Thelma Þorbergsdóttir
Afríkuafmæli Kristófers
05. maí 2015

Afríkuafmæli Kristófers

Þann 27. febrúar varð Kristófer Karl 6 ára, já litli strákurinn minn sem var bara 3 ára í gær! Hann er að fara byrja í skóla í haust og við foreldrarnir erum með kvíðahnút í maganum yfir því. Hann er þó mjög spenntur og setur oft upp skólatöskuna og segir, mamma, pabbi, ég fara skólann. Hann kvíðir eflaust ekkert fyrir enda ekkert að átta sig á hvað það þýðir að fara í skóla nema að honum finnst þetta eitthvað nýtt og spennandi. Hann veit líka að stórir krakkar fara í skóla og segir hann óspart að hann sé stór strákur eins og hann sé að minna okkur stressuðu foreldrana á að hann sé nú ekkert smábarn lengur. Við höfum ákveðið að Kristófer fari í sinn heimaskóla sem er Hraunvallaskóli í Hafnarfirði og erum við mjög spennt að sjá hvernig það gengur. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk verður hissa að hann sé að fara í „venjulegan“ skóla eins og fólk segir. Ég fæ oft þessa spurningu, „Er hann bara í venjulegum leikskóla?“eða „Fer hann bara í venjulegan skóla?“ Þegar ég svara játandi kemur stundum... „Já ok, en frábært.“ Ég hef líka verið spurð að því hvort Kristófer búi heima hjá sé ... en ég ætla ekki að fara út í það!

En Kristófer sem sagt býr heima hjá sér með „venjulegu“ eða kannski svolítið „óvenjulegri“ fjölskyldu sinni og hélt hann upp á afmælið sitt um daginn. Kristófer elskar dýr og þá sérstaklega ljón, sebrahesta, gíraffa og apa svo einhver dæmi séu tekin. Hann er ekkert að biðja um að fara í húsdýragarðinn um helgar, heldur biður Kristófer um að fara til Afríku! Ég hef stundum fundið fyrir því að fólk stoppi og hlusti þegar Kristófer fær þráhyggju fyrir Afríku t.d. þegar ég er stödd í matvörubúðinni. Þá segir Kristófer á nokkurra sekúndna fresti, „Mamma langar Afríku, langar Afríku, langar Afríku...“ Á endanum segi ég bara „Já, Kristófer við förum bráðum til Afríku!“ En fyrst við erum ekki á leiðinni þangað ákváðum við að skella í eitt Afríkuafmæli fyrir prinsinn sem var heldur betur sáttur.

Matseðill Afríkuafmælis:

Litlar pizzur (keyptar frosnar og beint inn í ofn)

Pylsubitar skornir niður og dýft í tómatsósu

Samlokur með skinku og osti, skornar út

Karamellupopp

Súkkulaðibollakökur með Oreo kremi

Súkkulaði apakaka

Lion King kaka

Rice krispies með súkkulaði

Kristófer bað um apaköku og ég ákvað að gera einfalda köku sem krakkarnir gætu aðstoðað mig við að gera. Ég notaði skúffukökuuppskriftina okkar góðu sem krakkarnir elska, skipti deiginu í tvö misstór hringlótt form og gerði bollakökur úr restinni. Fyrir eyrun á apanum notaði ég tvær bollakökur, skar þær í tvennt og setti ofan á hvor aðra.

Eins og þið sjáið er þessi kaka alls ekki fullkomin, en það sem var skemmtilegt við hana var að Kristófer gat sjálfur dreift úr kreminu og Hildur Emelía aðstoðaði mig við að sprauta á kökuna og búa til andlit. Við röðuðum svo bollakökunum í sameiningu. Það voru ekki allir alveg sammála um hversu langar lappir apinn ætti að hafa en þetta varð lokaútkoman!

Ég gerði 1 ½ uppskrift af skúffukökunni, hægt er að nálgast uppskriftina hér: http://freistingarthelmu.blogspot.com/2014/12/i-dag-eg-afmli-eg-kom-vist-ut-me-latum.html

Við skreyttum svo með smjörkremi sem við lituðum. Í dökka kremið settum við 2 msk af kakói saman við og svo matarlit. Það þarf tvöfalda uppskrift af smjörkreminu fyrir þessa köku.

Smjörkrem

250 g smjör við stofuhita

1 pk. flórsykur (500 g)

4 tsk vanilludropar 

2-4 msk mjólk

Aðferð:
Hrærið smjörið í hrærivél þangað til það er orðið mjúkt og létt. Bætið smá og smá af flórsykrinum saman við og hrærið vel á milli.

Bætið því næst vanilludropunum saman við og mjólkinni. Ef ykkur finnst kremið of þykkt, bætið þið við mjólk og ef ykkur finnst það of þunnt bætið þá við flórsykri. Mikilvægt er að hræra kremið mjög vel þegar maður ætlar að skreyta kökur því þá losnum við alla smjörkekkina og kremið fær fallega áferð. Því lengur sem þið hrærið því betra verður kremið. Kremið verður hvítara eftir því sem þið hrærið það lengur. Svo er um að gera að lita það með öllum regnbogans litum.

