Thelma Þorbergsdóttir
Brúðkaup
18. október 2013

Brúðkaup

Jæja ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja....en já ég kannski byrja á því að segja ykkur frá því að við erum gift. Sko ég og Mr. Handsome, svo tæknilega séð er ég orðin Mrs. Handsome, en það hljómar samt ekki eins cool.

Flestar stelpur dreymir um fullkomið brúðkaup, en svo spyr maður sig hvað er fullkomið brúðkaup? er það að vera með þriggja rétta matseðil, forrétt, grill og eftirrétt, vera í stórum sal með endalausar skreytingar og yfir 200 mans á gestalista? Vera í öllu nýju og gista í svítu á hótelherbergi rétt fyrir utan borgina? Brúðkaupið okkar var svo langt frá þessu, en var svo fullkomið í mínum huga þrátt fyrir nokkra „galla“ sem ég grenjaði úr mér augun út af en hlæ af í dag (segi ykkur frá því eftir smá stund). Þegar upp er staðið skiptir mestu máli að maður sé með fólkinu sem manni þykir vænt um og langar að hafa í kringum sig og jú að maður sé giftur í lok dagsins! En eins og við segjum, sumir hlutir eru bara „meant to be“ og var það klárlega þannig hjá okkur þegar upp er staðið.

Við ákváðum í janúar sl. að gifta okkur og okkur fannst við rosalega tímalega í öllu saman. Við byrjuðum  á því að bóka Hafnarfjarðarkirkju og leituðum okkur svo af sal sem hentaði. Okkur langaði ekki í of stóran sal og helst hafa hann smá sveitó og kósí í fallegu umhverfi. Við komumst fljótt að því að við vorum ekkert svo tímalega, margir af þeim sölum sem okkur langaði að fá voru uppteknir út október! Við leituðum og leituðum og enduðum á því að fara skoða Garðaholt. Garðaholt er salur sem er á milli Garðabæjar og Álftaness. Manni líður eins og maður sé kominn upp í sveit, er með útsýni yfir Hafnarfjörð og út á sjó, þetta var akkúrat það sem við vorum að leita að....en salurinn tók bara 120 manns í sæti svo gestalistinn gat ekki farið yfir það. Gestalistinn tók því við! guð minn góður það er það erfiðasta sem ég hef þurft að gera! hverjum á maður að bjóða??? En maður þarf að muna að þetta er brúðkaupið okkar og við verðum bara að láta hjartað ráða og þetta hófst á endanum. Það verða væntanlega alltaf einhverjir ósáttir en maður má ekki láta það slá sig út af laginu.

Tveimur mánuðum fyrir brúðkaup komumst við svo að því að bókunin í kirkjunni var vitlaus, við vorum bókuð kl. 15:00 en ekki 16:00 eins og við ætluðum. Við vorum búin að prenta út boðskortin og tilbúin að senda þau út þegar þetta kom í ljós. Þá tók við grátur því það var annað par búið að bóka kirkjuna kl 17:00 og það þurfa víst að vera 2 klst. á milli brúðkaupa. Já ég bara grenjaði úr pirring og að þetta fullkomna brúðkaup skyldi byrja á því að við fengum ekki kirkjuna sem við vorum löngu búin að bóka. Ég hringdi í nokkrar kirkjur og þeim fannst ég frekar bjartsýn á að bóka kirkju með svo stuttum fyrirvara. Mér var svo bent á Bessastaðakirkju, en ég hafði ekkert hugsað út í þá kirkju. Hún var laus og við fórum að skoða, ég var svo neikvæð þegar ég var að skoða hana og fannst allt svo ömurlegt við hana því ég var búin að ákveða að vera í annarri kirkju, já maður er svo þrjóskur! En það var tekið svo vel á móti okkur þar og það var jú eitthvað sem var heillandi við hana svo við ákváðum að bóka hana. Hún er líka nær veislusalnum svo þetta hentaði svo sem ágætlega.

