Thelma Þorbergsdóttir
Cajun kjúklingapasta og vanillukaka með rjómaostakremi
17. febrúar 2016

Cajun kjúklingapasta og vanillukaka með rjómaostakremi

Í dag ætla ég að deila með ykkur fljótlegu og fersku kjúklingapasta sem er tilvalið fyrir annasamar fjölskyldur sem vilja framreiða kvöldmatinn á stuttum tíma. Einnig ætla ég að deila með ykkur himneskri köku! Nú fer að styttast í fermingar og margir sem vilja gera kökuna fyrir veisluna sjálfir. Þessi kaka inniheldur hvíta botna sem hægt er að nota með hvaða kremi sem er og gott er að stafla botnunum ofan á hvorn annan. Ég mæli þó með að notast við smjörkrem þegar á að stafla botnum ofan á hvorn annan þar sem það heldur betur en rjómaostakrem. Ég setti rjómaostakrem með kanil á kökuna í þetta sinn sem er einstaklega gott og bráðnar algjörlega í munni með blautri og bragðgóðri kökunni.

Framundan er svo stórt verkefni! Afmæli sonar míns sem verður 7 ára. Ef hann mætti ráða væri hann klárlega skósveinn! Svo afmælisþemað verður að sjálfsögðu skósveinaafmæli. Því ætla ég að deila með ykkur hugmyndum af skósveinaafmæli og einfaldri köku á afmælisborðið sem allir ættu að geta gert, í næsta bloggi.

Cajun kjúklingapasta

Innihald

500 g Taglitelle pasta

4 kjúklingabringur

2 msk olía

1 tsk Cajun krydd

1 tsk papriku krydd

1 hvítlaukur, rifinn

Salt og pipar

 

Sósa

2 msk smjör

1 hvítlaukur, rifinn

1 stk paprikuostur

200 g rjómaostur

½ lítri matreiðslurjómi

1 tsk Cajun krydd

½ tsk paprika krydd

½ tsk chilli druft

1-2 tsk sítrónubörkur

Sítrónupipar

Salt og pipar

 

Toppur

Steinselja, söxuð

Parmesaanostur, rifinn

Litlir tómatar

Aðferð

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, ásamt 1 msk af olíu og smá salti.

Skerið hverja bringu í 3-4 bita og setjið í skál ásamt rifnum hvítlauk, olíu og kryddum. Hrærið öllu vel saman. Gott er að láta kjúklinginn liggja örlitla stund í kryddinu, en þó ekki nauðsynlegt. Ég grillaði kjúklinginn á George Forman grilli sem gefur kjúklingnum einstaklega gott bragð. Einnig er hægt að steikja kjúklinginn. Gott er að hafa í huga að steikja kjúklinginn ekki of lengi svo hann verður ekki of þurr.

Sósa

Setjið smjör á pönnu og steikið rifinn hvítlauk upp úr smjörinu. Skerið paprikuost í teninga og setjið saman við ásamt rjómaosti og matreiðslurjóma. Hrærið þar til osturinn hefur náð að bráðna alveg og hefur blandast vel saman við rjómann. Blandið kryddum saman við ásamt sítrónuberki. Gott er að smakka sósuna af og til og bæta þá við kryddum eftir smekk. Þeir sem vilja hafa sósuna extra sterka geta sett meira af Cajun kryddi og chilli.

Þegar pastað hefur náð að sjóða, hellið þá vatninu af pastanu og blandið því saman við sósuna. Hrærið vel í svo að sósan þeki pastað vel. Setjið pastað í skál, skerið kjúklinginn í bita, grófsaxið steinselju og setið ofan á, ásamt parmesanosti og tómötum. 

---

Vanillukaka með kanil-rjómaostakremi

Innihald

170 g smjör

550 g sykur

5 egg

380 g hveiti

2 tsk lyftiduft

¼ tsk salt

1 dl mjólk

1 dl súrmjólk

2 tsk vanilludropar

 

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráður. Setjið smjörpappír í botinn á tveimur hringlaga, meðalstórum bökunarformum, um 22-23 cm.

Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið eggjum saman við, einu í senn og hrærið vel á milli. Setjið hveiti, lyftiduft og salt saman í skál og hrærið saman. Blandið því varlega saman við deigið ásamt súrmjólkinni og mjólkinni. Hellið þurrefnum saman við til skiptis við súrmjólkina og mjólkina. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að stoppa hrærivélina og skafa skálina að innan með sleif og hræra svo örlítið lengur. Passið ykkur samt á því að hræra ekki of mikið því þá getur kakan orðið seig.

Hellið deiginu jafnt í bæði formin og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Passið að ofbaka kökurnar ekki. Kælið botnana alveg áður en þið setjið kremið á.

 

Rjómaostakrem með kanil

340 g rjómaostur

100 g smjör við stofuhita

1 ½ tsk kanill

600 g flórsykur

½ tsk vanilludropar

Aðferð

Hrærið rjómaost og smjör saman þar til blandan verður mjúk og slétt. Setjið kanil saman við og hrærið. Blandið flórsykrinum saman við, smá og smá í einu og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Gott er að skafa skálina að innan af og til svo að allt nái að blandast vel saman. Bætið því næst vanilludropum saman við og hrærið. Ef ykkur finnst kremið vera of lint þá er gott að setja kremið inn í kæli í 20-30 mín. áður en þið setjið það á kökuna svo það leki ekki allt niður. Rjómaosturinn gerir það að verkum að kremið lekur aðeins en það er fljótt að lagast inni í kæli. Setjið kremið á milli botnanna og þekið alla kökuna með kreminu. Skreytið kökuna með súkkulaðispænum. Geymið kökuna inn í kæli þar til hún er borin fram. Gott er þó að taka kökuna út um 20 mín. áður á að gæða sér á henni. 

Að sjálfsögðu fékk ég góða aðstoð frá þessum litlu skósveinum sem voru sátt með að fá köku í kvöldkaffi sem er mikið sport á þessum bæ!

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blospot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!