bornir fram.

 

Hnetu Nizza ostakaka með súkkulaðihjúpuðum heslihnetum

 

Botn

300 g hafrakex

100 g ristaðar karamelluhnetur

70 g smjör við stofuhita

1 msk Hnetu nizza (Síríus heslihnetusmjör)

 

Ostakaka

450 g rjómaostur

370 g Hnetu nizza (Síríus heslihnetusmjör)

60 flórsykur

 

Toppur

100 g súkkulaðihjúpaðar heslihnetur, hakkaðar

 

Aðferð

Setjið smjörpappír í hringlaga form um 22 cm að stærð. Setjið hafrakex, ristaðar karamelluhnetur, smjör og Hnetu nizzan saman í matvinnsluvél og hakkið þar til allt hefur blandast vel saman og er orðið vel blautt af smjörinu. Þrýstið hafrakexblöndunni ofan í botninn á forminu, gott er að nota glas eða skeið. Kælið botninn á meðan þið undirbúið ostakökuna.

Hrærið rjómaost og flórsykur saman þar til blandan verður mjúk og slétt. Bætið Hnetu nizza saman við og hrærið þar til allt hefur  náð að blandast vel saman. Setjið rjómaostablönduna í formið ofan á hafrakexbotninn. Setjið súkkulaðihjúpuðu heslihneturnar í matvinnsluvél og grófhakkið. Setjið þær ofan á ostakökuna og þrýstið þeim örlítið niður svo þær festist vel. Kælið í 5 klukkustundir. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram.

 

Oreo ostakaka

 

Botn

220 g hafrakex

50 g púðursykur

100 smjör, bráðið

 

Ostakaka

5 dl rjómi

450 g rjómaostur

150 g sykur

½ tsk salt

1 msk sítrónusafi

2 tsk vanillusykur

16 stk Oreo kex

 

Toppur

½ lítri rjómi

3-4 Oreo kex

 

Aðferð

Setjið smjörpappír í hringlaga form um 23 cm stórt. Setjið hafrakex og púðursykur saman í matvinnsluvél og fínmalið. Bræðið smjör, blandið því saman við og hrærið vel. Setjið hafrakexblönduna ofan í formið og þrýstið vel ofan í botninn og upp á hliðar formsins. Gott er að nota glas eða skeið. Setjið í kæli á meðan þið undirbúið rjómaostablönduna. 

Hrærið rjómaost, sykur, salt, sítrónusafa og vanillusykur saman í skál þar til blandan verður slétt og mjúk og setjið til hliðar. Þeytið rjómann þar til hann verður stífur og stendur. Blandið rjómanum varlega saman við rjómaostablönduna með sleif. Setjið Oreo kexið í matvinnsluvél, hakkið gróflega og blandið varlega saman við rjómaostablönduna. Hellið rjómaostablöndunni ofan í formið og kælið í 5 klukkustundir. Þeytið rjóma og sprautið honum ofan á kökuna og skreytið með Oreo kexi. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram. 

 

Gulrótakaka með kókosrjómaostakremi

 

Innihald

230 g smjör við stofuhita

250 g púðursykur

4 egg

2 tsk vanilludropar

320 g hveiti

1 msk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk salt

2 tsk kanill

1 tsk múskat

130 ml mjólk

500 g gulrætur, rifnar

250 ml ananas, skorinn niður

 

Kókosrjómaostakrem

230 g smjör við stofuhita

70 ml sýrður rjómi

500 g rjómaostur við stofuhita

340 g flórsykur

2 tsk vanilludropar

80 g kókos

Ristaðar kókosflögur

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið tvö 24 cm hringlaga bökunarform. Skerið ananasinn smátt niður, sigtið hann og kreistið sem mestan vökva úr honum. Rífið gulrætur niður í matvinnsluvél og setjið til hliðar. Þeytið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið. Blandið hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanil og múskati saman í skál og hrærið vel. Bætið hveitiblöndunni jafnt og þétt saman við deigið ásamt mjólkinni, smátt og smátt. Setjið gulræturnar og ananasinn út í deigið og hrærið varlega saman. Hellið deiginu jafnt í bökunarformin og bakið í miðjum ofninum í 40 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar ef þið dýfið honum ofan í. Takið kökurnar úr ofninum og kælið alveg. Skerið hvorn botn í tvennt svo úr þeim verði fjórir botnar.

 

Kókosrjómaostakrem

Hrærið smjör þar til það verður ljóst og létt, bætið sýrða rjómanum út í og hrærið. Skerið rjómaostinn niður í bita og blandið smávegis saman við í einu. Mikilvægt er að rjómaosturinn sé við stofuhita svo auðvelt sé að blanda honum saman við án þess að þurfa að hræra mikið. Með því að hræra of mikið þynnist kremið. Bætið flórsykri saman við, smávegis í einu, og hrærið lítillega á milli. Gott er að skafa hliðarnar á skálinni vel inn á milli til að losna við kekki og til að allt blandist vel saman. Bætið vanilludropum og kókos saman við og hrærið lauslega. Ef ykkur finnst kremið of þunnt er hægt að bæta smá flórsykri saman við. Skiptið kreminu í fjóra hluta og setjið á milli botnanna. Ristið kókosflögur þar til þær hafa náð fallegum gullbrúnum lit og stráið þeim yfir kökuna. Geymið kökuna inni í ísskáp þar til hún er borin fram.

 

Baby Ruth

 

Botn

3 stk eggjahvítur

220 g sykur

100 g salthnetur

100 g ritzkex

½ tsk lyftiduft

 

Krem

3 stk eggjarauður

70 g flórsykur

100 g dökkt súkkulaði

40 g smjör

 

Toppur

½ lítri rjómi

50 g salthnetur, grófsaxaðar

50 g súkkulaðispænir

 

Aðferð

Hitið ofninn í 160°C og setjið smjörpappír í 24 cm eldfast smelluform. Þeytið eggjahvíturnar og blandið sykrinum rólega saman við. Þeytið blönduna þar til hún er orðin stíf og stendur. Hakkið niður ritzkexið í matvinnsluvél eða myljið það niður og blandið saman við salthneturnar og lyftiduftið. Blandið því saman við blönduna og hrærið saman með sleif. Bakið í 25-30 mínútur. Kælið kökuna alveg áður en þið setjið kremið ofan á hana.

 

Krem

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti á meðalháum hita. Blandið brædda súkkulaðinu varlega saman við eggjarauðublönduna og hrærið rólega með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið kremið yfir botninn og látið það leka niður hliðarnar.

 

Toppur

Þeytið rjóma og setjið yfir kökuna.

Grófsaxið salthnetur og stráið yfir rjómann ásamt súkkulaðispónum

 

Gleðilega páska!

 

Kveðja,

Thelma

 

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!