Thelma Þorbergsdóttir
Avocado kjúklingasalat og grilluð pizzasamloka
13. febrúar 2018

Avocado kjúklingasalat og grilluð pizzasamloka

Ég ætla að deila með ykkur alveg hrikalega góðu avocado kjúklingasalti sem tekur enga stund að hræra saman. Salatið er einstaklega gott ofan á hrökkbrauð eða hverskyns kex og sem álegg á samloku. Snilld til að taka með sér sem nesti í vinnuna, í saumaklúbbinn eða í brunsið með fjölskyldunni um helgar. Einnig ætla ég að deila með ykkur grillaðri pizzasamloku með stökkri skorpu og rucola salati sem steikt er upp úr smjöri, hvað er betra en það?

Svo má ekki gleyma smáfólkinu, þannig ég ætla einnig að deila með ykkur tveimur uppskriftum af uppáhaldinu hennar dóttur minnar sem verður 9 mánaða á næstu dögum! Hvert fór tíminn?

Avocado kjúklingasalat

Innihald

300 g af tilbúnum kjúkling eða strimlum (ég notaði með fahitas kryddi)

1/3 rauðlaukur

4 msk. grísk jógurt frá Gott í matinn

1 avocado vel þroskað

2 msk. safi úr límónu

Salt

Pipar

Chilli

 

Aðferð

Skerið kjúkling niður í litla bita eða eins og þið viljið, fer eftir því hversu gróft þið viljið að salatið sé. Skerið rauðlauk smátt niður og blandið saman við kjúklinginn ásamt grískri jógurt og safa úr límónu. Hrærið þar til allt hefur blandast saman. Skerið avocado í tvennt og skafið innan úr því, stappið avocadoið vel og blandið saman við salatið og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Kryddið eftir smekk. Gott er að smakka salatið til svo það sé ekki of kryddað eða of sterkt.

Grilluð pizzasamloka

Innihald

2 sneiðar af grófu brauði (eða því brauði sem þið kjósið)

2 msk. pizzasósa

4 stk. pepperoni

2 sneiðar af osti eða rifinn ostur frá Gott í matinn

2 litlar kúlur af mozzarellaosti

Salt

pipar

2-3 msk. smjör

Rucola salat

 

Aðferð

Setjið pizzasósu á hvora brauðsneið fyrir sig. Setjið ostsneiðar ofan á ásamt pepperoni. Skerið mozzarellakúlurnar niður í sneiðar og raðið ofan á pepperoniið, kryddið með salti og pipar og lokið samlokunni. Hér er auðvitað smekksatriði hvað hver og einn vill hafa mikinn ost, ég segi bara því meira því betra. Setjið smjör á pönnu og hitið yfir meðalháum hita, setjið samlokuna á pönnuna og steikið á hvorri hlið fyrir sig þar til osturinn hefur bráðnað. Gott er að þrýsta örlítið ofan á samlokuna á meðan hún er að eldast. Berið fram með rucola salati.

…og fyrir smáfólkið

Avocado og banani

½ avocado vel þroskað

5 cm banani

Setjið hráefni í skál og maukið með töfrasprota. Borðið strax.

Jarðarberja smoothie

2 jarðaber

5 cm banani

2-3 msk. stoðmjólk eða önnur mjólk eftir smekk

Aðferð

Allt hráefni sett í blandara eða maukað með töfrasprota. Gott að drekka með röri.

 

Verði ykkur að góðu!

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!