Thelma Þorbergsdóttir
Bláberjagott
06. september 2016

Bláberjagott

Um daginn vorum við fjölskyldan á ferðalagi og stoppuðum við í fljótunum og tíndum nokkur bláber. Þau voru alveg hrikalega góð og gat ég ekki annað en að skella þeim í nokkrar uppskriftir! Við bíðum spennt eftir að fara aftur í berjamó saman. Kristófer situr og étur berin jafnóðum á meðan við hin stritum og tínum og tínum. Kristófer hinsvegar borðar ekki bláberin heima, bara beint úr móanum úti í náttúrunni! Hans uppáhald er þó bláberjaskyr frá MS og gæti hann borðað það í öll mál ef það stæði honum til boða og því fannst honum bláberjasjeikinn ekki slæmur! 

Bláberjasjeik

Hrikalega einfaldur, fljótlegur og frískandi sjeik fyrir alla í fjölskyldunni!

Fyrir um 2-4, fer eftir stærð glasanna.

Innihald

200 g vanilluís

250 g bláberjaskyr

150 g bláber

¼ lítri rjómi

Súkkulaðisíróp

 

Aðferð

Setjið vanilluís, skyr og bláber saman í matvinnsluvél eða blandara og blandið þar til allt hefur blandast vel saman. Sprautið súkkulaðisírópi inn í glösin og látið leka niður. Setjið því næst bláberjasjeikinn í glösin. Þeytið rjóma og sprautið honum fallega á eða setjið ofan á með skeið, skreytið með bláberjum og súkkulaðisírópi. Borðið strax. 

 

Kókosmarengs með bláberjum

Eggjahvítur úr 4 eggjum

280 g sykur

½ tsk lyftiduft

100 g kókos

 

Aðferð

Stillið ofninn í 150 gráðu hita og setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur og myndið tvo jafnstóra hringi á sitthvora plötuna. Þeytið eggjahvíturnar í hrærivél og blandið sykrinum rólega saman við. Þeytið þar til marengsinn er orðinn stífur og stendur. Setjið lyftiduftið saman við og hrærið vel. Blandið kókósnum saman við með sleif og setjið marengsinn á bökunarplöturnar. Bakið í rúmar 50 mínútur eða þar til marengsinn er alveg þurr viðkomu. Kælið marengsbotnana alveg áður en þið setjið á þá.

 

Bláberjasósa

300 g bláber, best er að nota fersk ber.

2 msk vatn

3 msk sykur

 

Aðferð

Setjið allt saman í pott og sjóðið yfir meðalháum hita, þegar berin eru farin að sjóða látið þau þá malla í rúmar 10 mínútur. Lækkið svo hitann og sjóðið í aðrar 5 mínútur á lágum hita. Gott er að láta berjasósuna standa í dágóða stund til að hún þykkni. Bláberjasósan verður að vera búin að kælast alveg áður en þið setjið hana á kökuna. Gott er að kæla sósuna inni í ísskáp.

 

Rjómi

½ lítri rjómi

50 g kókos

Sítrónubörkur af einni límónu

2 msk flórsykur

Aðferð

Þeytið rjómann þar til hann stendur en passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið. Oft er gott að þeyta rjómann ekki alveg. Blandið kókos, sítrónuberki og flórsykri saman við með sleif og hrærið þar til allt hefur náð að blandast saman.

Setjið marengsbotn á disk og setjið bláberjasósu ofan á, setjið síðan rjóma og hinn botninn ofan á. Þá setjið þið aftur bláberjasósu á botninn og rjóma ofan á. Skreytið með ferskum bláberjum og sigtið flórsykri yfir þau. Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram.

 

 

 Kveðja, Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Hér er hægt að fylgjast með mér á Facebook 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!