Thelma Þorbergsdóttir
Bananabrauð og bollakökur
16. janúar 2013

Bananabrauð og bollakökur

 

Nýtt ár og ný markmið! Það þarf þó ekki að koma nýtt ár svo maður geti sett sér ný markmið en það virðist þó mjög algengt að fólk sé ávallt að bíða eftir nýrri viku, ári og þess háttar. Mín markmið fyrir þetta ár eru mörg og hér er eitt þeirra! Ha, ha, ha. 

 

 

Og ég stóð við það og skellti í m&m bollakökur, flottar kökur t.d í barnaafmæli þar sem börnin hafa svo gaman af öllum þeim litum sem m&m eru í. Þær eru frekar fljótlegar og auðveldar.

 

 

 m&m bollakökur

Gerir u.þ.b  24 stk. en ef þið notið þessi hvítu litlu þá verða þær u.þ.b. 30-34 stk.

Stillið ofninn á 180 gráður. Undirbúningstími 20 mínútur, bökunartími 20 mínútur.

Innihald
340 g hveiti
3 tsk. lyftiduft
½ tsk salt
170 g smjör við stofuhita
375 g sykur
3 egg
2½ tsk vanilludropar
280 ml mjólk
100 g m&m, annað hvort heil eða skorin gróft.

Aðferð:

  1. Raðið bollakökuformunum á bökunarplötu.
  2. Hrærið smjör og sykur vel saman þangað til blandan verður ljós og létt.
  3. Bætið einu og einu eggi saman við og hrærið vel á milli, bætið svo vanilludropum saman við.
  4. Blandið hveitiblöndunni varlega saman við ásamt mjólkinni, setjið smá af hvoru tveggja og hrærið á milli.
  5. Bætið m&m saman við og hrærið með sleif.
  6. Setjið deigið í formin og passið að fylla þau ekki meira en 2/3. Bakið í u.þ.b. 20 mínútur. eða þar til kökurnar eru orðnar gylltar að lit.

 

Krem
250 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur
3 tsk. vanilludropar
50 ml. rjómi
80 g. m&m skorin smátt (einnig gott að setja í matvinnsluvél)

 

  1. Hrærið smjörið þangað til það er orðið mjúkt og fínt.
  2. Bætið smá og smá af flórsykri saman við og hrærið vel á milli.
  3. Bætið saman við vanilludropum og rjóma og hrærið vel.
  4. Bætið saman við m&m bitunum.

 

Þegar kökurnar hafa verið kældar þá setji þið kremið á, mér fannst koma best út  með þetta krem að setja eina matskeið ofan á hverja köku og skreyta með m&m, en hægt er að sprauta því á kökurnar af vild.

 

Hérna eru nokkrar hugmyndir af því hvernig hægt er að sprauta kremi á bollakökur og hvaða stúta þarf til.

 

1. Stórt hringlaga, 2. Opin stjarna Wilton 1M, 3. Lokuð stjarna Wilton 2D,

4. Svokallaður franskur stútur.

(fást í Allt í Köku)

 

Ég er mjög hrifin af þessum franska stút og nota hann frekar mikið þessa dagana, finnst kremið koma svo skemmtilega út.

 

Ég bakaði einnig bananabrauð um daginn sem ég bara verð að deila með ykkur, það er mjög einfalt og fljótlegt, fyrir utan að það þarf að vera í ofninum í rúma klst. en ég skal lofa ykkur því að það er svooooo þess virði! Því ég bætti smá súkkulaði saman við, já súkkulaði gerir nefnilega kraftaverk!

 

Innihald:
125 g smjör við stofuhita
175 g púðursykur, dökkur
2 egg
3 bananar (gott að hafa þá brúna)
100 g dökkt súkkulaði
250 g hveiti
½ tsk. sjávarsalt
2 tsk. lyftiduft
1 kúfuð tsk. kanill

 

Aðferð:
Hrærið smjöri og sykri saman þangað til það hefur blandast vel saman. Setjið eitt egg í einu og hrærið á milli. Stappið bananana og bætið þeim saman við, hrærið. Blandið saman þurrefnunum og hrærið vel. Því næst setjið þið súkkulaðið saman við, grófsaxað. Smyrjið 1 lítra brauðform eða setjið bökunarpappír ofan í og hellið deiginu í. Bakið í u.þ.b. 1 klst. við 175 gráður.

 

Gott er að borða brauðið með osti og smjöri eða að hætti Mr. Handsome, með heimatilbúnu möndlu- og hnetusmjöri sem hann útbjó sjálfur! Hver veit nema að hann deili því með ykkur fljótlega.

 

Verði ykkur að góðu!

 

    

 

www.facebook.com/freistingarthelmu

 

 

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!