Við létum þó ekki duga að vera bara með eina afmælisköku og skelltum í aðra köku svo að Kristófer gæti notað Lion King dótið sitt sem við keyptum í Animal Kingdom um jólin. Þessi kaka var einnig gerð úr skúffukökuuppskriftinni, við notuðum fjóra botna, tvo meðalstóra og tvo minni sem fara ofan á. Við skreyttum svo kökuna með smjörkremi og KitKat sem kom bara ágætlega út. Til þess að gera gras notaði ég grasstút. 

Við buðum einnig upp á súkkulaðibollakökur með Oreo kremi. Ég held að það sé ekki til sú manneskja sem finnst Oreo kremið ekki gott og hafa þessar bollakökur alltaf slegið í gegn í afmælum hér á bæ. Við settum bollakökurnar auðvitað í sebraform svo að þetta yrði allt í stíl og skelltum litlum dýrum frá Afríku ofan á. Þið getið í rauninni notað hvaða uppskrift af köku sem er því kremið bragðast vel með öllu, sérstaklega súkkulaði- og vanillubollakökum.

Oreo-krem

450 g smjör við stofuhita

1 kg flórsykur

50 ml rjómi

2 tsk vanilludropar

15 Oreo-kexkökur

Aðferð:
Hrærið smjörið þar til það verður ljóst og létt. Bætið flórsykri smám saman við og hrærið vel á milli. Bætið rjómanum saman við. Bætið því næst vanilludropum út í og hrærið. Fínmalið Oreo-kexkökurnar í matvinnsluvél og bætið þeim saman við kremið og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á hverja köku fyrir sig.

Svo má ekki gleyma karamellupoppinu góða sem er svo gott að þú ferð í annan heim! Svo passar það líka svo einstaklega vel við Afríkuafmæli.

Innihald

120 g poppað poppkorn

50 g hunangsristaðar hnetur, eða hvaða hnetur sem er, má líka sleppa

70 g smjör

100 g púðursykur

60 g síróp

½ tsk gróft salt

½ tsk matarsódi

½ tsk vanilludropar

Aðferð:

Hitið ofninn í 120°C. Best er að nota heimatilbúið poppkorn en það sleppur þó alveg að nota örbylgjupopp. Setjið poppið í skál ásamt skornum hnetum og blandið því saman. Hitið smjörið, púðursykurinn, sírópið og saltið í litlum potti á meðalháum hita. Þegar allt hefur blandast vel saman og blandan farin að sjóða er hitinn hækkaður og karamellan látin malla í rúmar 5 mínútur. Hrærið allan tímann. Takið pottinn af hellunni og bætið þá matarsódanum og vanilludropunum saman við og hrærið vel, karamellan þykknar vel við þetta. Hellið karamellunni yfir poppið og hneturnar, setjið smátt og smátt af karamellunni yfir poppið og hrærið vel á milli. Karamellan er fljót að storkna og því þurfið þið að hafa hraðar hendur þegar þið blandið þessu öllu saman. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og hellið poppinu yfir. Dreifið vel úr poppinu. Það er allt í lagi þótt allt poppið sé ekki með karamellu því hún hitnar og bráðnar aftur inni í ofninum og þá hafið þið tækifæri til þess að hræra þessu öllu vel saman. Bakið poppið í klukkustund og hrærið í því á u.þ.b. 15 mínútna fresti. Eftir klukkustund skuluð þið taka poppið úr ofninum og láta kólna, karamellan þornar við þetta og gerir poppið stökkt og gott.

Við gerðum svo miða á flöskur með sebra- og gíraffamynstri og skrifuðum 'Kristófer 6 ára' á miðana. Síðan föndruðum við og klipptum út litlar myndir af dýrum og límdum á rörin. Einnig prentuðum við út dýragrímur sem við fundum á netinu sem krakkarnir gátu notað. Ég gerði einnig litabók með dýrum sem ég ætlaði að láta öll börnin fá til að fara með heim en gleymdi því! Við keyptum svo stóra partýfána og klipptum út myndir af dýrum og festum upp hérna í stofunni. Við fengum flest allt sem okkur vantaði í partýið í versluninni Allt í köku, eða rör, diska, servéttur, fána, matarliti og bollakökuform - allt í anda Afríku.

Það er alveg ótrúlegt hvað krökkunum finnst mikið sport að drekka úr svona flöskum. Ég safna bara flöskum og bý til mismunandi miða á þær, þvæ þær bara og nota aftur. Algjör snilld hvað þær geta gert fyrir afmælisveisluna. Þessar flöskur eru t.d. af trópí en svo er líka hentugt að geyma litlar glerflöskur með skrúfuðum tappa ofan á.

Þangað til næst!

Kveðja,

Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!