Thelma Þorbergsdóttir
Afmælisveisla með ísþema
03. júlí 2018

Afmælisveisla með ísþema

Afmæli með ís-þema og súkkulaðibita smákökur

Hildur og Harpa héldu upp á 8 ára og 1 árs afmælin sín saman um daginn. Hildur valdi ís-þema í afmælið þeirra, því jú það á að vera sumar! Nema það kom engin sól og rigndi bara all hressilega á okkur. Það voru þó allir til í ís og meira með því. Ég ætla að deila með ykkur því helsta sem við gerðum fyrir afmælisveisluna ásamt uppáhalds súkkulaðibita smákökunum hennar Hildar sem þurfa að vera í öllum afmælum hjá henni.

 

 

 

Á vefsíðunni catchmyparty.com er hægt að ná í allt sem við prentuðum út til að gera afmælið skemmtilegra, ótrúlegt hvað örlítið heimatilbúið skraut getur gert afmæli flott og skemmtileg. Um að gera að láta krakkana um þessar skreytingar, klippa, líma og skreyta.  

ICECREAM veifur

ICECREAM kökutoppar, boðskort, merkimiðar og fl.

 

Í kökunni eru tveir súkkulaðibotnar skreyttir með smjörkremi. Ég þurfti þrefalda uppskrift af smjörkremi til að skreyta kökuna. Uppskrift að smjörkreminu mínu.

Við notuðum ljósbleikan matarlit í kremið og skreyttum með kökuskrauti og glimmeri. Ég notaði sprautustút 1M frá Wilton og skreytti alla kökuna með honum. Í flestum búðum er hægt að kaupa nokkur ísform saman í kassa. Ég bræddi dökkt súkkulaði í potti, dýfði hverju ísformi fyrir sig ofan í súkkulaðið og síðan strax í kökuskraut. Á kökuna setti ég fjögur ísform og fyllti þau með hvítu smjörkremi og skreytti með súkkulaðisírópi og kökuskrauti.

Ég setti há kerti á kökuna sem mér finnst gera ótrúlega mikið og lyftir kökunni upp. Ég setti svo stjörnuljós ofan í hvern ís, sem er það skemmtilegasta við afmæliskökurnar eins og börnin mín segja. Stafina á kökuna skar ég út með sykurmassa.

Við notuðum svo restina af ísformunum til að bjóða upp á ís í afmælinu og gátu krakkarnir valið hvort þau vildu ís í ísform eða ísbox. Einnig er ótrúlega gott að skella einni súkkulaðibitaköku ofan í ísinn.

 

***

Mjúkar súkkulaðibitakökur

Það þarf ekki að kæla deigið á þessum sem styttir undirbúningstímann!

 

12 stk. (stórar) 20 stk. (minni)

Innihald

115 g smjör

100 g sykur

50 g púðursykur

1 tsk. vanilludropar

1 egg

220 g hveiti

1 tsk. matarsódi

½ tsk. gróft salt

300 g dökkt súkkulaði

Aðferð

Hitið ofninn í 180 gráðu hita (ég nota blástur) og setjið smjörpappír á tvær bökunarplötur

Setjið smjör í skál og hitið í örbylgjunni í 30 sek. Smjörið á bara rétt að bráðna svo það verði auðveldara að blanda því vel saman við sykurinn.

Setjið smjörið í skál ásamt sykri og púðursykri og hrærið þar til blandan verður ljós og létt. Bætið eggi og vanilludropum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Passið ykkur þó að hræra aldrei of mikið svo að kökurnar verði ekki seigar.

Setjið hveiti, matarsóda og salt saman í skál og hrærið saman. Bætið því saman við deigið smátt og smátt í einu og hrærið stuttlega á milli. Hrærið þar til deigið hefur myndað kúlu og alveg sleppt skálinni.

Skerið súkkulaðið gróflega niður og blandið því saman við deigið. Gott er að nota hendurnar hérna svo að súkkulaðið blandist vel saman við.

Myndið jafnstórar kúlur úr deiginu, eins stórar og þið viljið hafa kökurnar og raðið þeim með jöfnu millibili á bökunarplöturnar. Fyrir ykkur sem eigið kökuskeið er algjör snilld að nota hana því þá eru kökurnar allar jafn stórar. Bakið kökurnar í 10 mínútur eða þar til þær hafa náð gyltum lit og lyft sér vel. Passið ykkur að baka kökurnar alls ekki of lengi því þá verða þær seigar og harðar. Kökurnar eru alveg linar þegar þær koma út ur ofninum. Látið kökurnar kólna í nokkra stund áður en þið takið þær af bökunarplötunum. Kökurnar þurfa að jafna sig aðeins eftir að þær koma út úr ofninum og festast betur. Gott með ískaldri mjólk.

Til þess að kökurnar haldist mjúkar og góðar er mikilvægt að geyma þær í boxi. Einnig er hægt að frysta þær.

Kveðja, Thelma

www.freistingarthelmu.blogspot.com

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!