Við tók undirbúningurinn, ég pantaði allskyns dót á netinu með ágætum fyrirvara svo allt væri komið í tæka tíð til landsins. Við versluðum á krakkana og Mr. Handsome keypti sér jakkaföt. Elskulega mamma mín saumaði kjólinn á mig, enda klæðskerameistari og hristir einn brúðarkjól fram úr erminni eins og ekkert sé....eða svona næstum því. Við hönnuðum kjólinn saman. Ég vildi hafa hann látlausan en samt einstakann. Ég vildi smá blúndu en svona grófa bómullarblúndu sem erfitt er að finna hér á landi. Við enduðum því á því að kaupa nokkra boli í Vera Moda á útsölu sem voru með einstaklega fallegri blúndu á. Mamma rakti þá svo alla upp og saumaði úr blúndunni. Ég var svo ánægð með kjólinn að ég hefði ekki getað hugsað mér fallegri kjól og það var svo þægilegt að vera í honum og ég gat farið á klósettið ein! (sumar geta það ekki án gríns, kjólarnir eru stundum svo rosalegir). Kjólinn kláraðist svo daginn fyrir brúðkaup, mömmu til mikillar ánægju!

Ég og fallega mamma mín!

Við reyndum að gera eins mikið sjálf og við gátum. Ég keypti á netinu lítil tiffany box, braut  þau öll saman og setti súkkulaði og möndlu kossa í hvert box. Ég bjó til fallegar setningar um ástina og límdi í hvert lok og lokaði því með fallegri hvítri slaufu. Ég skrifaði nafn hvers og eins á lítinn miða og festi hann með lítilli þvottaklemmu á trjágrein. Ég safnaði endalausum krukkum héðan og þaðan og límdi blúndu á þær og setti kerti í, kom æðislega rómantísk birta af því og vakti mikla lukku. Við prentuðum út matseðla og dagskrá og settum við hvert sæti og merktum svo borðin með gasblöðrum, snilldar hugmynd, bara skrifa númer borðsins og festir í einn stólinn. Ég gerði brúðarvöndinn sjálf, keypti nokkur rósabúnt af hvítum rósum og skar af þeim og vafði hvítri blúndu utan um.

Við vorum svo með nammibar fyrir gestina þegar þeir biðu eftir að við kæmum til baka úr myndatöku. Nammibarinn innihélt hnetur og súkkulaði frá H-berg sem var mjög vinsælt ásamt smjördeigskúlum. Það er svo mikilvægt að hafa eitthvað aðeins fyrir gestina til að maula á og drekka svo stemningin detti ekki niður. Síðan buðum við upp á þrjár tegundir af súpum, aspas, mexikó og humarsúpu með heimabökuðu brauði. Kokkarnir komu og fóru  með þetta allt saman sem var algjör snilld. Við ákváðum að hafa súpur því þær eru einstaklega góðar, léttar í magann og eiga eitthvað svo vel við á haustin. Súpurnar slógu algjörlega í gegn. Ég hafði smá áhyggjur að þetta yrði ekki nógu mikill matur, en þegar fólk er að fá sér í glas og dansa og skemmta sér er rosalega gott að fá svona létt í magann. En við bættum fólki þetta svo upp með dýrindis brúðartertu og miðnæturgrilli seinna um kvöldið.

 

Við vorum svo með algjörlega frábæra veislustjóra sem gerðu brúðkaupið ógleymanlegt. Allt var eins og það átti að vera, eða svona næstum því. Við fengum salinn á föstudagskvöldinu og gátum haft hann til kl. 23:30. Við skreyttum salinn ásamt góðu fólki og komum brúðartertunni í nokkrum bútum upp í sal. Ég bakaði mína eigin tertu og ég ætlaði mér svo rosalega hluti með hana. Ég var nýbúin að gera brúðartertu fyrir Rakel systur sem gifti sig í júlí sem sló algjörlega í gegn og ég ætlaði að gera mína eins góða en bara svolítið stærri. Þegar kakan var komin upp í hús þurfti ég að raða henni saman og klára að skreyta hana. Tíminn var að hlaupa frá okkur og ég skellti kökunni saman og skreytti hana. Kakan var það stór og þung að við treystum okkur ekki að setja hana inn í kæliskápinn, enda lak eitthvað inn í honum og ég vildi ekki taka neinn séns með þessa brúðartertu sem átti sko að vera flottasta og stærsta kakan sem ég hafði gert! Svo ég rétt náði að skreyta kökuna og hlaupa út áður en þjófavarnarkerfið fór í gang á salnum.


 

Daginn eftir mættum við upp í sal til þess að fara yfir hvort allt væri ekki tilbúið og mér var litið á fullkomnu kökuna mína. Hún var eins og skakki turninn í písa!! Ó nei öskraði ég úr eldhúsinu. Mr. Handsome kom inn í  eldhúsið og varð grænn í framan! Ég trúði ekki að þetta væri að gerast fyrir mig, mig kökukerlinguna sem er búin að baka milljón kökur fyrir alla vini og vandamenn sem allar hafa heppnast svo vel! Ég ávað að gera ekki neitt og ekki færa kökuna því þá myndi hún bara hrynja. Það var rosalega heitt í eldhúsinu og ég held að út frá öllum þessum kæliskápum hafi komið rosalegur hiti og allir gluggar lokaðir, kakan svo þung og stór og smjörkremið hálf lint. Ég rauk út í bíl í reiðikasti og fór heim til mömmu, en ég var á leið þangað að hafa mig til fyrir daginn. Mamma fékk áfall þegar hún heyrði hvað hafi gerst og ég grenjaði úr mér augun og sagðist ekki nenna þessum degi sem byrjaði svona illa. En dagurinn varð að halda áfram og ég reyndi að láta kökuna ekki hafa of mikil áhrif á mig.

Athöfnin var í alla staði fullkomin! Sér Gunnþór og Þórhildur foreldrar eins besta vinar Mr. Handsome giftu okkur saman sem gerði athöfnina persónulega og skemmtilega. Mamma leiddi mig upp að altarinu og við vorum svo stressaðar að muna ekki allt sem við áttum að gera þannig við löbbuðum frekar hratt inn kirkjugólfið....svo er restin bara í móki, man bara ekki alveg hvernig þetta allt var. Mr. Handsome keyrði að sjálfsögðu brúðarbílinn sjálfur sem var Dodge Coronet SuperBee árgerð 1969 sem var gerður upp frá grunni af tengdapabba. Hann spólaði svo hrikalega frá kirkjunni að hann rotaði mig næstum því á mælaborðinu. Við fórum svo í myndatöku og mættum upp í salinn þar sem gestirnir biðu eftir okkur.

Ég var búin að ræða við veislustjórana varðandi brúðartertuna, um það hversu skökk hún væri og hvort þau gætu sagt frá því sem gerðist, því mér fannst þetta alveg ömurlegt að geta ekki boðið upp á fallega köku. Þegar ég mætti á svæðið frétti ég það að kakan væri komin í nokkra hluta, svo sem mun verri en ég hafði verið að grenja yfir fyrr um daginn! Ég fékk annað áfall, guð minn góður,  get ég ekki einu sinni boðið upp á köku í mínu eigin brúðkaupi. Mér var þó sagt að það hefði verið hægt að bjarga henni, en hún væri í nokkrum hlutum og að sumir hlutarnir væru þokkalega heilir. Veislustjórarnir sögðu svo frá kökunni og sögðu að ef brúðarkakan klúðrast sé það merki um farsælt hjónaband, ég trúi því sko algjörlega því þetta er svo rétt hjá þeim. Ég held að í hverju brúðkaupi sé eitthvað sem fari úrskeiðis og það vildi bara svo til að það var kakan hjá mér....já hjá mér kökukerlingunni! En við gerðum gott úr þessu, skelltum nokkrum stjörnuljósum á kökuna og hámuðum í okkur, því umfram allt var hún einstaklega góð.

Það sem bjargaðist af kökunni! Skreytt með smá stjörnuljósum

Við dönsuðum svo fram á nótt og allir voru í fullu fjöri sem gerði þetta ennþá skemmtilegra. Mr. Handsome var búin að æfa hrikaleg dansspor og við vorum búin að fara í einn danstíma til að æfa svona „surprise“ dansatriði sem heppnaðist svona líka vel þó svo ég segi sjálf frá. Fínt að koma öllum í stuð með flottu dansatriði. Þegar ég lít til baka var þessi dagur fullkominn. Við höfum bara átt að gifta okkur í Bessastaðakirkju, hún er mun minni en Hafnarfjarðarkirkja með svo fallegri aðkomu. Allir sátu þétt og nálægt okkur sem mér þótti notalegt og kirkjan örstutt frá veislunni.

Ég var búin að ákveða að blogga um gerð kökunnar hérna en hætti svo við að gera það út af þessu klúðri....en þar sem þessi kaka er svo sjúklega góð ákvað ég bara samt að gera það þrátt fyrir allt. Ég get helgið af þessu í dag og þetta setti bara skemmtilegan svip á daginn því þetta er saga til að segja frá og gerir daginn alveg einstaklega eftirminnilegan.

Svo segi ég bara, ef ykkur vantar brúðartertu þá viti þið við hvern þið talið við ha, ha, ha.

En hér kemur uppskriftin af brúðartertunni.

Blaut súkkulaðikaka með vanillusmjörkremi

Mynd af tertunni hennar Rakelar

Fyrir þessa stærð af brúðartertu þarf fjórfalda uppskrift af uppskriftinni hér að neðan. Gott er að gera tvöfalda uppskrift í einu svo aðeins þurfi að hræra í deigið tvisvar sinnum.

Súkkulaðikaka

450 g. sykur

220 g hveiti

90 g dökkt kakó

2 tsk matarsódi

1 tsk lyftiduft

½ tsk maldon sjávarsalt

2 egg

3 ½ dl súrmjólk

120 ml olía

2 tsk vanilludropar

 

Kökuform

2 x stór kökuform

2x meðalastór kökuform (24 cm)

2x minni kökuform

Hin kökuformin þurfa svo bara að vera stærri og minni en þetta sem þið setjið í miðjuna.

 

Aðferð

Stillið ofninn á 180°C og smyrjið kökuformin að innan.

Blandið sykri, hveiti, kakói, salti, matarsóda og lyftidufti saman í skál og hrærið saman. Blandið eggjum saman við, einu í einu, ásamt súrmjólk, olíu og vanilludropum. Hrærið á meðal hraða þar til allt hefur blandast vel saman, í rúmar 2 mín.

Skiptið deiginu jafnt milli bökunarformanna og sléttið úr deiginu. Bakið í ca. 30-35 mín, eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju kökunnar. Takið kökurnar út og kælið alveg áður en þið smyrjið kreminu á þær.

 

Vanillusmjörkrem

Fyrir þessa köku þarftu rúmlega 5-6 uppskriftir af uppskriftinni hér að neðan.

 

250 g smjör við stofuhita
1 pk flórsykur (500 g)
4 tsk vanilludropar (eða það bragð sem þú vilt)
2 msk mjólk (2-4 msk)

 

  1. Hrærið smjörið í hrærivélinni þangað til það er orðið mjúkt og létt.
  2. Bætið smá og smá af flórsykrinum saman við og hrærið vel á milli.
  3. Bætið því næst vanilludropunum saman við og mjólkinni. Ef ykkur finnst kremið of þykkt bætið þið við mjólk og ef ykkur finnst það of þunnt bætið þá við flórsykri. Mikilvægt er að hræra kremið mjög vel þegar maður ætlar að skreyta kökur því þá losnum við við alla smjörkekkina og kremið verður með fallega áferð. Því lengur sem þið hrærið því betra verður kremið.

 

Skraut: silfurkúlur og glimmer

Matarlitur: Matarlitur af vild

Sprautustútar:

   

  Fyrir blúndur                    Fyrir rósir - Sprautustútur 1M

 

Aðferð

Þegar þið eruð búin að baka alla botnana, kæla þá og undirbúa kremið í réttum lit er hafist handa. Þið leggið einn botn á þann kökudisk sem þið ætlið að bera kökuna fram á og smyrjið kremi á milli og setjið annan ofan á og endurtakið þetta þar til þið eru komin með þriggja hæða köku. Þegar þið hafið staflað botnunum ofan á hvorn annan og smurt alla kökuna með kremi er gott að taka trépinna (ég nota kínverska prjóna úr tré) og stingið 4 stk. ofan í kökuna með jöfnu millibili. Takið skæri og klippið pinnann meðfram kökunni svo þeir séu sléttir fyrir efsta lag kökunnar. Setjið kökupappa á milli áður en þið setjið næstu hæð ofan á og endurtakið þar til öllum botnunum hefur verið staflað ofan á hvorn annan (sjá mynd að neðan) þegar þetta er búð er gott að setja kökuna í  kæli í lágmark 30 mínútur eða þar til kremið hefur náð að storkna aðeins utan um kökuna. Með því að kæla kremið og láta það storkna verður auðveldara að skreyta kökuna.


Hérna er sýnt hvernig þið staflið botnunum ofan á hvorn annan, hvernig þið setjið trépinnana ofan í og hvernig þið undirbúið næsta lag fyrir kökuna. Best er þó að hafa pappann á neðstu myndunum í sömu stærð og næsti kökubotn er í.


Til þess að gera blúndur eða ruffles eins og það er kallað noti þið stútinn sem er sýndur hér að ofan, stærðin skiptir ekki öllu máli en því stærri sem þið notið því grófari verða blúndurnar. Setjið stútinn í sprautupoka og passið ykkur að fylla hann ekki meira en ½ því þá á kremið til með að verða mjög lint því hitinn úr höndunum okkar bræðir það á meðan við erum að skreyta. Snúið breiðari endanum alveg að kökunni og haldið stútnum beinum. Byrjið að vinna neðan frá og vinnið ykkur upp. Sprautið kreminu fram og til baka með litlum hreyfingum. Ég veit þetta getur hljómað flókið en það er það alls ekki, en það er líka gott að æfa sig áður en maður sprautar kreminu á kökuna sjálfa. 

Þegar þið hafið lokið við að skreyta hliðar kökunnar er um að gera að setja nokkrar fallegar rósir á hana. Þið notið sprautustút nr. 1M frá wilton og sprautið í hring, byrjið innan frá og vinnið ykkur svo út þar til falleg rós myndast. Gaman er að gera rósirnar t.d. í öðrum litum en kakan sjálf er og setja svo silfurkúlur ofan í hverja rós eða bara sem skraut.

 

Fyrir þá botna sem þið viljið bara hafa slétta og t.d. skreyta með silfurkúlunum þá er gott að setja eitt lag af kremi utan um kökuna og setja hana inn í ísskáp í 30 mínútur og setja svo annað lag af kremi yfir. Til þess að sletta sem best úr kreminu er gott að hafa glas með heitu vanti sér við hlið og dýfa spaðanum ofan í glasið af og til.

 

Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram, já ég mæli alveg eindregið með því, allavega ekki geyma hana á mjög heitum stað!!

 

Vá þetta blogg varð langt, en vona að þið hafið notið lestursins og getið tekið eitthvað með ykkur í baksturinn og jafnvel nýtt eitthvað af hugmyndum okkar fyrir ykkar eigið brúðkaup.

 

Kveðja

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!